Fréttir

Allar akstursleiðir um Heiðmörk opnar á ný

Þær akstursleiðir um Heiðmörk sem hafa verið lokaðar síðasta mánuðinn, hafa nú verið opnaðar fyrir umferð að nýju. Aftur er því orðið auðvelt að fara um alla Heiðmörk. Hvort sem maður vill ganga meðfram Elliðavatni, fara um Vífilsstaðahlíð eða inn að hjarta svæðisins – að Vígsluflöt eða fjölskyldurjóðrinu Furulundi.

Vegurinn upp að Elliðavatni er nú nýheflaður. Nokkur bleyta er á vegum, víða í Heiðmörk en þegar hún hefur þornað, stendur til að hefla alla vegi. Vonandi verður það á næstu tíu dögum.

Mikið hefur verið af fólki í Heiðmörk undanfarnar vikur. Veður hefur verið milt og líklega margir sem vilja njóta útivistar í samkomubanninu. Á þessum árstíma eru starfsmenn Skógræktarfélags Reykjavíkur farnir að hefja vorverkin – huga að plöntum og verkfærum, og hefja vorhreinsun í skóginum. Á meðal annarra verka þessi dægrin er grisjun, eldiviðarframleiðsla og undirbúningur fyrir að vorafhendingu á kurli.

Skógræktarfélag Reykjavíkur hvetur fólk til að létta lundina og liðka líkamann með heilnæmri útivist. En um leið er rétt að minna fólk á að fara varlega – forðast stóra hópa og halda tveggja metra regluna í heiðri.