Sögudagatal

Rauðavatnsstöðin – upphaf skógræktar á höfuðborgarsvæðinu

Skógar voru fáir og illa farnir á Íslandi, þegar Skógræktarfélag Reykjavíkur var stofnað, 25. ágúst 1901. Félagið var stofnað sem hlutafélag, svo safna mætti fé til að kaupa landskika nálægt Reykjavík og rækta þar skóg.

Að félaginu stóðu ýmis þekktir bæjarbúar, svo sem Knud Zimsen, verkfræðingur og síðar borgarstjóri, Þórhallur Bjarnarson, alþingismaður og síðar biskup, og Steingrímur Thorsteinsson skáld, sem varð fyrsti formaður félagsins. Og svo Christian Flensborg, danskur skógfræðingur, sem hafði umsjón með öllum framkvæmdum. Flensborg taldi að við Rauðavatn væri tilvalinn staður fyrir lystigarð í framtíðinni. Staðurinn væri stutt frá höfuðborginni, við lítið vatn og með fagurt útsýni yfir Rauðhóla.

Ýmsar trjátegundir voru gróðursettar við Rauðavatn á næstu árum. Plönturnar flutti Flensborg með sér frá Danmörku, þegar hann sigldi til Íslands á vorin. Flestar þrifust þær illa. Aðrar voru gróðursettar í þeirra stað og kom Flensborg einnig upp græðireit þar sem trjáplöntur voru ræktaðar upp af fræi. Þetta var mikið framfaraskref því lítið var vitað um hvaða tegundir gætu dafnað á Íslandi aðrar en birki og reynir, og erfitt að nálgast fræ eða trjáplöntur. Sum af fyrstu trjánum sem íbúar í Reykjavík og víðar gróðursettu í görðum sínum eru komin úr Rauðavatnsstöðinni.

Talsverður gangur var í ræktunarstarfinu við Rauðavatn fyrstu árin en þrótturinn minnkaði er leið á annan áratug aldarinnar. Trén, einkum fjallafurur, héldu þó áfram að vaxa og mynda skjól og jarðvegsskilyrði fyrir uppvöxt annarra trjáa.

Rauðavatnsstöðinn var vinsæll áfangastaður fyrir borgarbúa í helgarferðum fram undir miðja öldina. Í dag er þarna fallegt skóglendi sem er hluti af miklu stærra útivistarsvæði upp af Rauðavatni. Lystigarðurinn sem Flensborg og félagar létu sig dreyma um, var hins vegar stofnaður örskot frá, við annað vatn og með fagurt útsýni yfir Rauðhóla. Heitir þar Heiðmörk.

Danski skógfræðingurinn C. E. Flensborg í Rauðavatnsstöðinni, 1905.

Starfsmannaskúr við Rauðavatnsstöðina, árið 1905.

Ein af þeim trátegundum sem gerðar voru tilraunir með í Rauðavatnstöðinni var heggur. Þessi heggur, sem er þar sem Rauðavatnsstöðin var, er rótarskot frá elsta hegg sem við höfum heimildir um hér á landi og er ættfaðir margra hegga á suðvesturhorninu.

Fjallafurur í Rauðavatnsskógi. Skjólbelti sitkagrenitrjáa meðfram Suðurlandsvegi sést í fjarska. Mynd: Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir.

Þessi umfjöllun er hluti af sögudagatali í tilefni af því að 120 ár eru frá því að Skógræktarfélag Reykjavíkur var upphaflega stofnað, 25. ágúst 1901. Hægt er að lesa meira um sögu félagsins hér og um 120 ára afmælið hér.

1 thoughts on “Rauðavatnsstöðin – upphaf skógræktar á höfuðborgarsvæðinu

Comments are closed.