Heiðmörk

Heiðmörk er stærsta útivistarsvæðið á höfuðborgarsvæðinu og eitt það vinsælasta. Um Heiðmörk liggja tugir kílómetra af stígum. Flestir eru ætlaðir gangandi en þar eru einnig hjólastígar, reiðstígar og skíðaspor þegar veður leyfir. Fjöldi áningarstaða hefur verið útbúinn til að auka ánægju fólks af því að dvelja í skóglendinu.

Hér að neðan má nálgast gagnlegar upplýsingar og fróðleik um Heiðmörk.

Heiðmörk er vatnsverndarsvæði og eru gestir friðlandsins beðnir um að sýna varkárni.

Allir eru velkomnir í Heiðmörk til að njóta útiveru í sátt við náttúru og umhverfi.

Fræðslurjóður
Fræðslurjóðrin eru austan við Elliðavatnsbæinn. Í fræðslurjóðrinu fer fram náttúru- og umhverfiskennsla fyrir börn og unglinga. Fræðslurjóðrið er á reit N4 á þessu korti.

Furulundur – Dropinn
Furulundur var gerður árið 2000 í tengslum við að Reykjavík var kjörin Menningarborg Evrópu. Þetta er fjölskyldulundur búinn leiktækjum, blakvelli og grillaðstöðu. Inn af Furulundi er Dropinn, áningarstaður með grilli, borðum og bekkjum. Furulundur er á reit Q8 á kortinu.

Grenilundur
Grenilundur er fjölskyldurjóður frá 2005. Þar er grillaðstaða, bílastæði og leik- og klifurtæki. Grenilundur rúmar um 50 manns. Grenilundur er á reit Q9 á kortinu.

Helluvatn
Á áningarstaðnum við Helluvatn er grillaðstaða undir þaki. Áningarstaðurinn við Helluvatn er á reit N4 á kortinu.

Hjallaflatir
Hjallaflatir eru stærsti áningarstaður Heiðmerkur. Þar geta komið saman meira en 300 manns. Þar er fótboltavöllur og grillaðstaða. Hjallaflatir eru á reit G12 á kortinu.

Símamannalaut
Símamannalaut er afrakstur kraftmikils landnemastarfs. Félag íslenskra símamanna hóf gróðursetningu þar strax eftir friðun Heiðmerkur árið 1950. Í Símamannalaut er bílastæði, grill, borð og bekkir. Svæðið hentar vel fyrir hópa upp að 40 manns. Símamannalaut er á reit P7 á kortinu.

Vífilsstaðahlíð
Árið 1958 varð Vífilsstaðahlíð hluti af Heiðmörk eftir samninga milli Skógræktarfélags Reykjavíkur og stjórnar ríkisspítalanna. Þá var strax hafist handa við gróðursetningu þar. Í Vífilsstaðahlíð er einnig að finna trjásafn sem Skógræktarfélag Reykjavíkur byrjaði að gróðursetja árið 1990. Vífilsstaðahlíð er á reit B8-D11 á kortinu.

Vígsluflöt – Rariklundur
Heiðmörk var stofnuð formlega 25. júní 1950 á Vígsluflöt. Á vígsluhátíðinni gróðursetti þáverandi borgarstjóri Gunnar Thoroddsen sitkagreniplöntu sem í dag er myndarlegt tré. Á 50 ára afmæli Heiðmerkur gróðursetti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þáverandi borgarstjóri ilmreyni á Vígsluflöt. Á Vígsluflöt eru grill, borð og bekkir, og bílastæði. Svæðið getur rúmað um 70 – 100 manns. Vígsluflöt er á reit P7 á kortinu.

Þjóðhátíðarlundur
Skógræktarfélag Reykjavíkur stofnaði Þjóðhátíðarlund árið 1974 til að minnast 1100 ára afmælisÍslandsbyggðar og jafnframt 75 ára afmælis skógræktar á Íslandi. Þjóðhátíðarlundur er í Löngubrekkum og skammt frá eru Hulduklettar. Í Þjóðhátíðarlundi er grill, borð og bekkir, bílastæði, leiktæki og fótboltavöllur. Svæðið hentar vel fyrir stærri hópa eða 70 – 100 manns. Þjóðhátíðarlundur er á reit K11 á þessu korti.

Allir eru velkomnir í Heiðmörk, jafnt einstaklingar sem hópar til að njóta útiveru, í sátt við náttúruna og náungann.

