Skógræktarfélag Reykjavíkur fagnar 120 ára afmæli í ár. Afmælinu verður fagnað með fjölbreyttri dagskrá, eftir því sem sóttvarnaraðgerðir leyfa. Viðburðir verða auglýstir hér á heidmork.is og í tölvupósti til félagsmanna. Meðal viðburða er græðlinganámskeið sem haldið var í mars, gróðursetningardagur í maí, Heiðmerkurhlaupið, skógargöngur, sveppatínsla og vonandi margt fleira.

 

Fyrstu áratugirnir

Skógræktarfélag Reykjavíkur var upphaflega stofnað sem hlutafélag 25. ágúst 1901. Markmið þess var að kaupa og gróðursetja í landskika við Rauðavatn. Vonir stóðu til að þar yrði lystigarður í framtíðinni, skammt frá höfuðborginni. Næstu ár var unnið að skógrækt við Rauðavatn og útbúinn græðireitur. Í græðireitnum voru ræktaðar upp trjáplöntur og runnar sem almenningur gat gróðursett. Þetta var þarft verk, þar sem mikill hörgull var á trjáplöntum og fræi á Íslandi í upphafi tuttugustu aldar og í raun lítið vitað um hvaða trjátegundir gætu þrifist hér, aðrar en birki og reynir. Ljósmynd sem C.E. Flensborg tók af Rauðavatnsstöðinni árið 1905 má sjá hér að ofan.

Er leið á annan áratug aldarinnar tók að gæta lágdeyðu í starfi Skógræktarfélags Reykjavíkur. Hún kann að stafa af ytri aðstæðum – fyrri heimsstyrjöldinni og djúpri efnahagskreppu á Íslandi. Lítið fór fyrir starfi við Rauðavatn frá árinu 1914 til 1930, þótt girðingum væri haldið við og trén spjöruðu sig sum hver. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu héldu þó áfram að sýna skógrækt áhuga og má lesa í blöðum frá þessum tíma um þrá borgarbúa eftir einhvers konar útivistarsvæði eða skóglendi nærri Reykjavík.

Á Alþingishátíðinni 1930 var Skógræktarfélag Íslands formlega stofnað. Fyrstu árin var félagið hvort tveggja landssamband skógræktarfélaga og héraðsfélag Reykjavíkur og nágrennis. Sem landssamband vann félagið að friðun Bæjarstaðaskógar og gaf út tímarit en skógræktarstarf félagsins var mestallt í nágrenni höfuðborgarinnar. Meðal annars hélt félagið áfram skógrækt við Rauðavatn og kom upp gróðrarstöð í Fossvogi.

Árið 1946 voru gerðar skipulagsbreytingar á Skógræktarfélagi Íslands. Eftir breytinguna varð félagið eingöngu sambandsfélag, með héraðsfélögin sem aðildarfélög. Samtímis tóku Skógræktarfélag Reykjavíkur og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar við þeim verkefnum sem Skógræktarfélag Íslands hafði haft með höndum í Reykjavík, Hafnarfirði og nágrenni.

Skógrækt og trjáplöntuframleiðsla

Næstu áratugi vann félagið að skógrækt með fjölbreytilegum og hætti. Tvö verkefni ber þó líklega hæst: Heiðmörk og Fossvogsstöðin. Heiðmörk, friðland Reykvíkinga, var vígð 1950 og risavaxið verkefnið að rækta þar skóg og byggja upp kerfi stíga og áfangastaða. Hitt aðalverkefni félagsins, rekstur gróðararstöðvarinnar í Fossvogi, var ekki síður mikilvægt. Þar sem Ísland hafði lengi verið nær skóglaust, skorti bæði þekkingu og framboð á trjáplöntum sem hentuðu íslenskum aðstæðum. Í Fossvogsstöðinni voru ræktaðar trjáplöntur fyrir gróðursetningarsvæði félagsins auk þess sem borgarbúar gátu keypt þar tré til gróðursetningar, til dæmis í görðum sínum.

Eftir 120 ára starf liggja verk sem eru sýnileg hverjum þeim sem fer um höfuðborgarsvæðið og jaðra þess. Frá aldamótum hefur félagið haft umsjón með útivistarsvæðinu í Esjuhlíðum og unnið að því að bæta það og stækka. Þá hafði félagið umsjón með ræktunarframkvæmdum í Öskjuhlíð og stýrði gróðursetningum í Elliðaár um árabil. Félagið stýrði líka lengi vel sumarvinnu skólafólks á jaðarsvæðum borgarinnar, svo sem Hólmsheiði, þar sem skógur var ræktaður upp og göngustígar lagðir. Fleira má nefna, en látum staðar numið við að minnast á nýjasta verkefni félagsins – Loftslagsskóganna sem verið er að rækta í Úlfarsfelli. Félagið vinnur að einnig að skógrækt á eigin landi, á Múlastöðum í Borgarfirði og á jörðunum Felli og Keldudal í Mýrdalshreppi.

Skógarmenning og útivist

Eftir því sem skógarnir hafa vaxið, einkum í Heiðmörk, hafa ný verkefni orðið til hjá félaginu. Hin síðari ár hefur aukin áhersla verið lögð á skógarmenningu – hvort sem það er útivist, listsköpun, nýting skógarafurða eða jákvæð andleg áhrif þess að dvelja í náttúrunni. Félagið hefur reynt að þróa skógarmenningu með fræðslu og viðburðum á borð við Skógarleikana, Heiðmerkurhlaupið og jólaviðburði félagsins.

Félagið leitast við að starfa með öllum þeim fjölbreyttu hópum sýna skógrækt áhuga eða vilja nota útivistarsvæðin í Heiðmörk og Esjuhlíðum. Hvort sem það eru landnemahópar sem vilja taka þátt í skógræktarstarfinu, fjölskyldur í lautarferð, gönguskíðafólk, hjólafólk, áhugafólk um matsveppi og jurtir, skólabörn, vísindafólk eða smiðir sem vilja vinna með íslenskt timbur. Í samstarfi við Reykjavíkurborg og ýmis félög, hefur félagið byggt upp fjölbreytta innviði. Meðal annars göngustíga sem eru tugir kílómetra, gönguskíðabrautir og sérstaka hjólastíga.

Nánar má fræðast um sögu Skógræktarfélags Reykjavíkur hér.

Í fyrra var haldið upp á 70 ára afmæli Heiðmerkur. Meðal annars var birt sögudagatal með fróðleik úr sögu félagsins og ljósmyndum úr starfinu. Meðal annars myndskeiði frá vígslu Heiðmerkur 1950. Sögudagatalið er aðgengilegt hér.

Gróðrarstöðin í Fossvogi 1956. Á myndinni sjást litlar trjáplöntur sem verið er að rækta til gróðursetningar. Fjær sjást skjólbelti til að verjast næðingnum. Mynd: Ólafur K. Magnússon.
Jaðar í Heiðmörk. Þar var áður heimavistarskóli en er nú vatnsverndarsvæði. Myndin er líklega tekin á fyrri hluta 20. aldar. Vel sést hve gróðursnautt svæðið er. Mynd: Sigurður Guðmundsson.
Fjallafurur í Rauðavatnsskógi. Skjólbelti sitkagrenitrjáa meðfram Suðurlandsvegi sést í fjarska. Mynd: Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir.
Bílar í Heiðmörk sumarið 1964. Mynd: Ingimundur Magnússon.
Nýjir stígar lagðir í Esjuhlíðum 2020. Mynd: Jón Haukur Steingrímsson.
Börn á gönguskíðum í Heiðmörk. Mynd: Ullur