Sinueldar og eldar í mosa hafa lengst af verið helstu gróðureldar á Íslandi. Skógareldar hafa verið fáir og litlir. Erlendis, þar sem skógar eru veðfemir og mikill eldsmatur í þeim, geta eldar valdið bæði mikilli hættu og tjóni, bæði á skógunum og mannvirkjum.
Nokkur dæmi eru um skógarelda á Íslandi. Oftast hafa þeir verið litlir — einn eða fáeinir hektarar. Vorið 2021 varð þó stór gróðureldur í Heiðmörk sem olli skemmdum á gróðri á um 61 hektara svæði, að mestu skóglendi. Stórir sinueldar eru mun algengari. Eitt versta dæmið í seinni tíð eru sinueldarnir á Mýrum vorið 2006, sem fóru yfir um 75 ferkílómetra lands.
Hættan á gróðureldum er mest á vorin þegar snjóa hefur leyst en gróðurinn er enn ekki farinn af stað. Oft er mjög þurrt í apríl og jafnvel í maí, og mikið eldsneyti í þurrum gróðri sem óx sumarið á undan. Með loftslagsbreytingum og öfgum í verðurfari getur hættan aukist. Vorið 2021 fór til dæmis saman mjög þurrt vor og snjóléttur vetur. Um tíma var óvissustig á stórum hluta landsins vegna hættu á gróðureldum. Ári síðar, 2022, var hins vegar minni hætta á ferðum enda talsverð úrkoma það vorið og snjóa leysti seint.
Með vaxandi öfgum í veðurfari eykst hætta á alvarlegum gróðureldum. Ört stækkandi skóglendi leggur okkur sérstakar skyldur á herðar þegar kemur að forvörnum og viðbúnaði vegna hugsanlegra skógarelda.
Brunaskipulag, tegundaval og grisjun
Forvarnir felast meðal annars í brunaskipulagi í skógrækt. Það snýr til dæmis að varnarlínum, vegum og aðgengi að vatni. Varnarlínur eru bil í skóginum þar sem auðvelt er að komast að með vatn og tæki. Hægt er að gera varnarlínur út frá misfellum í landslagi eða vegum. Eldurinn er þá látinn brenna að varnarlínunni en komið í veg fyrir að eldurinn breiðist áfram handan hennar. Einnig þarf að huga að flóttaleiðum úr skóginum, aðgengi að vatni og fjarskiptasambandi. Loks eru ákveðnar trjátegundir eldtefjandi. Til dæmis eldri lerkitré og ákveðnar tegundir lauftrjáa. Ef brunaskipulag er hugsað til mjög langs tíma, er hægt að gróðursetja lerkitré í skógarjaðra og lauftré í belti sem brenna síður, inn á milli eldfimari barrtrjáa.
Viðbúnaður og skót viðbrögð
Skjót og markviss viðbrögð við gróðureldi geta skipt sköpum. Því er mikilvægt að fjarskiptasamband sé gott, hægt að komast að svæðinu og að stutt sé í vatn og útbúnað, svo sem eldklöppur, sem eru eins konar málmkústar og eru notaðar til að slökkva gróðurelda. Helstu upplýsingar, svo sem um vatnstökustaði og vegi, þurfa að vera aðgengilegar fyrir viðbragðsaðila. Þegar aðstæður eru þannig að mikil hætta er á gróðureldum — til dæmis þurrt vor eftir snjólítinn vetur — þarf að fylgjast vel með skóglendinu eða jafnvel skipuleggja vakt. Í sumum tilfellum þarf auk þess að banna alla meðferð elds, svo sem grill.
Eftir gróðureldinn í Heiðmörk 2021, hefur fjarskiptasamband verið bætt nokkuð. Stofnað hefur verið til samráðs vegna hugsanlegra gróðurelda í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Vinnunni er stýrt af Almannavörnum og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins. Fulltrúar Skógræktarfélags Reykjavíkur hafa setið fund um skógarelda í Heiðmörk með fulltrúum lögreglu og slökkviliðs og fjölda annarra stofnana. Næstu skref eru að bæta enn fjarskiptasamband og vöktun, ljúka við flótta- og eldvarnaráætlanir og ýmislegt fleira. Þá hefur félagið grisjað sérstaklega í Heiðmörk út frá brunavarnarsjónarmiðum. Gamlar vinnubrautir hafa verið grisjaðar upp og opnaðar til að mynda eldvarnarhólf. Þá hefur verið grisjað undir háspennulínum en hætta getur skapast á að ljósbogi úr háspennu komi af stað skógareldi.
Minni landeigendur og sumarbústaðaeigendur ættu einnig að vera með ákveðinn lágmarksbúnað — eldklöppu, garðslöngu og tryggan aðgang að vatni. Þá er skynsamlegt að láta skóglendi ekki ná alveg upp að sumarbústöðum og öðrum byggingum. Reykur frá gróðureldum getur verið hættulegur og jafnvel banvænn. Því er skynsamlegt að hafa tiltækar grímur til að verjast reyknum.
Á síðunni grodureldar.is má finna upplýsingar um gróðuelda, varnir og viðbúnað. Skógræktarfélag Reykjavíkur tók þátt í vinnu við síðuna en að henni standa Skógræktin, Landssamband sumarhúsaeigenda og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
Myndin efst í færslunni er fengin frá Defense Visual Information Distribution Service.