Skógarfróðleikur

Borgartré — gagnsemi gróðurs í borgum

Tré í borgum gleðja ekki bara augað. Þau hafa margskonar jákvæð áhrif á umhverfið og líf borgarbúa. Alþjóðlegur dagur skóga, 21. mars, er í ár helgaður skógum og heilbrigði.

Á Íslandi skiptir kannski mestu það skjól sem trén skapa. Líkt og fjallað var um í skógarfróðleik febrúarmánaðar, dregur tjágróður og skóglendi úr úr vindhraða. Svo mikið reyndar, að það sést vel á vindakortum. Tré draga einnig úr mengun — bæði efnamengun og hljóðmengun. Skjólbelti sitkagrenitrjáa við Miklubraut er líklega eitt besta dæmið um þetta. Tré og runnar veita líka fuglum og skordýrum skjól og fæðu og auka þannig líffræðilega fjölbreyttni í borgum sem án þeirra geta orðið hálfgerð vistfræðileg eyðimörk. Og auðvitað ýta tré og skógar undir útivist og gera hana skemmtilegri, hvort sem er vegna fjölbreyttara umhverfis eða þess hve gaman það er að til dæmis klifra í trjám og safna greinum.

 

Óáþreifanleg en margsönnuð áhrif á líðan og heilsu

Það er skemmtilegra að horfa út um gluggann út í trjákrónu heldur en beint út á götu eða inn til nágrannans. Og reyndar er það ekki bara skemmtilegra. Það er hollara. Vísindarannsóknir hafa sýnt fram á jákvæð heilsufarsleg áhrif þess að vera í tengslum við einhvers konar náttúru. Þekktust er líklega rannsókn sem læknir að nafni Roger S. Ulrich birti í vísindatímaritinu Science árið 1984. Rannsóknin sýndi að sjúklingar jöfnuðu sig misvel eftir skurðaðgerð, eftir því hvaða útsýni þeir höfðu úr sjúkrastofu sinni. Væri útsýnið útsýni yfir trjágróður eða skóg jöfnuðu þeir sig fyrr og betur en ef glugginn snýr bara að vegg næstu byggingar.

Fleiri kostir trjáa, sem við fyrstu sýn virðast huglægir, hafa verið mældir. Til dæmis tengsl trjáhulu við almennt heilsufar. Í Kaliforníu reyndist samhengi milli trjáhulu og offitu. Í hverfum þar sem trjáhula var 10% meiri, var offita allt að 19% minni. Þá voru sjúkdómar og kvillar á borð við sykursýki 2, astma og háan blóðþrýsting því sjaldgæfari sem trjáhulan var meiri. Algengara var að fólk færi út að hreyfa sig í hverfum þar sem tré voru algeng. Umhverfi og veðurfar í Kaliforníu er auðvitað allt annað en á Íslandi. Trjáhulan veitir fólki kannski fyrst og fremst skjól fyrir sólinni. Á Íslandi er þó ekki síður verðmætt að fá skjól fyrir landlægu rokinu. Og svifryki. Og svo gera trén umhverfið ánægjulegra að dvelja í.

Gagnsemi borgartrjáa til mengunarvarna hefur einnig verið rannsakað. Borgartré bjarga árlega lífum um 1900 Breta, samkvæmt skýrslu bresku hagstofunnar frá árinu 2017. Hagstofan mat það einnig svo að trén lækki kostnað vegna hjarta- og lungnasjúkdóma um einn milljarð punda; jafnvirði nær 170 milljarða íslenskra króna. Þetta gera trén, samkvæmt skýrslu bresku hagstofunnar, með því að draga að sér mengunarefni á borð við svifryk og köfnunarefnisoxíð.

En það er ekki bara jákvætt fyrir heilsu fólks að hafa fleiri tré, eitt og eitt, í borgum. Græn svæði virðast einnig hafa töluverð áhrif á heilbrigði fólks og draga úr dánartíðni. Rannsókn sem Alþjóða heilbrigðismálastofnunin lét gera, og náði til átta milljóna manna, sýndi jákvæð áhrif þess að hafa gott aðgengi að grænum svæðum með trjágróðri, skammt frá heimilinu. Samkvæmt rannsókninni leiddi hver 10% aukning á slíkum svæðum, innan 500 metra frá heimilinu, til þess að tíðni ótímabærrar dauðsfalla minnkaði um 4%.

Rannsóknir japanskra vísindamanna á heilsufarslegum áhrifum þess að dvelja í skógi benda til þess að slíka „skógarböð“ bæti virkni ofnæmiskerfisns, dragi úr kvíða og þunglyndi og leiði til lægri blóðþrýstings.

