Fréttir

Stígagerð, viðhald og gróðursetningar

Sumarvinnuhópur Landsvirkunar hefur verið að störfum víða í Heiðmörk í sumar. Starfsmennirnir hafa lagt nýja stíga, lagað eldri stíga, gróðursett trjáplöntur, slegið flatir og sinnt sorphirðu í friðlandinu.

 

Talsvert hefur verið unnið að því að laga og bæta Ríkishringinn. Mikil ásókn hefur verið í útivistarsvæðin og skóglendið í Heiðmörk undanfarin misseri og hefur það enn á ný sannað gildi sitt á tímum Covid. Vegna mikillar umferðar voru ákveðin svæði farin að láta á sjá, svo sem Ríkishringurinn. Því hefur verið unnið að því að bera í stíga og laga og bæta alla innviði. Því starfi verður haldið áfram enda er vaxandi gestafjöldi í Heiðmörk mikið gleðiefni.

 

Við Símamannalaut hefur sumarvinnuhópur Landsvirkjunar verið að bera í stíga. Hópurinn hefur einnig unnið á stígum við Elliðavatn og nýja hluta gönguskíðabrautarinnar í samvinnu við verktaka Skógræktarfélag Reykjavíkur. Þá hefur verið borið í Dagsleið, sem tengir saman göngustíg að Norðlingaholti við brúna yfir Helluvatn.

Hluti Landsvirkjunarhópsins 2021.

Stígagerð við Símamannalaut.

Í hinum enda friðlandsins – við Vífilsstaðahlíð – hefur nýr tengistígur verið lagður frá bílastæðinu við Búrfellsgjá að göngustígnum við Vífilsstaðahlíð. Stígurinn var lagður af ungmennum á vegum Garðabæjar og verktökum Skógræktarfélags Reykjavíkur.

 

Sumarvinnuhópar frá Landsvirkjun hafa starfað í Heiðmörk í fjöldamörg ár undir yfirskriftinni Margar hendur vinna létt verk og unnið afar mikilvægt starf. Þeir eru skipaðir ungmennum á aldrinum 16 til 22 ára.

 

Í sumar hefur á þriðja tug ungmenna verið að störfum í Heiðmörk í Landsvirkjunarhópnum. Starfsmenn Skógræktarfélags Reykjavíkur hafa útvegað verkefni og leiðbeint um hvernig best er að leysa þau af hendi. Félagið sér sumarvinnuhópunum fyrir efnivið, verkfærum og aðstöðu. Stærsta verkefnið hefur verið gróðursetning landgræðsluplantna. Í sumar hefur verið gróðursett á Grunnuvatnasvæðinu í Heiðmörk, ekki langt frá Guðmundarlundi.

Gróðursett í Heiðmörk, á Grunnuvatnasvæðinu, sumarið 2021.

Gróðursett í Heiðmörk, á Grunnuvatnasvæðinu, sumarið 2021.

Stígagerð í Vífilsstaðahlíð í júní 2021.