Sögudagatal

Fossvogsstöðin – plöntuskóli höfuðborgarsvæðisins

Ein helsta hindrunin á fyrstu áratugum skipulagðar skógræktar á Íslandi, var skortur á trjáplöntum. Til að rækta upp skóga að einhverju marki, að útvega fræ og þróa þekkingu á því hvaða trjátegundir þrifust best við íslenskar aðstæður.

Frumkvöðlar í skógrækt lögðu mikla áherslu á að vernda þær skógarleifar sem eftir væru, svo hægt yrði að nota fræ úr innlendum tegundum – birki og reyni. Samhliða því voru gerðar tilraunir með aðrar tegundir. Í fyrstu var reynt að flytja inn ungar trjáplöntur frá Danmörku og Noregi, en það gafst misvel. Betur gekk að rækta tré upp af fræi. Síðar komu tegundir og kvæmi sem hentuðu betur íslenskum aðstæðum, meðal annars eftir leiðangra skógræktarfólks til Alaska og Norður-Noregs.

Engu að síður var uppeldi trjáplantna enn á byrjunarstigi um miðja tuttugustu öld. En þá komst framleiðsla í gróðrarstöðinni í Fossvogi á fullan skrið. Fossvogsstöðin var stofnuð 1932, á landi sem bæjarstjórn Reykjavíkur afhenti Skógræktarfélaginu. Landið var frjósamt og hallaði mót suðri en skjóllaust. Því var byrjað á að ræsa það fram og rækta upp skjólbelti.

Unnið í gróðrarstöðinni í Fossvogi. Borgarspítalinn sést í fjarska. Mynd: Skógræktarfélag Reykjavíkur.

Unnið í gróðrarstöðinni í Fossvogi. Mynd: Skógræktarfélag Reykjavíkur.

 

Árið 1950 voru 67 þúsund plöntur afhentar úr stöðinni og 157 þúsund árið 1952. Meðal þeirra birki, sitkagreni, rauðgreni, stafafura, hlynur, reynir, víðir og rifs. Um 60 mismunandi tegundir voru þá ræktaðar í Fossvogsstöðinni – margar í tilraunaskyni, til að kanna hvaða tegundir þrifust best við íslenskar aðstæður.

Skógræktarstöðin í Fossvogi var áratugum saman lykilþáttur í starfsemi Skógræktarfélags Reykjavíkur. Stærsti hluti þeirra trjáplantna sem voru ræktaðar í Fossvogsstöðinni, var gróðursettur í Heiðmörk, Öskjuhlíð, við Rauðavatn og á Austurheiðum. Starfsemin var því undirstaða skógræktar í Reykjavík um langt skeið. Þá er hluti af garðatrjám Reykvíkinga og nærsveitunga ættaður úr Fossvogsstöðinni.

Í lok tíunda áratugarins var rekstur Skógræktarfélags Reykjavíkur og skógræktarstöðvarinnar í Fossvogi aðskilinn. Stöðin var sameinuð gróðurstöðinni Barra árið 1998 og landið í Fossvogi loks selt Reykjavíkurborg árið 2000. Þar sem Fossvogsstöðin var, er nú Ræktunarstöðin í Fossvogi og útivistarskógurinn Svartiskógur.

Nokkur beð með sitkagreni í Fossvogsstöðinni árið 1955. Mynd: ÓIafur K. Magnússon/Þjóðminjasafn Íslands.

Loftsmynd af Fossvogsstöðinni. Mynd: Skógræktarfélag Reykjavíkur.

Þessi færsla er hluti af sögudagatali í tilefni af því að 120 ár eru frá því að Skógræktarfélag Reykjavíkur var upphaflega stofnað, 25. ágúst 1901. Hægt er að lesa meira um sögu félagsins hér og um 120 ára afmælið hér.