Trjátegund mánaðarins

Eik (Quercus robur)

Líklega eru fáar trjátegundir jafn elskaðar eða sveipaðar jafn miklum ævintýraljóma, að minnsta kosti í Evrópu, eins og eikur. Trén vaxa hægt, verða aldagömul, fæða fjölbreytt líf dýra, fugla og skordýra, gefa af sér einstakan smíðavið og svo eru gamlar og stórar eikur oft holar, sem eykur enn á dulmagn þeirra.

Sagan segir að í einni slíkri eik – Major Oak í Skírisskógi í Nottingham – hafi Hrói höttur og félagar falið sig fyrir fógetanum og skósveinum hans. Eikin er 800 til 1000 ára gömul. Major Oak er þó óttalegt unglamb við hlið Konungseikarinna á Sjálandi í Danmörku. Hún er talin 1500 til 2000 ára gömul, og þar með elsta eik Evrópu. 

 

Major Oak í Skírisskógi, Englandi. Mynd Marcin Floryan, Wikimedia Commons.

Sagan segir að Friðrik sjöundi hafi leitað skjóls undir þessari eik í þrumuveðri og hlaut hún af því nafn sitt, Kongeegen. Mynd: Mikkel Houmøller, Wikimedia Commons.

 

Eik var lengi talin of hitakær til að geta þrifist á Íslandi. En hin síðari ár hafa sífellt fleiri reynt fyrir sér við ræktun þeirra, oft með nokkuð góðum árangri. Þær eiga þó enn nokkuð í að ná aldri öldunganna sem nefndir voru hér að framan. Sumareik (Quercus robur) er talin best til þess fallin að þrífast á Íslandi. Um ræktun eika á Íslandi má fræðast nánar hér.

Við Háagerði 11 í Reykjavík er að finna eik sem líklega er sú hæsta á Íslandi. Eikin var gróðursett árið 1982 eftir að hafa dvalið í kjallara hússins í áratug. Hún er ættuð úr skógi við borgina Växjö, í Smálöndunum í Svíþjóð. Svæðið er talsvert sunnar en Reykjavík en þó geta vetur verið nokkuð kaldir. Eikin, sem líklega er sumareik (Quercus robur), var síðast mæld árið 2009 og var þá 6,3 metrar á hæð. Hún hefur hækkað talsvert síðan þá og þrífst almennt vel, að sögn Áslaugar Sturlaugsdóttur sem býr í Háagerði. Ystu sprotar, sem eru afar mjóir, eiga það til að kala. Og fyrir nokkrum árum brotnaði hliðargrein í óveðri. Tréð laufgast seint, þegar öll önnur tré í garðinum eru fulllaufguð, en missir laufin ekki fyrr en í lok október.

 

Eikin við Háagerði, sumarið 2020. Mynd: Áslaug Sturlaugsdóttir.

Eikin árið 2009. Hún hefur vaxið talsvert síðan.

Eikin fagra í desember 2021. Mynd: Áslaug Sturlaugsdóttir.

Margar aðrar stæðilegar eikur eru á Íslandi – í Reykjavík, í Borgarfirði, Biskupstungum, á Akureyri, norðuraustur í Öxarfirði og víðar.

Sum þessara trjáa eru komin langt að, úr mun suðrænna loftslagi. Eins og eikin við Hafnarstræti 63 á Akureyri. Sú er vaxin upp af akarni, tíndu skammt utan við Hannover í Þýskalandi árið 1978. Tréð hefur dafnað ágætlega, rúmum tvö þúsund kílómetrum norðar. Eikin var 5,35 metrar á hæð þegar hún var mæld árið 2009.

Við Esjurætur gæti í framtíðinni vaxið upp lítill eikarskógur. Árið 2017 voru 50 eikur gróðursettar við rannsóknarstöð Skógræktarinnar að Mógilsá. Eikurnar eru ættaðar frá Þýskalandi, úr skógi á mörkum ríkjanna Neðra-Saxlands og Hessen.

Eikur hafa einnig verið gróðursettar í Heiðmörk og miklu víðar. Tilraunirnar, sem stundum gefast vel, eru til marks um hve mikið aðstæður til skógræktar hafa batnað undanfarna áratugi, meðal annars vegna aukinnar frjósemi jarðvegs og betra skjóls.

Ein þeirra eika sem vaxa og dafna í Heiðmörk. Þessi var gróðursett í landnemaspildu Héðins, ásamt fjórum öðrum, sumarið 2022.