Skógarfróðleikur

Kolefni í gróðri og jarðvegi

Skógar heimsins binda um 30% af þeim gróðurhúsalofttegundum sem losna út í andrúmsloftið á ári hverju. Alls eru þetta 10,6 gígatonn af koldíoxíðígildum.

Á Íslandi eru ótrúleg tækifæri til að rækta upp gróðursnautt land. Hluta þess mætti klæða skógi sem gæti bundið gríðarlegt magn koldíoxíðs, yfir langan tíma, og geymt það í gróðri og jarðvegi.

Heiðmörk er gott dæmi um þetta. Þegar Heiðmörk var friðuð og landbætur hófust þar, fyrir rúmum 70 árum, var landið mjög illa farið og uppblásið. Skóglendið sem hefur verið ræktað upp síðan þá, bindur nú hátt í átta þúsund tonn af koldíoxíði á hverju ári.

Séð yfir Heiðmörk í átt að Rauðhólum og Esjunni. Myndin er tekin 1966. Gróðurþekjan er enn víða rofin, þótt þá hafi verið hátt í tuttugu ár síðan landið var friðað.
Horft yfir Heiðmörk að vetrarlagi, sennilega árið 2020.

Kolefnisbinding í skógum er eina nothæfa leiðin til að binda koldíoxíð úr andrúmsloftinu í miklu magni. Aðrar leiðir eru í þróun. Enn sem komið er, eru þær mjög dýrar og ekki nothæfar til að binda koldíoxíð svo um muni. Til að hemja hamfarahlýnun, þarf auðvitað að draga hratt úr losun koldíoxíðs. En jafnvel þótt það gangi vel, þá eru þær gróðurhúsalofttegundir sem búið er að losa út í andrúmsloftið, áfram til staðar. Kolefnisbinding er því nauðsynleg. Ekki bara til að vega upp á móti áframhaldandi losun. Heldur líka til að draga úr áhrifum af þeirri kolefnislosun sem átti sér stað fyrir áratugum.

Af þessum ástæðum þarf að vernda skóga heimsins. Þeir binda og geyma gríðarmikið kolefni. Auk þess eru sums staðar mikil tækifæri til að stöðva kolefnislosun úr rofnu landi og stórauka bindingu með endurheimt vistkerfa og skógrækt. Mikið kolefni getur bundis í gróðurþekjunni og geymst þar.

Í skóglendinu í Heiðmörk eru ríflega eitt hundrað þúsund tonn af koldíoxíði bundin í trjágróðrinum. Þetta er ein af niðurstöðum rannsóknar sem Gústaf Jarl Viðarsson, starfsmaður Skógræktarfélags Reykjavíkur gerði í meistaraverkefni sínu í skógfræði.

Langstærsti hluti kolefnisforða vistkerfa er hins vegar bundinn í jarðveginum — um 81%. Enda er hann lítið annað en gamlar plöntuleyfar sem hafa bundið kolefni í þúsundir ára. Því er mikilvægt að vernda gróin vistkerfi. Oft er horft fram hjá jarðvegskolefni. En landgræðsla og skógrækt veldur ekki bara aukinni bindingu í gróðri, heldur líka kolefnisbindingu í jarðveginum sjálfum.

Joel Charles Owona fjallaði nýlega um þetta í meistararitgerð sinni í umhverfisfræði.  Ein af niðurstöðum rannsókna hans er að „á fyrstu áratugunum (20-40 árum) eftir að nýskógrækt hefst getur kolefnisbinding í jarðvegi og feyru verið af sömu stærðargráðu og sem verður í viðarvexti skóganna.“

Íslenskur jarðvegur er eldfjallajarðvegur og afar hætt við rofi og uppblæstri. Því miður er gróðurþekjan víða mjög illa farin og jarðvegurinn að blása upp. Við þetta losar mikið magn kolefnis. Hægt væri að stöða þessa losun með því að græða upp landið. Um leið myndi ný gróðurþekja byrja að binda koldíoxíð úr andrúmsloftinu. Sérstaklega ef skógur er ræktaður á landinu.

