Á döfinni, Fréttir

Jólamarkaður í Heiðmörk, Jólaskógur og jólatrjáasala á Lækjartorgi

Skógræktarfélag Reykjavíkur stendur fyrir fjölbreyttum og jólalegum viðburðum á aðventunni. Skógarmenning með notalegri jólastemningu er í forgrunni. Laugardaginn 2.desember opnar Jólamarkaður í Heiðmörk og Jólaskógur á Hólmsheiði. Í vikunni fyrir jól verður hin árlega jólatrjáasala á Lækjartorgi. 

Jólamarkaðurinn í Heiðmörk 

Jólamarkaðurinn við Elliðavatnsbæ í Heiðmörk er haldinn aðventuhelgar af Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Undanfarin ár hefur verið ríkuleg jólastemming og ánægjulegt að sjá hvernig heimsókn á markaðinn hefur fest sig í sessi sem aðventuhefð hjá mörgum borgarbúum. 

Með Jólamarkaðinum vill félagið stuðla að ævintýralegri upplifun í vetrarparadísinni Heiðmörk þar sem fólk getur notið útiveru í skóginum, valið fallegt jólatré og einstakar gjafir á handverksmarkaðnum, og fengið sér kökur og heitt kakó. Félagið selur að sjálfsögðu aðeins íslensk jólatré. Fyrir hvert jólatré sem selst eru 50 gróðursett. Á handverksmarkaðnum er sérstök áhersla lögð á einstakt handverk og innlend matvæli úr náttúrulegum hráefnum. 

Barnastund verður í Rjóðrinu, nærri Elliðavatnsbænum, á hverjum opnunardegi markaðarins, klukkan 14. Þar lesa höfundar barnabóka úr verkum sínum. Undanfarin ár hefur oft myndast ævintýraleg skógarstemmning í Rjóðrinu, við varðeld í skjóli trjánna.

Veitingasala er úti í jólakofa og nýristaðar jólamöndlur. Gestir geta valið um að sitja úti, á nýjum bekkjum frá Fangaverki, eða tylla sér inn í jólasal Elliðavatnsbæjarins sem er skreyttur af nemendum Hjallastefnunnar þetta árið. Gestum er bent á að klæða sig vel og njóta útivistarsvæðisins í Heiðmörk þegar þeir heimsækja Jólamarkaðinn. Út frá Elliðavatnsbænum er fjöldinn allur af gönguleiðum sem sjá má á korti hér. 

Jólatrjáasala – sjálfbærni og vistvæn ræktun 

Megnið af jólatrjánum sem Skógræktarfélagið selur, koma úr Heiðmörk. Öll trén á markaðnum eru íslensk og eru því mun vistvænni en innflutt tré. Kolefnisspor þeirra er margfalt minna en innfluttra trjáa og þau eru ræktuð án skordýraeiturs. Fyrir hvert selt tré eru 50 gróðursett. 

Auk jólatrjánna er boðið upp á hin vinsælu tröpputré, greinabúnt og eldivið. 

Skógræktarfélagið fagnar fjölbreytileikanum og hefur um árabil boðið upp á Einstök jólatré. Þetta eru tré með mikla sérstöðu og eru í öllum stærðum, gerðum, formum og tegundum. Það er alltaf mikil stemmning að finna einstöku trén fyrir markaðinn og spennandi að sjá hvaða gersemar hafa fundist í skóginum. Margir fastakúnnar koma sérstaklega til að kaupa einstöku tréin og skemmta sér við að velja, oft á tíðum mjög skúlptúrísk tré. Verðskrá fyrir jólatré og tröpputré má nálgast hér.

Jólamarkaðstré 

Á hverju ári býður Skógræktarfélagið myndlistarmanni eða hönnuði að skreyta jólamarkaðstréð. Listamaðurinn Lilý Erla Adamsdóttir skreytið jólamarkaðstréð í ár með handmáluðu skrauti sem unnið er úr íslenskum við úr Heiðmörk. 

Handverksmarkaður 

Á handverksmarkaðnum er hægt að finna einstakar jólagjafir unnar af handverksfólki, bændum í matvælavinnslu og listamönnum. Mikið af vörunum eru ekki aðgengilegar í verslunum svo hér gefst einstakt tækifæri til að versla bæði spennandi matvörur og jólagjafir á einum stað. Sérstök áhersla er lögð á vandaðar handunnar vörur úr náttúrulegum efnum, listaverk úr viði svo og innlend matvæli og snyrtivörur. 

Handverksmarkaðurinn er staðsettur í fremri og neðri salnum í Elliðavatnsbænum auk þess sem sölukofar eru á torginu við bæinn. Eldsmiður verður að störfum úti við og fleira spennandi að gerast. 

Opnunartímar Jólamarkaðarins í Heiðmörk 

Jólamarkaðurinn verður í Heiðmörk þrjár aðventuhelgar, frá klukkan 12:00 til 17:00. 

Aðventuhelgar 2023: 

2. – 3. desember 

9. – 10. desember 

16. – 17. desember 

Jólaskógurinn á Hólmsheiði 

Í Jólaskóginum á Hólmsheiði er hægt að höggva eigið jólatré. Þá verða jólasveinar á ferli í skóginum. Hægt er að fá lánaðar sagir á staðnum en við hvetjum gesti til að taka með sér sínar eigin sagir. Leiðarlýsing er hér og á myndinni að neðan. Leiðin er einstefna – ekið er í skóginn og svo úr honum annars staðar, í stað þess að snúa við og fara sömu leið til baka.

Jólaskógurinn verður opinn frá klukkan 11:00 til 16:00, sömu helgar og Jólamarkaðurinn.

Jólatrjáasala Lækjartorgi

Vikuna fyrir jól verður jólatrjáasala á Lækjartorgi, líkt og undanfarin tvö ár, í samstarfi við Reykjavíkurborg. Opið verður 15. – 22. desember sem hér segir:

  • Föstudaginn 15. des : kl 14:00 – 18:00
  • Laugardaginn 16. des : kl 16:00 – 20:00
  • Sunnudaginn 17. des : kl 16:00 – 20:00
  • Mánudaginn 18. des : kl 14:00 – 18:00
  • Þriðjudaginn 19. des : kl 14:00 – 18:00
  • Miðvikudaginn 20. des : kl 14:00 – 18:00
  • Fimmtudaginn 21. des : kl 14:00 – 18:00
  • Föstudaginn 22. des : kl 14:00 – 20:00
Jólaskógurinn á Hólmsheiði 2022 er merktur með rauðu jólatré.
Jólaskógurinn á Hólmsheiði 2023 er á sama stað og í fyrra. Staðurinn er merktur með rauðu jólatré.

2 thoughts on “Jólamarkaður í Heiðmörk, Jólaskógur og jólatrjáasala á Lækjartorgi

Comments are closed.