Fréttir

Samstarf við Ölgerðina um skógrækt á 140 hekturum í Lundarreykjadal

Skógræktarfélag Reykjavíkur og Ölgerðin hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um skógrækt á hluta af jörð félagsins í Lundarreykjadal. Ölgerðin eignast samkvæmt henni þær vottuðu kolefniseiningar sem til verða. En félagið eignast skóginn sem verður útivistarskógur, opinn almenningi.

Væntanlegur samningur mun ná til skógræktar á 140 hekturum. Alls er jörðin 610 hektarar. Um 350.000 trjáplöntur verða gróðursettar á næstu fimm árum og í fyllingu tímans vex upp fallegur útivistarskógur. Skógurinn verður einnig nýttur að einhverju leyti, á sjálfbæran hátt. Samstarfið við Ölgerðina mun gera félaginu kleift að hefja uppgræðslu og skógrækt í Lundarreykjadal af krafti.

Jörðin í Lundarreykjadal, Lundur 3, liggur vel við sólu og hentar ágætlega til skógræktar. Sá hluti landsins sem í dag er ræktarland, verður áfram nýttur í landbúnaði og ekki verður gróðursett í votlendi. Tegundir sem gefist hafa vel í skógrækt, t.d. í Heiðmörk, Elliðaárdal og víðar verða notaðar, svo sem birki, lerki, fura og víðir. Eftir því sem svæðið verður betur gróið og meira skjól, verða kröfuharðari tegundir gróðursettar. Til dæmis reynir, garðahlynur, berja- og skrautrunnar og jafnvel askur og eik.

1 thoughts on “Samstarf við Ölgerðina um skógrækt á 140 hekturum í Lundarreykjadal

Comments are closed.