Skógarfróðleikur

Lýðheilsa, útivist og skógar

„Sunnudaga-skemmtistaður“. „Lystigarður“ við Rauðavatn. Einhver staður þar sem hægt væri að njóta útivistar í sæmilega grænu umhverfi — þetta vantaði sárlega í nágrenni höfuðborgarinnar þegar hún var að verða til í upphafi tuttugustu aldar. Fólk vildi „komast á gras“ eins og það var líka orðað. Enda þjóðþrifamál að „stuðla að hollri sunnudagaskemtun“ eins og það var orðað í Morgunblaðinu árið 1925.

Þessi löngun eftir góðu svæði til útivistar hefur verið einn af drifkröftunum í starfi Skógræktarfélags Reykjavíkur. Og í dag njótum við ávaxtanna af því starfi. Á Íslandi eru fjölmörg gróin útivistarsvæði. Víða eru ágætis útivistarskógar, þótt skóglendi á Íslandi mætti auðvitað vera miklu meira. Hér verður fjallað um útivist í skóglendi, lýðheilsu og nokkrar hugmyndir að því hvernig hægt er að njóta skóglendisins og dvelja í því, í stað þess að þjóta bara í gegn eins og okkur Íslendingum er svo hætt við að gera.

Útivist í grónum skógum er óviðjafnanleg. Fólk sem er vant malbiki og þéttbýli, tekur eftir því hvað skóglendið er þægilegt fyrir skynfærin: Róandi litir, góð hljóðvist, mjúkur skógarbotn, gróðurilmur og logn. Ævintýralegt umhverfið og fjölbreyttur gróður geta svo kveikt á ímyndunaraflinu. Svo eru skógar með nokkra yfirburði sem útivistarsvæði fyrir fjölskyldur. Skógurinn býður upp á endalausa möguleika til að leika sér, klifra, safna, byggja, hugsa upp ævintýri og skoða náttúruna í öllum sínum fjölbreytileika.

Tálgun kennd í Furulundi í Heiðmörk.
Þetta góða klifurtré er við Ásmundarsafn í Reykjavík.
Poppað yfir varðeldi.
Skýli í finnskum skógi. Svona skýli, þar sem hægt er að hvílast, elda eða jafnvel gista, eru algeng t.d. í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Oft er eldstæði fyrir framan þau og jafnvel eldiviðargeymsla sem ganga má í, í nágrenninu.

Auk þess hefur verið sýnt fram á hvað borgartré og græn svæði eru góð fyrir lýðheilsu fólks. Trén draga úr mengun og skapa betri aðstæður til útivistar. Og aukin náttúra í borgum virðist einfaldlega gera fólk hamingjusamara. Fjallað var um nokkrar rannsóknir á þessu í Skógarfróðleik marsmánaðar.

Það er líklega engin tilviljun hvað það er mikið um tré á mörgum vinsælustu útivistarsvæðum heimsins. Líka þeim sem eru í miðjum borgum. Og sömu sögu er að segja af Íslandi. Það má til dæmis nefna Öskjuhlíð, Elliðaárdal, Kjarnaskóg, Hellisgerði og Heiðmörk.

Í skóglendi er tilvalið að fara í leiki eins og náttúrubingó eða fallin spýta. Í bókinni Leikgleði, sem er aðgengileg á vef Menntamálastofnunar, má finna 50 leiki sem hægt er að fara í utandyra. Ferðafélag Íslands heldur úti ratleik í Heiðmörk. Við landnemaspildu félagsins er póstkassi, þar sem hægt er að nálgast eintak af ratleiknum og kort. Nánari upplýsingar um ratleikinn má finna á vef Ferðafélags Íslands.

Ratleikur!
Þessum fjórfætlingi leiðist ekki að rölta um í Heiðmörk.

Fólk sem stundar skógrækt getur líka ræktað líkama sinn með því að vinna í skóginum. Hvort sem fólk stundar skógrækt í stórum stíl eða er með  nokkur tré við sumarbústað. Verkin eru fjölbreytt og hægt að vinna þau allt árið um kring, enda alltaf skjól í skóginum. Það er líka stór kostur við þessa tegund líkamsræktar — líkamlega vinnu — að púlið skilar ekki bara hraustari líkama og aukinni vellíðan. Heldur líka sjáanlegum árangri í grænna og fallegra umhverfi.

 

Að lokum nokkrar hugmyndir fyrir útivist í skóglendi:

  • Sveppatínsla – hreinsið sveppina og eldið þegar heim er komið.
  • Berjaferð – borðið berin út á skyr eða búið til berjapæ eða sultu.
  • Ratleikur – með eigin kort og vísbendingar.
  • Tarsan í skóginum – klifrað í trjám, allir með sína bækistöð og kallmerki.
  • Fuglaskoðun – fuglahandbókin með í för, fuglar taldir, hlustað á fuglasöng.
  • Sólarferð – ferð til að sjá sólina koma upp.

 

Góða skemmtun!

Fjallahjólamennsku er vel hægt að stunda á veturna, í góðu umhverfi, t.d. Heiðmörk. Mynd: Icebikes.
Börn í skíðagöngu í Heiðmörk, á vegum Skíðagöngufélagsins Ulls. Mynd: Ullur.
Heiðmerkurhlaupið 2020.
Skógarleikar í Furulundi í Heiðmörk, 2018. Mynd: Lilja Birgisdóttir.
Skáli sem Skógræktarfélag Eyfirðinga gerði.
Matsveppum fer fjölgandi í íslenskum skógum. Mikilvægt vera viss um að sveppirnir sem tíndir eru, séu ætir.