Fræðslustígur

Fræðslustígurinn í Heiðmörk er varðaður 43 fræðsluskiltum þar sem ýmis konar fróðleik um fugla, plöntur, tré, jarðfræði og sögu svæðisins er að finna. Skiltin eru prýdd fallegum teikninum eftir Brian Pilkinton og fleiri. Leiðin liggur meðfram Elliðavatni, suður fyrir Myllulækjartjörn, inn í skóginn á Elliðavatnsheiði og til baka í vesturátt að Helluvatni og loks Elliðavatnsbæ. Upplagt er að hefja gönguna frá Elliðavatnsbæ og halda til suðurs til að byrja með. Leiðin er um 9 km löng og má reikna með 2 til 2 1/2 klukkutímum í gönguna. Skiltin voru endurnýjuð sumarið 2023, með styrk frá Veitum og verkefnastyrk frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.

 

Saga Heiðmerkur

Á 70 ára afmæli Heiðmerkur, 2020, stóð Skógræktarfélagið fyrir margs konar viðburðum og fræðslu um friðlandið. Meðal annars var haldið úti sögudagatali þar sem birtar voru myndir og myndskeið úr sögu félagsins. Þá var saga félagsins rituð og birt hér á heidmork.is. Loks voru tveir útvarpsþættir um sögu Heiðmerkur fluttir á Rás 1.

Náttúra Heiðmerkur er bæði fögur og fjölbreytileg. Þar eru um hundrað tegundir trjáa og runna, tugir mosategunda, mikið fuglalíf, sjaldgæfur lággróður og afar sérstakar jarðmyndanir.

Gróðurfar

Gróðurfar í Heiðmörk er nokkuð fjölbreytt. Um eitt hundrað tegundir trjáa og runna hafa verið gróðursettar í Heiðmörk. Sum hafa náð að framleiða fræ auk þess sem í Heiðmörk hefur lengi verið villt birkikjarr, þótt það hafi verið nokkuð illa farið áður en svæðið var friðað 1949. Náttúrulegt birki er nú á rétt ríflega 1.000 hekturum í Heiðmörk. Barrskógar eru á um 400 hekturum í Heiðmörk og er bróðurpartur skógarins hærri en fimm metrar. Blandskógar eru á meira en 400 hekturum til viðbótar og yngri skógar á 100 hekturum. Annað landsvæði er til að mynda vötn, gróðursnauðir melar, örfoka land, hraun, graslendi og lúpínubreiður.

Lúpínu var fyrst plantað í Heiðmörk árið 1959. Næstu ár og áratugi breiddust lúpínubreiður út á gróðursnauðum melum í Heiðmörk og á lágheiðunum norður af Heiðmörk. Þar sem land hefur gróið upp, hefur lúpínan hörfað á síðustu áratugum, líkt og fræðast má um í grein Daða Björnssonar í Skógræktarritinu 2011. Skógræktarmenn segja að lúpína hafi í alla staði reynst vel sem undanfari skógræktar í Heiðmörk.

Reklar á sitkagreni í Heiðmörk í júní 2020. Mynd: Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir.


57 tegundir mosa fundust á þremur stöðum í Heiðmörk í rannsókn Náttúrufræðistofnunar árið 2005. Þá fundust einnig tvær sjaldgæfar plöntutegundir: Eggjatvíblaðka, sem er friðlýst og á válista, og bakkaarfi, sem þá fannst í fyrsta sinn á Íslandi.

Fuglalíf

Fjölskrúðugt fuglalíf er í Heiðmörk. Þar má finna margar sjaldgæfar tegundir og tegundir sem eru á válista, svo sem branduglu, gargönd og himbrima. Einnig hefur sést til fjölbreytts hóps gesta – allt frá innlendum tegundum á borð við haförn og skeiðönd til erlendra flækinga, til að mynda gráhegra og trjásvölu. Hafsteinn Björgvinsson hefur fylgst með fugla- og dýralífi á verndarsvæðum vatnsbóla Reykjavíkur, fyrir Veitur, um langa hríð, og birt um það árlegar skýrslur.

Gráhegrar hafa oft vetursetu á vatnasvæðum Heiðmerkur. Þeir eru flækingar hér á landi. Gráhegrar sækjast eftir síli og fiski í tjörnum og vötnum Heiðmerkur. Gráhegrar koma hingað líklegast frá Evrópu. (Úr skýrslu Veitna.) Mynd: Hafsteinn Björgvinsson.

