Skógræktarfélags Reykjavíkur hefur valið Tré febrúarmánaðar og er það fjallaþinur (Abies lasiocarpa) í garði við Melgerði 1. Fjallaþinurinn er frekar sjaldgæfur hér á landi og þá aðallega notaður í jólatrjáaræktun, en má hiklaust nota meira í görðum. Bragi Svan Stefánsson gróðursetti tréð um1965, núverandi eigandi er Halla Arnar. Tréð er 9 metrar á hæð, ummál stofns í 1,30 metra hæð frá jörðu er 1,16 m.
Tré mánaðarins er fjallaþinur (Abies lasiocarpa) í garði við Melgerði 1 í smáíbúðahverfinu.
Fjallaþinur er sjaldgæfur og telur dómnefnd Skógræktarfélagsins að tréð í Melgerðinu sé mjög líklega það hæsta sinnar tegundar í höfuðborginni. Það mælist 9 metrar á hæð, ummál stofns í 1,30 metra hæð er 1,16 metrar, þvermál krónu um 4 metrar.Smáíbúðarhverfið tók að byggjast á 6. áratug síðustu aldar, einkenni hverfisins eru lítil vel við haldin hús með snotrum görðum. Einstaka tré rís upp yfir hverfið eins og turnar á stangli og er þar aðallega um að ræða sitkagreni og alaskaösp, sum hver orðin fullfyrirferðarmikil í litlum görðum, önnur eru staðsett þannig að sóma sér vel og eiga þátt í að draga úr vindi á stóru svæði í heilu hverfi. Þannig eru risarnir mikilvægir í smáíbúðahverfinu og nauðsynlegt að lofa þeim lifa og dafna sé þess nokkur kostur.Melgerði 1 var byggt árið 1953. Um sjö árum síðar flutti þangað Bragi Svan Stefánsson (1926-2006) mikill skógræktarmaður sem reyndi fjölda tegunda í sínum garði, m.a. annars fjallaþininn sem mun hafa verið gróðursettur 1965. Auk fjallaþinsins í garðinum má nefna áberandi hvítþin og marþöll. Núverandi eigandi er Halla Arnar.Fjallaþinur er sú þintegund sem best hefur gengið að rækta hér á landi, austur á Hallormsstað lifa tré sem gróðursett voru í byrjun 20. aldar og nálgast nú að vera 20 metrar á hæð. Fjallaþinurinn er ættaður úr Klettafjöllum N-Ameríku þar sem hann vex í allt að 3600 metra hæð yfir sjó, en nær reyndar niður að sjávarmáli í Alaska. Hann verður sjaldan hærri en 20-30 metrar í heimkynnum sínum og getur náð 250 ára aldri. Hann er sígrænn og haldast nálarnar lengi á trénu. Börkur ungra trjáa er grár með harpixblöðrum. Vöxturinn keiluulaga og góður ilmur af trénu öllu. Þolir vel að vaxa í skugga. Nálar mjúkar, könglar uppréttir á greinum eins og á öðrum þintegundum, þeir hrynja í sundur þegar fræin þroskast svo köngulteinninn stendur einn eftir. Um 50 þintegundir finnast á norðurhveli jarðar og hafa hér á landi meðal annars verið reyndar balsamþinur, hvítþinur, eðalþinur og nordmannsþinur, en fjallaþinur ber af þeim öllum í harðgeri. Hann hefur mest verið notaður í jólatrjárækt en hentar líka mjög vel sem garðtré.
Viður fjallaþinsins er mjúkur og ljós og mest notaður í pappírsgerð. Frumbyggjar vestra nýttu hann bæði sem lyf og til smíða, nálarnar voru brenndar sem reykelsi. Fjöldi dýra stórra sem smárra lifir í fjallaþinsskógum Klettafjalla og má þar nefna elg og bláorra, en hann lifir á nálum þinsins að vetrarlagi og nýtur góðs af skjólinu sem tréð gefur. Kannski verður bláorrinn fluttur hingað í framtíðinni og tekur sér bólfestu í fjallaþinsskógum inn til landsins? Fátt ætti að vera því til fyrirstöðu að flytja hingað fallega og matarmikla fugla eins og orra, sem gefa skóginum aukið líf og tilbreytingu og henta mjög vel til skotveiða.