Fréttir

Uppgræðsla með moltu í Úlfarsfelli

Í gær tókum við á móti moltu úr Gaju, jarðgerðarstöð Sorpu. Moltunni er dreift meðfram akveginum á uppgræðslusvæði í hlíðum Úlfarsfells. Í framhaldinu verður sáð fræjum landgræðsluplantna, á þessu ári og því næsta. Eftir eitt til tvö ár verða svo tré og runnar gróðursett.

Lífrænt efni er kærkomið á þessu mikið rofna svæði. Enda er jarðvegur eitt af því allra verðmætasta sem við eigum. Um leið er hægt að binda gríðarlegt magn kolefnis í jarðvegi og gróðri. Því liggur mikið við að stöðva eyðingu gróðurþekjunnar og uppfok jarðvegs og loka aftur gróðursárum. Það gildir í Úlfarsfelli líkt og víðar.

Í Úlfarsfelli hefur Skógræktarfélag Reykjavíkur verið að vinna að ræktun Loftslagsskóga Reykjavíkur, í samstarfi við Reykjavíkurborg. Miðað er við að skógurinn muni að lokum þekja um 150 hektara svæði. Gróðurþekja á svæðinu er víða frekar rýr og á köflum er hlíðin gróðurlaus. Gróðursetning og uppgræðsla hófst 2020. Því þarf að styrkja gróðurþekjuna samhliða því sem plantað er á svæðinu.

Nánar er fjallað um Loftslagsskógana hér.