Viðarbretti úr íslenskum við, gerð af föngum sem vinna á trésmíðaverkstæðinu á Litla Hrauni, eru nú til sölu hjá félaginu. Brettin eru úr ösp, greni og reynivið og verða seld á kostnaðarverði.
Trésmíðaverkstæðið á Litla Hrauni er einn af vinnstöðum fanga. Um leið og þeir sinna vinnu innan fangelsins, gefst föngunum tækifæri til að læra ákveðin grunnatriði í trésmíði. Það getur gagnast þeim sem vilja mennta sig frekar í faginu.
Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur átt í góðu samstarfi við Fangaverk. Í fyrra framleiddi Fangaverk borð með áföstum bekkjum, úr sitkagreni úr Heiðmörk. Nokkrum bekkjum hefur verið komið fyrir víðs vegar í Heiðmörk. Aðrir voru seldir í verslun félagsins. Og svo eru nokkrir bekkir á Jólamarkaðnum, svo að fólk geti tyllt sér og haft það notalegt.
Timbrið í nýju viðarbrettunum kemur úr nærumhverfinu og hefur verið flett og þurrkað í Heiðmörk. Flest brettin eru úr ösp sem hefur ýmsa góða eiginleika, þótt hún hafi lengi verið vanmetin sem smíðaviður. Viðurinn hentar vel í mataráhöld vegna þess að hann á ekki að gefa frá sér lykt eða bragð. Ösp hentar líka vel til að tálga vegna þess hvað viðurinn er mjúkur. Þá brotnar ösp lítið eða kvarnast og getur verið skrautleg með viðaræðar og mynstur í viðnum. Ösp leiðir hita illa og hefur þess vegna lengi verið notuð í sánur.
Viðarbrettin frá Fangaverki verða til sölu á Jólamarkaðnum í Heiðmörk, líkt og margskonarar vandaðar handverksvörur aðrar. Og auðvitað jólatré, tröpputré og greinar. Markaðurinn í Heiðmörk verður opinn nú um helgina, níunda og tíunda desember; og um næstu helgi, frá 12 til 17. Jólaskógurinn á Hólmsheiði verður opinn sömu daga, frá 11 til 16. Í Jólaskóginum verður varðeldur. Jólasveinar kíkja í heimsókn og hægt að kaupa kaffi og kruðerí. Frá og með föstudeginum 15. desember verður líka jólastemmning í anda félagsins á Lækjartorgi.
Á Jólamarkaðnum þessa helgina spilar lúðrasveitin Svanur jólalög á torginu. Sigrún Eldjárn og Ragnheiður Gestsdóttir lesa upp úr barnabókum sínum í Rjóðrinu við varðeld. Og margt fleira. Frekari upplýsingar má finna hér.