Fréttir

Jón Gnarr borgarstjóri opnar jólaskóginn í Grýludal

Jón Gnarr, borgarstjóri og fyrrverandi skógarhöggsmaður, opnar Jólaskóginn í Grýludal í Heiðmörk formlega með því að fella fyrsta tréð laugardaginn 8. desember kl. 11. Jólaskógurinn er svo opinn þeim sem vilja koma og höggva sitt eigið jólatré allar helgar fram að jólum frá kl. 11-16. Jólasveinar verða á sveimi í skóginum og boðið er upp á kaffi og kakó.
Jólamarkaðurinn á Elliðavatni í fullum gangi
Skógræktarfélag Reykjavíkur heldur árlega jólamarkað við Elliðavatnsbæinn í Heiðmörk. Þar eru ýmsir handverksmenn og hönnuðir með fjölbreytt úrval  sölubása þar sem þau kynna vörur sínar fyrir gestum jólamarkaðarins.
Skógræktarfélagið selur einnig jólatré, hin sívinsælu tröpputré, eldivið og er með kaffihús þar sem boðið er upp á kaffi, kakó og vöfflur.
Á hverjum degi er síðan dagskrá með upplestrum fyrir fullorðna og börn.
Kveikt á Jólatré Jólamarkaðarins
Á sunnudaginn kl. 15 verður kveikt á Jólatré Jólamarkaðarins á Elliðavatni við hátíðlega athöfn en þetta er í fyrsta sinn sem það er gert. Til stendur að gera þetta að árlegum viðburði og bjóða nýjum hönnuði eða myndlistarmanni að spreyta sig við skreytingarnar í hvert sinn. Tinna Þorvaldsdóttir Þórudóttir handverkskona ríður á vaðið en hún hannaði sérstakar skreytingar fyrir jólatréð sem eiga eftir að gleðja augu markaðsgesta. Sjón er sögu ríkari.