Fréttir

Félagið eignast nýja skógræktarjörð í Borgarfirði

Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur fest kaup á 610 hektara jörð í Borgarfirði, þar sem til stendur að rækta upp útivistarskóg. Jörðin heitir Lundur 3 og nær frá Grímsá í Lundarreykjadal, yfir Lundarháls, og niður að Flókadalsá í Flókadal. Jörðin er hentug til skógræktar. Lundarreykjadalarmegin er hlíð sem vísar mót suðri. Þá er jörðin að hluta girt með rafmagnsgirðingu. Engin hús eru á jörðinni.

Skammt frá landamerkjum Lundar 3 við Flókadalsá, er jörðin Múlastaðir sem félagið keypti árið 2014. Trjáplöntur hafa verið gróðursettar á 153 hekturum að Múlastöðum. Þar er íbúðarhús og útihús sem hefur verið breytt í skemmu og aðstöðu fyrir starfsmennn. Góð aðstaða er því að Múlastöðum fyrir skógrækt og skylda starfsemi, sem nýtist enn betur nú.

Jarðakaupin eru í samræmi við markmið félagsins og stefnumótun félagsins 2022-2030, sem samþykkt var í fyrra. Tilgangur Skógræktarfélags Reykjavíkur er að „vinna að skógrækt, trjárækt og landbótum(…)“. Meðal annars með því að „leggja stund á skógrækt og styðja við skógrækt“.

Spennandi verður að hefjast handa í Lundarreykjadal. Trjáplöntur sem hafa verið gróðursettar að Múlastöðum á síðustu árum gefa góð fyrirheit um hægt verði að rækta upp fallega útivistarskóga á báðum jörðunum. Haustgróðursetningar á Múlastöðum hefjast í næstu viku.

Sigurður Halldórsson bóndi á Gullberastöðum og Jóhannes Benediktsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, við undirritun kaupsamnings.