Fréttir

Tré ársins er heggur í Rauðavatnsstöðinni

Fjörgamall heggur (Prunus padus) í Rauðavatnsstöðinni er tré ársins 2021. Heggurinn var gróðursettur á upphafsárum gróðrarstöðvarinnar og er einn af elstu heggjum landsins. Hann er ættfaðir fjölmargra heggja á suðvesturhorni landsins. Skógræktarfélag Íslands útnefnir tré ársins. Í ár var heggurinn útnefndur að tillögu Skógræktarfélags Reykjavíkur, í tilefni þess að 120 ár eru liðin frá því að Skógræktarfélag Reykjavíkur var upphaflega stofnað.

 

Útnefningin fer fram við hátíðlega athöfn í dag, miðvikudaginn 25. ágúst, klukkan 16:00.

Dagskrá:

1. Setning dagskrár
Tónlist: Erna Ómarsdóttir og Rakel Björt Helgadóttir
2. Ávarp – Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands
3. Afhending á viðurkenningarskjali. Dagur Eggertsson borgarstjóri veitir því viðtöku
4. Ávarp – Jóhannes Benediktsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur
5. Mælingar á trénu
6. Veitingar í boði Lambhaga

Allir velkomnir!

 

Skógræktarfélag Íslands útnefnir árlega Tré ársins. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa.

 

Skógræktarfélag Reykjavíkur stofnað á þessum degi fyrir 120 árum

Skógræktarfélag Reykjavíkur var stofnað 25. ágúst 1901. Markmið félagsins var að kaupa og gróðursetja í landskika við Rauðavatn. Vonir stóðu til að þar yrði lystigarður í framtíðinni, skammt frá höfuðborginni. Næstu ár var unnið að skógrækt í Rauðavatnsstöðinni, sem kallað var. Þar var einnig útbúinn græðireitur til að rækta upp upp tré og runna af fræi.

 

Fjallað er um afmælið og viðburði í tilefni af því hér. Þá hefur fjallað um félagið og starfsemi þess í gegnum árin í sögudagatali sem nálgast má á heimasíðunni og á Facebook-síðu Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Tré ársins 2021 – heggur sem gróðursettur var á fyrstu árum Rauðavatnsstöðvarinnar.

Heggurinn gamli í Rauðavatnsstöðinni blómgaðist fallega sumarið 2021. Mynd: Auður Kjartansdóttir.