Ilmbjörk í garði Ásmundarsafns var útnefnd Borgartréð 2013. Tréð var gróðursett 1944. Það greinist í sex greinar og því fyrirtaks klifurtré.

Silfurreynirinn í Fógetagarðinum Reykjavík, var Borgartré Reykjavíkur 2010.

80 ára gam­alt Evr­ópulerki í Hóla­vallag­arði var útnefnt Borg­ar­tréð 2011.

Trjágróður getur gert borgarumhverfið afar notalegt.

Fjölbreytt og falleg tré í Reykjavík, þrátt fyrir stutta sögu

Trjá- eða skógarþekja í þéttbýli evrópskra borga er nú að meðaltali um 30%. Á Englandi er hlutfallið talsvert lægra – um 16%. Erfitt er að fullyrða um sambærilegar tölur fyrir Reykjavík. Tré eru tiltölulega nýtt fyrirbæri á Íslandi. Lengi vel voru menn jafnvel efins um að tré gætu yfirleitt þrifist vel á Suðurlandi.

Þó trjáflóran í íslensku þéttbýli geti virst einsleit, er fjölbreyttnin nokkur. Víða má finna í görðum óvenjuleg tré, sem hafa kannski verið gróðursett í hálfgerðri tilraunastarfsemi og dafnað vel. Í Reykjavík má til dæmis finna fallega álma, hrossakastaníur, fjallaþineik og jafnvel skógarbeyki. Í þessum trjám felast mikil verðmæti. Við borgarbúar þurfum að meta þau að verðleikum og hlúa vel að þeim fyrir komandi kynslóðir.

Mörg fallegustu tré og trjálundir á höfuðborgarsvæðinu, urðu til fyrir hálfgerða tilviljun. Silfurreynirinn sem nú er elsta tré Reykjavíkur kom til landsins 1883 með danska landlækninum, sem svo vildi til að var mikill áhugamaður um garðrækt og matjurtir. Einarsgarður, við Landspítalann á Hringbraut, óx út frá gróðrarstöð í byrjun 20. aldar. Svipaða sögu má segja af Svartaskógi í Fossvogi, sem óx upp umhverfis Fossvogsstöðina, um hálfri öld síðar.

Nú þegar verið er að undirbúa íbúabyggð í landi Keldna, er ekki úr vegi að vekja athygli á merkilegu gróðurlendi Kálfamóa. Frumkvöðull að skógrækt í Kálfamóa var 15 ára unglingur, Jóhann Pálsson, sem síðar varð garðyrkjustjóri Reykjavíkur. Vorið 1947 notaði Jóhann orlofsfé sitt til að kaupa og gróðursetja þrjár greniplöntur. Plönturnar uxu upp innan girðingar ásamt gömlum vesturbæjarvíði, enda sauðfé á beit allt í kring. Á næstu árum og áratugum dró úr beit en plöntunum og tegundum fjölgaði. Svæðið er nú um þrír og hálfur hektari og fjöldi tegunda gríðarlegur. Má þar nefna ask, álm, gráöl, heslirunna, hegg, rifsber, hindber og jarðarber og svo mætti lengi telja. Jóhann Pálsson lést 3. mars síðastliðinn. Lesa má um ræktunarstarfið og flóru Kálfamóa hér.

Það eru ekki lítil auðæfi fyrir væntanlega íbúa í nýju hverfi að hafa slíka gróðurvin tilbúna – ávöxt 76 ára ræktunarstarfs. Því er ánægjulegt við fyrirhugaða uppbyggingu sé lögð áhersla á að „nýta og taka mið af náttúrugæðum svæðisins“. Meðal annars hvernig tengt er við Kálfamóa og aðra lykilstaði í Keldnaholti.

Það er ekki ónýtt að hafa gott klifurtré í nágrenninu.

Svartiskóguri í Fossvogi er ekki stór, en býður upp á ævintýralegt umhverfi.

Í Björnslundi, útivistarsvæði í Norðlingaholti. Svæðið er nýtt af íbúum, sem og börnum í Norðlingaskóla og á leikskólanum Rauðhól.

Jóhann Pálsson í miðjunni, ásamt Brynjólfi Jónssyni (v) og Þorsteini Tómassyni (h) við hegg sem var tré ársins 2021.

Í Björnslundi.

Í Björnslundi.

Aðalsteini Sigurgeirssyni er þakkað fyrir fjölmargar ábendingar um rannsóknir sem sýna fram á ávinning af trjágróðri í borgum. Lesendum er bent á erindi hans í Könglinum — hlaðvarpi Bændablaðsins.

 

Myndin efst í þessari færslu er af ráðhúshlyninum við Suðurgötu í Reykjavík. Mynd: Berserkur, Wikimedia Commons.

2 thoughts on “Borgartré — gagnsemi gróðurs í borgum

Comments are closed.