Fréttir

Uppbygging, viðhald og endurbætur í Heiðmörk

Hægt var að sinna uppbyggingu í Heiðmörk af myndarskap í sumar. Undanfarin ár hefur Landsvirkjun stutt við starf Skógræktarfélags Reykjavíkur í Heiðmörk og Esjuhlíðum. Vinnuflokkar ungs fólks, undir yfirskriftinni Margar hendur vinna létt verk, hafa unnið ómetanlegt starf m.a. við gróðursetningar, stígagerð, sorphirðu og málningarvinnu.

Samstarf eins og það sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur átt við Landsvirkjun, á stóran þátt í því hve vel Heiðmörk vaxið og dafnað á síðustu árum. Skóglendið heldur áfram að grænka. Útivistarinnviði hafa batnað ár frá ári. Og friðlandið nýtur sífellt meiri vinsælda til útivistar og endurnæringar.

Verkefninu Margar hendur vinna létt verk hefur nú verið hætt. Í ár veitti Landsvirkjun félaginu hins vegar styrk sem gerði það mögulegt að sinna ýmsum verkefnum með myndarlegum hætti. Svo sem gróðursetningum, viðhaldi, umhirðu og uppbyggingu innviða í Heiðmörk.

Meðal þess sem styrkurinn frá Landsvirkjun gerði okkur kleift að gera, er að gróðursetja mikinn fjölda trjáplantna, taka á móti hópum og bjóða upp á þátttökugróðursetningar. Þá voru áningarhús, salerni og sorpgeymslur voru málaðar. Bílastæði við Hjalladal var lagfært. Hreinsun og umhirðu var sinnt af myndarskap. Og starfsmenn sem hægt var að ráða vegna styrks Landsvirkjunar aðstoðuðu líka við grisjun í skóglendinu. Grisjun krefst kunnáttu, vandvirkni og er nokkuð mannaflsfrek, enda er Heiðmörk bæði útivistarsvæði og vatnsverndarsvæði. En eftir grisjun verður skógurinn aðgengilegri, fallegri og verðmætari.

Nokkur uppbygging var líka á útivistarsvæðum í Heiðmörk í sumar. Unnið var að stígagerð og viðhaldi stíga. Ný borð með áföstum bekkjum voru sett upp á nokkrum stöðum. Húsgögnin eru gerð úr sitkagreni úr Heiðmörk og smíðuð af Fangaverki — trésmíðaverkstæðinu á Litla-Hrauni.

Þá var ráðist í tímabæra yfirferð á Furulundi. Furulundur er fjölskyldusvæði í hjarta Heiðmerkur þar sem hægt er að koma saman, grilla og leika — bæði í skóginum og ýmsum leiktækjum. Meðal þeirra er „leikhúsið“, sem var orðið nokkuð lúið eftir mikinn leik í áranna rás. Það var lagað og er nú sem nýtt. Borið var á leiktæki og bekki í Furulundi og víðar með efnum sem tryggja endingu þeirra en eru ekki skaðleg náttúrunni.

Útivistarsvæði hafa mikil jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks. Á höfuðborgarsvæðinu, þar sem nær tveir þriðju hlutar landsmanna búa, er Heiðmörk stærsta og kannski fjölsóttasta útivistarsvæðið. Nauðsynlegt er að sinna stöðugt viðhaldi, umhirðu og uppbyggingu til að sem flest fólk geti sótt þangað og notið útiveru og útivistar á fjölbreyttan hátt.

Framlag Landsvirkunar gerði félaginu kleift að sinna þessum verkefnum vel í ár. Sem er afar verðmætt fyrir lýðheilsu íbúa höfuðborgarsvæðisins. Samstarf eins og samstarfið við Landsvirkjun á undanförnum árum, gerir okkur mögulegt að gera Heiðmörk ennþá betri, grænni og skemmtilegri.

Salernishúsið og áningarhúsið við Helluvatn.
Eitt af borðunum með áföstum bekkjum sem sett voru á valda staði í Heiðmörk í sumar.
Orri og Geir gróðursetja Reynitré við Helluvatn í Heiðmörk.
Elriplöntur bíða þess að verða gróðursettar.
Leikhúsið í Furulundi.
Leikhúsið í Furulundi.