Skógarfróðleikur

Skógrækt og vatnsvernd

Skógar gegna mikilvægu hlutverki þegar kemur að vatnsvernd. Hvort sem horft er til mengunarvarna, miðlunar vatns eða lífríkisins í ám og vötnum. Þeir bæta vistfræðilegt og efnafræðilegt ástand vatnsverndarsvæða og stuðla þannig að betri vatnsgæðum. Gróðurfar á yfirborði lands er lykillinn að náttúrulegri hreinsun yfirborðsvatns.

Hnignun vistkerfa sem miðla til okkar vatni er ein af ástæðum fyrir alvarlegum skorti á neysluvatni víða um heim. Yfir 700 milljónir búa í löndum þar sem mikill skortur er á neysluvatni. Enda hafa víða tapast mikil gæði með breyttri landnotkun og rýrnun vistkerfa. Sem dæmi eru 15% af skógum heimsins ræktaðir með það að meginmarkmiði að vernda vatn. Sjötta Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna fjallar um hreint vatn og hreinlætisaðstöðu. Hluti af sjötta Heimsmarkmiðinu er að „unnið að úrræðum til að vernda og endurheimta vatnstengd vistkerfi, þ.m.t. fjalllendi, skóga, votlendi, ár, grunnvatnsból og vötn.“ 

Á Íslandi erum við svo heppin að eiga ríkulegar auðlindir þegar kemur að hreinu vatni. Engu að síður þarf að vernda vatnasvið fyrir mengun og styðja við vatnsmiðlun. Bæði til að tryggja okkur mannfólkinu vatn til neyslu og raforkuframleiðslu, og til að vernda og auðga náttúruna. Þarna skipta vistkerfi lykilmáli. Þótt nóg sé af vatni á Íslandi, getur það verið vandamál hve illa gróðurþekjan er farin, á allt of mörgum stöðum. Þetta getur leitt til margskonar erfiðleika sem tengjast vatnsbúskap. Erfiðleika sem hægt er að bæta úr með landgræðslu og skógrækt. En gróðurfar á yfirborði lands er lykillinn að náttúrulegri vatnshreinsun yfirborðsvatns.

Illa farin gróðurþekja getur verið marga áratugi að gróa, jafnvel þótt landið umhverfis hafi náð sér á strik.
Bakkar dragáa verða fyrir tíðri röskun, í vorleysingum og stórrigningum. Aukinn gróður á árbökkunum dregur mjög úr þessari röskun og eykur lífríkið í vatnsföllunum. Víðiplönturnar á myndinni eru allar sjálfsáðar. Mynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson.

Afrennsli

Þegar lítil eða engin gróðurþekja er á landi, leiðir úrkoma til svokallaðs afrennslis. Rigningarvatn fer þá hægt og illa ofan í jarðveginn. Í staðinn rennur vatnið ofan á moldinni og tekur með sér drullu og bakteríur. Örverur sem lifa í jarðveginum geta þannig komist ofan í brunna og valdið mengun. Sterk gróðurþekja er því lykillinn að náttúrulegri hreinsun yfirborðsvatns.

 

Árbakkar og líf í ám og vötnum

Bakkar áa og vatna geta verið viðkvæmir fyrir röskun, til dæmis vegna mikilla leysinga. Gróður styrkir bakkana og hamlar rofi; sérstaklega tré og runnar. Trjárætur sem vaxa út í vatnið skapa auk þess fjölbreyttari búsvæði fyrir vatnalífverur. Um leið leggur gróðurinn til lífrænt efni sem smádýr í jarðvegi og vatni njóta góðs af. Almennt leiðir aukin gróðursæld því til meira og fjölbreyttara lífs í ám og vötnum. Á hinn bóginn hafa rannsóknir sýnt fram á þá dapurlegu þróun sem verður þegar gróðurþekja við vötn og ár minnkar. Þá dregur úr fæðuframboði og lífríkið í vatninu verður fátækara eftir.

Víða erlendis eru í gildi lög sem ætlað er að hvetja landeigendur til að rækta eða vernda trjábelti meðfram ám og vötnum. Slík trjábelti verja bakka, auka fæðuframboð og draga úr efnalosun út í læki og vötn. Því virðist það öfugsnúið að sum sveitarfélög á Íslandi hafi bannað skógrækt í allt að 50 metra fjarlægð frá ám og vötnum. Skógfræðingar Skógræktarfélags Reykjavíkur vita ekki til þess að viðlíka reglur hafi verið settar í öðrum löndum.

 

Vatnsmiðlun

Skógur og gróðurþekja hefur temprandi áhrif á vatnsbúskap og flóð. Gróðurinn virkar eins og svampur að því leyti að hann safnar í sig vatni þegar mikið er af því og sleppir því á lengri tíma. Þannig dregur úr öfgum — flóðum og þurrkum. Þá er snjór lengur að bráðna inni í skóglendi en á víðavangi. Þannig getur gróðurinn dregið úr ofsa vorleysinga með því að dreifa snjóbráðinni yfir lengri tíma.

Heiðmörk er vatnsverndarsvæði enda ómetanleg vatnsból innan friðlandsins.

Gerðar hafa verið rannsóknir hér á landi á gæðum vatns á grónum vatnasviðum. Niðurstöður þeirra leiddu í ljós að eftir því sem meira var af gróðri, trjám og standanda lífmassa, því meiri vatnshreinsun og minni losun á köfnunarefni og fosfóri út í læki. Rannóknir sýna að efnalosun er mest á skóglausu landi og minnkar eftir því sem gróðurfar eykst. Hún er um miðbik í birkiskógum og minnst í ræktuðum barrskógum.

Hellisheiðin og Hengilsvæðið draga í sig mikila úrkomu sem sígur í jörð og myndar grunnvatn. Það streymir neðanjarðar í fjórar áttir. Sá straumur sem rennur undir Heiðmörk kallast Elliðavatnsstraumur. Þar eru m.a. Gvendarbrunnar, Myllulækur og Vatnsendakrikar í Heiðmörk. Úr þessum straumi kemur neysluvatn Reykvíkinga. Umhverfis vatnsbólin er vatnsverndarsvæði sem skiptist í brunnsvæði, grannsvæði og fjarsvæði. Brunnsvæðin eru algjörlegu friðuð fyrir óviðkomandi umferð. Á grannsvæðum og fjarsvæðum, sem meirihluti Heiðmerkur telst til, þarf að gæta mikillar varkárni til að tryggja að vatnsgæði spillist ekki. Skógurinn í Heiðmörk hjálpar mikið við að tryggja þessi gæði.

Illa farin gróðurþekja við upptök Hólmsár veldur því að í leysingum rennur stundum mikill jarðvegur út í ána. Þetta getur haft slæm áhrif á vatnsgæði sem og lífríki árinnar og Elliðavatns. Myndin er tekin 18. apríl síðastliðinn.