Góðar líkur eru til að hægt sé að koma auga á jaðrakan, óðinshana og himbrima í Heiðmörk. Á veturnar er talsvert um rjúpu. Nýbúar eins og glókollur verpa í Heiðmörk. Undanfarin ár hefur nokkrum sinnum verið staðið fyrir fuglaskoðun í Heiðmörk, í samstarfi Skógræktarfélags Reykjavíkur og Fuglaverndar.

Rannsókn á fuglalífi í Heiðmörk árið 2009 leiddi í ljós að þéttleiki fugla var mestur í barrskógi og lúpínu. Algengustu varpfuglarnir voru hrossagaukur, þúfutittlingur, skógarþröstur og auðnutittlingur. Alls verptu þá 2.600 pör þessara tegunda. Næstum helmingur voru skógarþrestir. Auk þess voru þá nokkrir skógarfuglar að byrja að koma sér fyrir í Heiðmörk, svo sem skógarsnípa, glókollur, svartþröstur og krossnefur. Fuglalífið er ríkulegast í og við votlendi. Í fjölbreyttum, vöxtulegum skógi er einnig töluvert fuglalíf en minna í mosaþembum og lyngmóum.

Spendýr og fiskar

Í Heiðmörk er nokkuð fjölbreytt fána spendýra, að minnsta kosti á íslenskan mælikvarða. Þar eru mýs, kanínur, villikettir, refir og minkar. Hundar og hestar leggja svo leið sína í Heiðmörk, í fylgd með mönnum. Í Elliðavatni fyrirfinnast allar fimm tegundir ferskvatnsfiska sem vitað er um á Íslandi – lax, bleikja, urriði, hornsíli og áll.

Jarðfræði

Jarðfræðilega er einkum tvennt sem einkennir Heiðmörk: Annars vegar misgengi og sprungur í berggrunninum og hins vegar hraun. Í Heiðmörk er fallegar og áhugaverðar jarðmyndanir á borð við Maríuhella og hrauntröðina Búrfellsgjá. Þekktustu jarðmyndanir á svæðinu eru þó án efa Rauðhólar – gervigígar sem urðu til í gufusprengingum fyrir um 4.700 árum, þegar Leitahraun rann yfir votlendi Elliðavatnssvæðisins.

Rauðhólar voru notaðir sem gjallnáma og mikið efni tekið þaðan, einkum þegar verið var að byggja Reykjavíkurflugvöll á stríðsárunum. Eftir það var gjall úr Rauðhólum notað í húsgrunna og sem ofaníburður í götur. Sigurður Þórarinsson mun hafa lýst viðburðum þannig, árið 1950, að Rauðhólum hafi „verið dreift yfir Hringbrautina og aðrar götur í úthverfum höfuðborgarinnar, þar sem gjall þeirra mylst í dust af hjólbörðum bílanna og lendir að síðustu í lungum Reykvíkinga“. (Páll Líndal, Árbók Ferðafélags Íslands 1985, bls. 21-22.) Á þessu gekk þar til svæðið var friðlýst sem náttúruvætti árið 1961. Árið 1974 voru Rauðhólar friðlýstir sem fólkvangur.

Um jarðfræði Heiðmerkur má til að mynda fræðast í grein Jóns Jónssonar í Skógræktarritinu, sem nálgast má hér.

Vatnsverndarsvæði

Mikilvæg vatnsverndarsvæði eru í Heiðmörk, öll í umsjá og undir eftirliti Orkuveitu Reykjavíkur. Þaðan hafa Reykvíkingar fengið vatn frá árinu 1909. Vatnstökusvæði eru Gvendarbrunnar, Myllulækjarsvæði og Vatnsendakriki. Strangar umgengnisreglur gilda á vatnsverndarsvæðunum í Heiðmörk, enda kemur þaðan ferskvatn fyrir um helming landsmanna.

„(…) þingstaðr þessi er í mesta lagi fornlegr, og þegar hann er borinn saman við aðra þingstaði, sem eg hefi rannsakað, er það ljóst, að hann er frá þjóðveldistímanum.“

Sigurður Vigfússon fornfræðingur, 1893.

Á Þingnesi, sem gengur út í Elliðavatn, eru leifar að minnsta kosti 18 fornra mannvirkja frá fyrstu árum Íslandsbyggðar. Margt bendir til að minjarnar séu „með merkustu minjum landsins“, eins og Guðmundur Ólafsson fornleifafræðingur segir í umfjöllun sinni um rannsóknir á Þingnesi.*

Þingnes. Loftmynd af uppgraftarsvæðinu frá 1984. Mynd úr skýrslu Þjóðminjasafns Íslands.

