Fréttir

„Skógarnytjar“ – samstarf Skógræktarfélags Reykjavíkur og Tækniskólans

Skógræktarfélag Reykjavíkur og Tækniskólinn hafa gert með sér samstarfssamning um verkefnið Skógarnytjar. Verkefnið felur í sér að nemendur í trésmíði fái að kynnast skógrækt og viðarvinnslu frá fyrstu hendi. Stefnt er að því að allir nemendur í húsgagna- og húsasmíði við Tækniskólann komi í heimsókn í Heiðmörk einhvern tíma á námstímanum. Þar verður boðið upp á fræðslu um skógrækt, ferlið frá því að tré er fellt og þar til búið er að vinna úr því þurran borðvið, umhverfismál, kolefnisspor viðarins og ávinninginn af því að vinna með innlent timbur. Skógræktarfélag Reykjavíkur leitast við að vera með lager af þurrum borðvið sem nemendur geti notað í sínum verkefnum.

Fyrsti hópurinn kom í Heiðmörk fimmtudaginn 4. mars og voru það nemendur í húsgagnasmíði undir handleiðslu Sigríðar Óladóttur, húsgagnasmíðameistara og kennara við Byggingatækniskóla Tækniskólans. Sævar Hreiðarsson, skógarvörður Heiðmerkur, tók á móti fólki. Farið var með hópinn út í skóg þar sem rætt um skógrækt, mismunandi trjátegundir, viðargæði, búnað og viðarvinnslu. Þá felldi Sævar tré og sagaði stóran bol niður í borð og planka. Sigríður segir að nemendurnir hafi verið mjög hrifnir.

Sævar menntaði sig í skógfræði í Danmörku og Svíþjóð. Þar segir hann að sé víða meiri tenging milli þeirra sem stunda skógarhögg og viðarvinnslu og þeirra sem síðan vinna með viðinnn. Þetta vill hann ýta undir hér á landi: „Hugsunin er að mynda meiri tengingu milli okkar og þeirra sem eru að vinna með efnið. Það er hefð fyrir því til að mynda í Skandinavíu, sérstaklega áður fyrr, að smiðir fóru sjálfir út í skóg og völdu sér hentugan efnivið í byggingar og önnur smíðaverk.“

Við Smiðjuna. Mynd: Auður Kjartansdóttir.

Sævar sýnir hvernig timbri er flett í borðvið. Mynd: Auður Kjartansdóttir.

Skógræktarfélag Reykjavíkur leitast við að kynna innlent timbur sem valkost og ýta undir þá þróun af meira sé notað af íslenskum viðarafurðum. Fyrir nokkrum árum var keypt flettisög og hefur félagið selt útiþurran borðvið og bolvið, auk eldiviðar og kurls. Nú hefur verið komið upp lager af inniþurru timbri úr Heiðmörk sem hægt er að nota til að smíða til dæmis húsgögn og innréttingar.

Sævar segir að salan hafi verið að aukast. Kaupendahópurinn er fjölbreyttur: Handverksfólk, arktiektar, hönnuðir, garðyrkumenn, kennarar og útivistarfólk. Hins vegar væri gaman að heyra meira frá smiðum, þótt þeir þurfi reyndar oft að geta gengið að efni sem er tilbúið og hægt að fá í miklu magni. Svo langt er viðarvinnsla Skógræktarfélagsins enn ekki komin. „Ég vildi helst að þau sem eru að fara að vinna með þetta verði meðvituð um þennan möguleika og hjálpi okkur að finna leiðir til að nytja viðinn sem best“, segir Sævar.

Fleiri hópar úr Tækniskólanum eru væntanlegir í Heiðmörk og verður samstarfið þróað áfram á næstu misserum.

Elstu trén í Heiðmörk voru gróðursett fyrir rúmum 70 árum og er víða þörf á að grisja skóglendið. Reglubundin grisjun viðheldur vexti og heilbrigði skógarins og eykur verðmæti hans, bæði sem útivistarsvæði og þegar kemur að afurðum. Þá sýna rannsóknir að nytjaskógar binda um það bil tvöfalt meira kolefni en skógar sem vaxa óáreittir. Við grisjun fellur svo til timbur sem hægt er að nýta á margvíslegan hátt.

Íslenskt timbur er umhverfisvænna en innflutt timbur þar sem flutningar til landsins eru orkufrekir. Árlega eru um 50 þúsund tonn af koltvísýringi losuð við innflutning viðarafurða. Um leið er timbur loftslagsvænn og endurnýjanlegur kostur. Með nýskógrækt væri hægt að binda mikið kolefni. Þess eru dæmi að sitkagrenitré sem vaxa hér á landi hafi nú þegar bundið yfir þrjú tonn af kolefni, þótt þau séu enn tiltölulega ung og eigi eftir að vaxa mikið enn.