Á döfinni

Loftslagsskógar ræktaðir í hlíðum Úlfarsfells

Byrjað er að gróðursetja í nýja Loftslagsskóga í Úlfarsfelli. Loftslagsskógar eru samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Skógræktarfélags Reykjavíkur. Með þeim er ætlunin að kolefnisjafna starfsemi ýmissa sviða og stofnana borgarinnar. Um leið verða til nýir útivistarskógar í borgarlandinu sem veita kærkomin tækifæri til útiveru og draga úr roki. Miðað er við að skógurinn muni að lokum þekja um 150 hektara svæði.

Samningur um Loftslagsskóga var formlega undirritaður af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og Jóhannesi Benediktssyni, formanni Skógræktarfélags Reykjavíkur, á afmæli Heiðmerkur 25. júní síðastliðinn.

Skógræktaráætlunin er til 10 ára og unnið á um 15 hektara stóru svæði hvert ár. Meginmarkmið ræktunar á svæðinu er aukin kolefnisbinding og uppbyggin útivistarskógar. Til þess eru notaðar fjölbreytilegar tegundir trjáplantna og runna. Þá er einnig unnið að því að stækka og þétta svæði þar sem nú þegar eru ungskógar og gróðursetja í lúpínubreiður. Það sem af er sumri hafa um 10.000 trjáplöntur verið gróðursettar auk þess sem talsverðu hefur verið dreift af grasfræi, hvítsmára og áburði.

Kolefnisbinding, skjól og útivist

Gústaf Jarl Viðarsson, skógfræðingur og starfsmaður félagsins, segir að svæðið sé sums staðar illa farið. „Gróðurþekjan er víða frekar rýr og á köflum er hlíðin ógróin. Því þarf að styrkja gróðurþekjuna samhliða því sem plantað er á svæðinu.“ Segir Gústaf.

Mest stendur til að gróðursetja af stafafuru, ilmbjörk, sitkagreni og alskaösp en einnig talsvert af reyni og elri. Gústaf segir þetta tegundir sem hafi gefið góða raun í skógrækt á Íslandi í marga áratugi. Þær séu harðgerar, bindi mikið kolefni og séu til þess fallnar að fegra svæðið. Margar fleiri tegundir verða einnig gróðursettar, svo sem berjarunnar og víðir. Enda á svæðið bæði að binda kolefni og verða útivistarsvæði.

Þegar verið rækta upp nýja skóga, er skynsamlegt að vinna á hæfilega stórum svæðum í einu. Bæði tryggir það að plönturnar fái skjól hver af annarri og að aldursamsetning trjágróðursins verði blandaðri er fram líða stundir. Loks næst betri árangur af nýskógrækt ef hægt er að fylgja svæðum eftir í nokkur ár – bera áburð á þær plöntur sem þegar hafa fest rætur og bæta inn trjáplöntum eftir þörfum.

Á svæðinu er nú þegar talsverður fjöldi trjáplantna sem gróðursettur var árin 2008 og 2009. Þetta var gert samkvæmt samningi Skógræktarfélags Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar, árið 2008, og var hluti af Grænum skrefum borgarinnar. Tugþúsundir trjáplantna voru þá gróðursettar, meðal annars í Úlfarsfelli. Gústaf segir að margar þeirra séu nú að ná eins og jafnvel tveggja metra hæð. „Þetta er ungskógur. Hann er ekki farinn að veita skjól en mun gera það eftir nokkur ár.“

Fáeinar af þeim plöntum sem gróðursettar hafa verið í sumar. Á myndinni má sjá elri, reyni, lerki og runna. Mynd: Gústaf Jarl Viðarsson.

Hver hektari bindur um 7 tonn á ári

Verulegt magn kolefnis mun bindast í skógunum. Gústaf segir að reikna megi með að á hverjum hektara skóglendis bindist 7 tonn á ári af CO2, að meðaltali næstu 50 árin. Trjáplöntur binda nær ekkert kolefni fyrstu árin meðan þær eru að koma sér fyrir í jarðveginum. En þegar vöxtur þeirra er kominn vel af stað er bindingin mikil og nær þessu meðaltali yfir 50 ár. Hve mikið kolefni trén binda veltur meðal annars á aðstæðum og trjátegundum. Á Íslandi bindur birki oft um þrjú og hálft tonn á hektara, sitkagreni um sjö en ösp getur bundið um 20 tonn af kolefni, vaxi trén í frjósömu landi.

1 thoughts on “Loftslagsskógar ræktaðir í hlíðum Úlfarsfells

Comments are closed.