Lög

1. grein:

Félagið heitir Skógræktarfélag Reykjavíkur og er héraðsskógræktarfélag innan vébanda Skógræktarfélags Íslands.

2. grein:

Tilgangur félagsins er að vinna að skógrækt, trjárækt og landbótum fyrir almenning í Reykjavík og víðar. Vill félagið með því stuðla að bættu samspili og lífsskilyrðum manna, dýra og  gróðurs.

3. grein:

Félagið vill ná tilgangi sínum meðal annars með því: Að leggja stund á skógrækt og styðja við skógrækt einstaklinga,  félaga og fyrirtækja. Að veita fræðslu um skógrækt og trjárækt og gildi skóga í náttúrunni. Að stuðla að rannsóknum á öllum þáttum skógræktar og runna- og trjátegundum. Að starfa með Reykjavíkurborg að ræktun á löndum borgarinnar. Að starfa með viðeigandi aðilum  á hverjum stað s.s. félögum, einstaklingum og  sveitarfélögum að framgangi skógræktar. Að hafa umsjón með skógræktar- og útivistarsvæðum.

4. grein:

Einstaklingar, félög, stofnanir og fyrirtæki geta orðið félagar . Félagar greiða árgjald og er árgjaldið ákveðið á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða. Heimilt er að ákveða hærra árgjald fyrir félög, stofnanir og fyrirtæki. Þeir sem gerst hafa ævifélagar verða það áfram.

5. grein:

Stjórn félagsins skipa 8 menn, skulu þeir kosnir á aðalfundi. Stjórnin skal skipta með sér verkum,  einn skal vera formaður, annar varaformaður, þriðji ritari og fjórði féhirðir.  Aðrir stjórnarmenn eru meðstjórnendur.
Kjörtímabil er fjögur ár og ganga tveir menn úr stjórn árlega.  Í fyrstu þrjú skiptin ganga menn úr stjórn eftir hlutkesti.
Aðalfundur kýs ennfremur fjóra menn í varastjórn til fjögurra ára og gengur einn úr ár hvert eftir sömu reglu og að framan greinir.
Nú fellur stjórnarmaður frá eða segir sig úr stjórninni, áður en kjörtímabili hans lýkur og skal þá á næsta aðalfundi kjósa stjórnarmann í hans stað út kjörtímabilið, hafi því ekki lokið á aðalfundinum. Á sama hátt skal kjósa varamann í stað þess sem fellur frá, segir sig úr varastjórn eða er kosinn stjórnarmaður.
Enn fremur kýs fundurinn tvo skoðunarmenn ársreikninga og varamenn þeirra, svo og fulltrúa á aðalfund Skógræktarfélags Íslands.

6. grein:

Halda skal aðalfund félagsins eigi síðar en í aprílmánuði ár hvert. Stjórn félagsins boðar til aðalfundar með útgáfu félagstíðinda, bréfi eða almennri auglýsingu með tveggja vikna fyrirvara.
Hún ákveður fundarstað og stund. Aukaaðalfund má halda, ef stjórn félagsins þykir ástæða til eða 50 félagsmenn óska þess. Á aðalfundi ræður afl atkvæða úrslitum mála í öðrum en þeim er um getur í 8. og 9. grein þessara laga.
Dagskrá aðalfundar er:
Skýrsla um starfsemi félagsins síðastliðið ár.
Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
Kosningar samkvæmt félagslögum.
Tillögur um framtíðarstarfsemi félagsins.
Önnur mál, sem fram eru borin.

Aðalfundur kýs heiðursfélaga eftir tillögu stjórnarinnar.  Á aðalfundi hafa allir ævifélagar og skuldlausir ársfélagar atkvæðisrétt.

7. grein:

Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda og skal annast um, að skipulag félagsins og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi.  Sé framkvæmdastjóri ráðinn, fara stjórn og framkvæmdastjóri með stjórn félagsins.  Stjórnin ræður framkvæmdastjóra.  Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur félagsins og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem félagsstjórn hefur gefið.  Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikilsháttar.  Slíkar ráðstafanir getur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá félagsstjórn, nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana félagsstjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi félagsins.  Í slíkum tilvikum skal félagsstjórn tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina.  Félagsstjórn skal annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins.  Ef ráðinn er framkvæmdastjóri, skal hann sjá um að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti.

8. grein:

Félagið hættir störfum, ef það er samþykkt á tveimur lögmætum aðalfundum í röð með ¾ greiddra atkvæða á hvorum fundinum og ráðstafar sá síðari eigum félagsins.

9. grein:

Lögum þessum verður eigi breytt nema á lögmætum aðalfundi með ¾ greiddra atkvæða.  Tillögur frá félagsmönnum um lagabreytingar skulu berast félagsstjórninni eigi síðar en einum mánuði fyrir aðalfund. Tillögur um lagabreytingar skulu tilkynntar með aðalfundarboði.

Lögum þessum var síðast breytt á aðalfundi félagsins 2003.