Yfir fimmtíu ára tímabil má reikna með að einn hektari af birkiskógi bindi um þrjú tonn af koldíoxíði á ári; sitkagreni um átta tonn; en ösp allt að sextán. Um leið byggir gróðurinn upp jarðvegsforða, bætir skilyrði fyrir næstu kynslóðir plantna og veitir margskonar vistkerfisþjónustu.

Gróðursett í Loftslagsskógum Reykjavíkur í Úlfarsfelli.
Hægt væri að endurreisa gróðurþekjum mjög víða á Íslandi. Þessar víðiplöntur voru gróðursettar í Bláfjöllum, haustið 2022, í meira 400 metra hæð og virtist líða ágætlega, ári síðar.

Á sama tíma þarf að huga að því hvar er gróðursett, vistfræði og vistgerðum sem eru fyrir, að skógurinn verði ekki of einsleitur og þrífist til lengri tíma og trén lifi af. Mörg dæmi eru um grænþvott, þegar kemur að kolefnisjöfnun. Til dæmis að gróðursetningum sé ekki fylgt eftir; að lítill hluti trjáplantna lifi af; eða að gróðursett sé á landi sem er mikilvægt í öðru samhengi, svo sem vegna líffræðilegs fjölbreytileika eða afkomu fólks sem býr á svæðinu.

Þá þarf að hafa í huga að tré binda kolefni á mjög löngum tíma. Tré binda kolefni yfir allan líftíma sinn, sem talinn er í áratugum, jafnvel öldum. En á fyrstu æviárunum binda trén mjög lítið kolefni. Því er oft talað um kolefnisbindingu á ári, að meðaltali yfir t.d. 50 ára tímabil. Kolefni sem losnar við jarðefnabruna, losnar hins vegar út í andrúmsloftið í einu vettvangi. Af þessu leiðir þrennt. Kolefnisjöfnunarverkefni þurfa að vera raunhæf og helst vottuð. Kolefnisjöfnun, t.d. með skógrækt, kemur ekki í stað þess að draga úr eða hætta losun gróðurhúsalofttegunda. Og til að skógrækt skili sem mestum árangri úr frá loftslagssjónarmiði, þarf að hefjast handa sem allra fyrst.

Í Heiðmörk bundust um tæplega átta þúsund tonn af koldíoxíði í lífmassa trjágróðursins, á hverju ári, á árabilinu 2012-2017, samkvæmt rannsókn Gústafs Jarls. Nákvæm tala samkvæmt útreikningum hans var 7.749 tonn á ári, með 22% skekkjumörkum. Sú tala hefur nær örugglega hækkað síðan þá, því að skóglendið hefur aukist og vaxtarhraði trjánna aukist.

Skógræktarfélag Reykjavíkur vinnur að skógrækt víðar en í Heiðmörk. Í Esjuhlíðum er skógur að vaxa upp. Í Fellsmörk hafa landnemar unnið að skógrækt í rúma þrjá áratugi.  Og á skógræktarjörð félagsins að Múlastöðum, hefur verið gróðursett á um 153 hekturum lands. Á annarri jörð félagsins, Lundi 3 í Lundarreykjadal, stendur til að rækta skóg, meðal annars í samstarfi við Ölgerðina.

Gústaf bar einnig saman tölur úr fyrri rannsóknum á kolefnisbindingu í grónu landi; áhrifum landgræðslu og skógræktar; og umfangi skóga og skógræktarsvæða. Árleg koldíoxíðupptaka landsins er alls um 70 milljónir tonna. Skóglendi — ræktaðir og náttúrulegir skógar — þekja aðeins um 2% af flatarmáli landsins. Samt sem er skóglendi 37% af heildarlífmassa þurrlendisvistkerfa. Á skógræktarsvæðum, sem eru um 0,4% af flatarmáli Íslands, er um 10% af áætluðum lífmassa landsins. Að klæða illa farið land skógi, er því góð leið til að stórauka kolefnisbindingu.

 

Gróðursett að Múlastöðum 2016. Fjallshlíðin er misvel gróin og sums staðar ansi grýtt. Landið mun þó allt gróa á næstu árum og áratugum.
Skógur er að byrja að vaxa upp við Múlastaði. Myndin er tekin 2022 - átta árum eftir að félagið eignaðist jörðina.