 

Í Íslendingabók og Landnámu segir að Þorsteinn Ingólfsson, sonur Ingólfs Arnarsonar, hafi sett þing á Kjalarnesi, áður en Alþingi var stofnað á Þingvöllum, árið 930. Vaxandi áhugi á sögu Íslands og íslenskum fornbókmenntum um miðja 19. öld, varð til þess að farið var að leita að þeim stöðum sem þar er lýst. Þeirra á meðal Kjalarnesþingi.

Engar minjar hafa fundist um fornt þing á Kjalarnesi. En árið 1841 hélt Jónas Hallgrímsson upp í rannsóknarleiðangur að Þingnesi, eftir að honum barst ábending um minjar þar. Rannsóknarleiðangur hans fann þar fjölda rústa í þyrpingu og taldi Jónas að Kjalarnesþing hafi á einhverjum tíma verið haldið á Þingnesi. Guðmundur Ólafsson fornleifafræðingur segir að sennilega sé þetta upphaf fræðilegra rannsókna á fornleifum hér á landi.

Næstu áratugi voru fjölmargar rannsóknir til viðbótar gerðar á staðnum, bæði af íslenskum og erlendum fornfræðingum. Þeir sem könnuðu staðinn voru sammála um að hann væri líklega forn þingstaður.

Á árunum 1981 til 1986 stóð Þjóðminjasafn Íslands að rannsókn á svæðinu. Þá kom meðal annars í ljós að minjarnar eru fjölbreyttari en áður var talið. Í upphafi virðist hafa verið þarna föst búseta en síðar tímabundin – annað hvort þing á sumrum eða seljabúskapur.

Yfirlitskort af minjasvæðinu á Þingnesi, samkvæmt uppmælingum 1981 – 1984 og 1989. (Guðmundur Ólafsson, Paul C. Buckland).

Áhugaverðustu mannvirkin eru líklega tveir hringir á miðju svæðinu. Ytri hringurinn er grjóthleðsla, um einn metri á þykkt og átján metrar í þvermál. Innan í henni er svo annar hringur, um átta metrar í þvermál og hlaðinn úr torfi sem virðist hafa verið rist um aldamótin 900. Innan veggsins er svo hellulögn. Grjóthleðslan er yngri og er talin frá 11. eða 12. öld.

Ekki er ljóst hvaða hlutverki þetta mannvirki gegndi. Guðmundur Ólafsson nefnir að það hafi mögulega verið lögrétta eða fjárborg. Síðari möguleikinn sé þó ólíklegur þar sem byggingin er á miðju svæðinu og enginn inngangur hefur fundist í hringinn. Þá hefur það þótt mikilvægt einkenni á þingstað, að sögn Guðmundar, að þar væri hringlaga mannvirki – dómhringur eða lögrétta. Ekki hefur tekist að skera úr um hvort þingstaður hafi verið á Þingnesi, þótt Guðmundur segi að „leiða megi að því nokkrum líkum.“


*Umfjöllun þessi byggir rannsóknarsögu sem Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur og starfsmaður Þjóðminjasafns Íslands, skrifaði árið 2004: Þingnes við Elliðavatn og Kjalarnesþing. Rannsóknasaga 1841 – 2003. Hægt er að nálgast hana hér.

Myndir á síðunni eru fengnar úr skýrslunni, með góðfúslegu leyfi höfundar.

 

Hirðum rusl og úrgang

Förum varlega með eld

Höfum hunda í bandi öllum stundum og hirðum upp eftir þá

Hestar skulu ávallt vera á merktum reiðstígum og reiðgerðum

Hlífum gróðri eins og kostur er

Skiljum við svæðið eins og við viljum koma að því

Næturgisting er óheimil

Sérstakt leyfi þarf fyrir notkun rafstöðva

 

Allir eru velkomnir í Heiðmörk jafnt einstaklingar sem hópar til að njóta útiveru í sátt við náttúru og umhverfi.

 

Park Regulations

 

Please pick up all litter and waste

Use fire with caution

Keep dogs leashed at all times and clean up after them

Keep horses to marked riding paths and rest areas

Avoid damage to plant life

Leave the area as you would like to find it

It is not allowed to stay overnight in Heiðmörk, for example in a tent

A special permission is required for using power stations

 

Everyone is welcome in Heiðmörk to enjoy the outdoors with respect for nature and the environment. 

Kort af Heiðmörk með helstu örnefnum, vegum og stígum má nálgast hér.

Settu inn leitarorð til að sjá niðurstöður.