Fréttir

Jólatrjáalausu jólin 1951

„Hvorki fást jólatré né greinar að þessu sinni, svo að það verður vandkvæðum bundið að skreyta hjá sér á jólunum núna, en við reynum samt. — Raddir eru á kreiki um það að selja eigi nokkrar íslenzkar furugreinar.“ Þannig hefst dálkur í Morgunblaðinu, 13. desember 1951.

Á aðventunni 1951 var nokkuð sérstök staða á Íslandi. Í byrjun desember var innflutningur jólatrjáa frá Evrópu bannaður, vegna hættu á að gin- og klaufaveiki bærist til landsins. Þeim trjám sem þegar voru komin á skipsfjöl, þurfti að sökkva í sjóinn.

Nú voru góð ráð dýr. Nokkur jólatré höfðu þó komið til landsins frá Kanada — 701 talsins. Eftir að sjúkrahúsum, barnaskemmtunum og kirkjum hafði verið úthlutað trjám, var efnt til happdrættis um þau sem eftir voru. „Til þess að gefa mönnum jafnan kost á að eignast tré“ eins og fram kom í Tímanum, 19. desember.

Eitthvað var líka um að jólatré og greinar væru auglýst til sölu. En líklega voru þetta ekki lifandi tré heldur tré sem smíðuð voru úr timbri eða öðrum efnum. Stundum voru slík tré skreytt með sortulyngi eða greinum af eini — lágvaxna íslenska barrtrénu.

Engu að síður var eftirspurnin eftir miklu fleiri grenitrjám; um 10-13.000 að mati skógræktarstjóra.

Á varðbergi gagnvart jólatrjáaþjófum

En hvað með íslensku grenitrén sem sums staðar farin voru að vaxa? Skógræktartilraunir höfðu byrjað á stöku stað í kringum aldamótin 1900. Skógræktarfélög voru byrjuð að starfa víða um land og sumarið 1950 hafði Heiðmörk verið opnuð. Sjálfboðaliðar og félagsmenn í Skógræktarfélagi Reykjavíkur höfðu gróðursett þar fjölda trjáplantna en þær voru bara rétt að byrja að ræta sig.

Einn af helstu hvatamönnunum að stofnun Heiðmarkar var Hákon Bjarnason skógræktarstjóri og heiðursfélagi í Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Skógrækt ríkisins, sem Hákon veitti forstöðu, var líka að rækta upp skóga. En Hákon sagðist engin tré hafa til sölu. Lítið væri af lifandi trjám sem mætti grisja og það myndi bara valda óánægju „ef við seldum örfáum mönnum grenitré“. Hins vegar yrði boðið upp á nokkuð af furugreinum. Ekki yrði samt tekið á móti pöntunum eða tekið frá fyrir neinn mann. Furugreinarnar voru að langmestu leyti af fjallafuru (Pinus mugo) úr Rauðavatnsstöðinni. Þar hafði skógrækt byrjað á fyrstu árum tuttugustu aldarinnar og var það reyndar það verkefni sem Skógræktarfélag Reykjavíkur var upphaflega stofnað til að hrinda í framkvæmd. Nokkrar gamlar fjallafurur eru þarna enn í dag og einstöku sjálfsánar.

En Hákon Bjarnason var við öllu búinn, á aðventunni 1951. Í forsíðufrétt Tímans var greint frá því að Skógrækt ríkisins muni hafa vörð við gróðrarstöðvar sínar. Komi þangað menn í vafasömum erindagerðum, verði þeir afhentir lögreglunni. Í sömu grein birtist „aðvörun vegna slysahættu“. Þar var fólk varað við því að reyna að stela grenitrjám. Síðustu ár hefði borið á því „að menn byggju sig undir jólahátíðina á þann hátt að stela grenitrjám úr görðum hjá náunganum“. Þetta gæti hefnt sín, sérstaklega í ár, þegar engin jólatré verði í landinu. Fréttist af því að fólk hafi grenitré í híbýlum sínum, sé viðkomandi „þjófur eða þjófsnautur eða afbrota maður á annan hátt, nema úr eigin garði sé tekið.“

Í Vífilsstaðahlíð, líklega um 1965-67. Stafafuran á myndinni var gróðursett 1958.
Í Öskjuhlíð, einhvern tíma milli 1950 og 1960. Mynd: Hannes Pálsson. Það var til nokkurs að vinna að rækta upp svæðið. Í Morgunblaðinu 1951, var mynd af sex metra háu jólatrénu á Austurvelli og fyrirsögnin „Á Öskjuhlíðinni geta svona tré verið eftir 20-30 ár“.

Fyrstu íslensku jólatrén

En þótt íbúar hefðu úr litlu að moða, tókst að setja upp lifandi jólatré bæði í Reykjavík og á Akureyri, og ef til vill víðar. Jólatré Reykvíkinga árið 1951 var um sex metra hátt og 40 ára gamalt rauðgreni sem hafði vaxið upp á Hallormsstað. Þaðan var tréð flutt til Reykjavíkur, þar sem það var sett upp á Austurvelli, 20. desember. Sama dag voru tvö stæðileg grenitré sett upp á Akureyri — gjöf frá Gunnhildi nokkri Ryel, sem hafði haft þau í garði sínum en gefið bæjarbúum til að setja upp í bænum. Líklega var þetta í fyrsta skipti sem grenitré, sem vaxið höfðu á Íslandi, voru sett upp opinberlega sem jólatré.

Íslensku jólatrén veittu fólki innblástur. Á forsíðu Morgunblaðsins, 22. desember, var mynd af jólatrénu úr Hallormsstaðaskógi, ásamt fyrirsögninni „Á Öskjuhlíðinni geta svona tré verið eftir 20-30 ár“.  Og í Tímanum sagði að tilvera jólatrésins á Austurvelli ætti að vera fólki hugvekja um að vel er hægt að rækta jólatré á Íslandi. „(…) og ættu þeir menn, sem ætluðu að kaupa jólatré handa sér, en geta það ekki úr því sem komið er, að láta verð jólatrésins renna til landgræðslusjóðs“ sagði í Tímanum.

Þá hafði Vísir fjallað um að áætlanir Akureyringa um að rækta upp grenitré til að verða sjálfum sér nægir um jólatré. Þetta ár, 1951, var aðeins ár liðið frá því að friðlandið í Heiðmörk var vígt. En blaðamaður Vísis var vongóður um skógræktina: „(…) virðist fullkomin ástæða til að ætla að einhvern tíma, meira að segja í okkar tíð, sem nú lifum, verði unnt að sækja sér fallega hríslu til jólanna inn í Heiðmörk.“

„(…) virðist fullkomin ástæða til að ætla að einhvern tíma, meira að segja í okkar tíð, sem nú lifum, verði unnt að sækja sér fallega hríslu til jólanna inn í Heiðmörk.“ Skrifaði Vísir, 1951. Mikill meirihluti þeirra jólatrjáa sem Skógræktarfélag Reykjavíkur selur, er úr Heiðmörk. Öll tré sem félagið selur eru íslensk.
Jólatré, gert af Jóni Beck Bjarnasyni. Tréð og standurinn eru úr tálguðum við en armarnir úr járngormum. Tréð er klætt með grænum “kreppappír “, og var skipt á honum fyrir hver jól. Tréð gerði Jón um 1950 og var það notað á heimili hans fram til 1980. Mynd: Byggðasafnið í Görðum á Akranesi.

1 thoughts on “Jólatrjáalausu jólin 1951

Comments are closed.