Á döfinni, Fréttir

Sumarverkin í Heiðmörk

Gróðursetningar, stígagerð, nýir bekkir og viðhald — það hefur mikið verið um að vera í Heiðmörk í sumar.

32.000 trjáplöntur voru gróðursettar í Heiðmörk í vor. Haustgróðursetningar eru hafnar og búið að gróðursetja talsvert af birki við Hraunslóð og Silungapoll. Alls verða um 200.000 plöntur gróðursettar á þessu ári á svæðum félagsins í Heiðmörk, að Múlastöðum, í Úlfarsfelli og Esjuhlíðum.

Nokkur borð með áföstum bekkjum hafa verið sett á valda staði í Heiðmörk. Húsgögnin eru ávöxtur samstarfs við Fangaverk, nánar tiltekið fangar sem vinna á trésmíðaverkstæðinu á Litla-Hrauni, sem smíðuðu borðin og bekkina fyrir Skógræktarfélag Reykjavíkur. Nokkur eintök eru til sölu í verslun félagsins í Smiðjunni nærri Elliðavatnsbænum.

Eitt af borðunum með áföstum bekkjum, sem sett voru á valda staði í Heiðmörk í sumar.
Osvaldo og Snorre starfsnemar setja upp afmarkanir á bílastæðinu við Hjallaflatir.

Þá hefur verið borið ofan í stíga, ýmiskonar viðhaldi og tiltekt sinnt, og þök máluð á áningarhúsi og klósetthúsi við Helluvatn.

Loks hafa talsverðar endurbætur verið gerðar á Elliðavatnsbænum, bæði á þessu ári og í fyrra. Veturinn var ansi kaldur framan af, vegna þess að ofnar í húsinu voru bilaðir. Búið er að setja upp nýja ofna og varmadælukerfi í húsi. Vonast er til að þetta geri kyndingu hússins enn umhverfisvænni og einnig ódýrari. Samhliða þessu er verið að endurnýja vatnslagnir í Elliðavatnsbæinn. Þá er verið að skipta um þakglugga á húsinu.

Það veitti ekki af að mála þakið á salernishúsinu við Helluvatn.
Salernishúsið og áningarhúsið við Helluvatn.
Undirlag bætt undir nýju gönguskíðabrautinni sem liggur frá Elliðavatnsbænum að Hjallahringnum.
Lagnir lagðar við Elliðavatnsbæinn.