Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur haft umsjón með Esjuhlíðum frá árinu 2000 þegar félagið tók við jörðunum Mógilsá og Kollafirði. Þar hafði Skógrækt ríkisins og fleiri ræktað skóg um árabil og kom því í hlut Skógræktarfélags Reykjavíkur að hirða um þann skóg sem fyrir var auk þess að planta í nýja reiti og hafa landnemar meðal annars komið að því.

Útivistarsvæðin við Esjuna eru vinsæl og fjölsótt. Síðustu tvö ár hefur verið unnið að því að útvíkka skipulögðu útivistarsvæðin til að dreifa álagi og mæta þörfum ólíkra hópa. Nýtt bílastæði hefur verið gert við Kollafjarðará, neðan Gunnlaugsskarðs. Þaðan liggur gönguleið og tvær sérstakar fjallahjólaleiðir. Sumarið 2020 var lagður tengistígur milli þessa svæðis og Esjustofu við Mógilsá.

Nýtt, hnitmerkt kort var útbúið af útivistarsvæðinu í Esjuhlíðum árið 2021, með nákvæmum lýsingum á stígakerfi svæðisins. Kortið er aðgengilegt hér og hægt að hlaða því niður hér.

Stærstur hluti gamla skógarins við rætur Esju tilheyrir Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá og er hann að mestu undanskilinn leigusamningi við Skógræktarfélag Reykjavíkur. Svæðið var skipulagt samkvæmt deiliskipulagi á vegum Landmótunar.

Fréttir af viðburðum og framkvæmdum í Esjuhlíðum er safnað saman hér á síðunni undir merkinu Esjufréttir.