Gamli salurinn Elliðavatni

Benedikt Sveinsson hæstaréttardómari og alþingismaður lét byggja íbúðarhús úr hlöðnu grjóti við Elliðavatn, árið 1860. Húsinu var breytt í hlöðu á tuttugustu öld og byggt við það fjós.

Undir aldamótin síðustu hófst Skógræktarfélag Reykjavíkur handa við að endurgera gamla hlaðna húsið með aðstoð Orkuveitunnar. Þar er nú tvískiptur salur sem tekur um 80-100 manns. Skógræktarfélag Reykjavíkur notar salinn fyrir fundi, félags- og fræðslustarf. Þar er líka haldinn jólamarkaður við miklar vinsældir á aðventunni.

Mögulegt er að fá salinn leigðan til dæmis í tengslum við fundi, námskeið eða ráðstefnur. Salurinn hentar ekki til veisluhalds. Nánari upplýsingar um aðstöðuna og leigu á salnum má nálgast hér.

Elliðavatnsbærinn

Saga Elliðavatnsbæjarins er áhugaverð og samofin sögu Reykjavíkurborgar og þeim breytingum sem orðið hafa á síðustu öldum.

Fyrstu heimildir um Elliðavatnsjörðina finnast í máldaga frá 1234 en þar segir að Viðeyjarklaustur eigi Elliðavatnið hálft. Við siðaskipti varð jörðin konungseign en ekki fer miklum sögum af jörðinni þar til Innréttingar taka til starfa í Reykjavík upp úr miðri 18. öld. Eitt helsta verkefni þessa fyrirtækis var ullarvinnsla. Ákveðið var árið 1756 að stofna fjárræktarbú á Elliðavatni fyrst og fremst til að bæta þar með kynbótum þá ull, sem yrði tekin til vinnslu, en jafnframt til að tryggja fyrirtækinu næg verkefnið. Til kynbóta voru fluttir inn hrútar af enskum stofni. Sænskur maður, Hastfer barón, mikill áhugamaður um kynbætur sauðfjár rak þetta fyrirtæki fyrst í stað, en fjárbú Innréttinganna var aftur stofnað í Helliskoti þarna skammt frá árið 1757.  Á ýmsu gekk með reksturinn; svo virtist þó brátt, að allt mundi fara skaplega, en þá dundi ólánið yfir. Í búinu kom upp veiki í sauðfénu, aðallega fjárkláði, sem breiddist út með miklum hraða, þannig að ekkert fékkst við ráðið. Um 1760 var sauðfjáreign landsmanna talin nálægt 360 þúsund, en 1770 var hún komin niður í um það bil 140 þúsund. Þetta er talið eitt mesta áfall, sem íslenskur landbúnaður hefur nokkur sinni orðið fyrir. Það er nokkuð sjálfgert að sögu fjárræktarbúsins á Elliðavatni var nú lokið. Var það formlega lagt niður 1764. Árið 1815 var jörðin seld eins og fjöldi konungsjarða þá um mundir.

Árið 1860 eignast Benedikt Sveinsson alþingismaður og yfirdómari í Landsyfirrétti jörðina og flutti þangað ásamt fjölskyldu sinni árið eftir. Þann 30. október 1864 fæddist sonur Benedikts og Katrínar konu hans, þjóðskáldið Einar Benediksson. Fyrsta vísan hans er sögð hafa orðið til þar þegar hann var 7-9ára og ort um vinnumann:

Jósep er og hundur hans

hungraðir að vana,

seggur þessi sunnanlands

segist kominn að bana.

Benedikt hóf mikil umsvif á Elliðavatni; búskapur var þar fyrst í stað mikill, vinnufólk 11, en auk þess bætt við um sláttinn. Hann ákvað að ráðast í geysimiklar áveituframkvæmdir, réð tugi manna til að gera um eins km langan stíflugarð yfir Dimmu og Bugðu, nokkurn veginn þar sem stífla Rafmagnsveitunnar er nú. Með þessari áveitu á Elliðavatnsengin sem átti að ná yfir 200 ha lands, átti að vera unnt að margfalda heyfenginn. Svo fór þó að draumar Benedikts um að gera Elliðavatn að mestu bújörð á Íslandi vildu lítt rætast. Búskapur gekk saman og Benedikt hvarf úr embætti yfirdómara og fluttist norður að Héðinsflóa sem sýslumaður Þingeyinga.

Benedikt var mikill áhugamaður um byggingu steinhúsa, enda af sumum talinn sjúklega eldhræddur. Hann réðst í það að láta reisa steinhús á Elliðavatni úr hlöðnu grjóti. Þegar Benedikt var kominn í andstöðu við yfirvöldin hugðist hann stofna án tilskilins leyfis prentsmiðju á Elliðavatni, en næsta lítið varð úr því fyrirtæki. Var rekstur stöðvaður þegar í byrjun. Aðeins tveir ritlingar voru prentaðir þar og var Jón Ólafsson höfundur beggja.

Á árunum 1923, 1927 og 1928 eignaðist Rafmagnsveita Reykjavíkur Elliðavatn. Var jörðin keypt í sambandi við raforkuvinnslu, sem hófst við Elliðaárnar árið 1921. Búskapur var stundaður með hefðbundnum hætti þar til 1941, en þá tók þar til starfa vistheimili fyrir geðsjúklinga, og starfaði það um alllangt skeið. Að því kom að vistheimilið var lagt niður og búskap með öllu hætt. Árið 1963 var samið um það við Skógræktarfélag Reykjavíkur, að það skyldi fá jörðina til varðveislu, frá 1964 var bærinn aðsetur starfsmanns félagsins sem hafði eftirlit með Heiðmörk. Árið 2004 flutti Skógræktarfélag alla starfsemi sína í Heiðmörk og er bærinn nú notaður undir skrifstofur félagsins og félagsstarfsemi ýmis konar.

Jólamarkaður í Gamla salnum.