Skógræktarfélag Reykjavíkur fagnar 120 ára afmæli í ár. Félagið var stofnað 25. ágúst 1901. Um áttatíu hluthafar lögðu fé til félagsins og var því varið til að kaupa rúma sex hektara lands við Rauðavatn, girða það og hefja gróðursetningu. Danski skógfræðingurinn Christian Flensborg, einn hvatamanna að stofnun félagsins, taldi að þarna væri tilvalinn staður fyrir lystigarð í framtíðinni.
Skógræktartilraunir við Rauðavatn gengu illa framan af þótt í dag sé þar fagur skógur. Skógrækt í Heiðmörk og umsjón með friðlandinu varð síðar lykilþáttur í starfi Skógræktarfélags Reykjavíkur, ásamt rekstri Fossvogsstöðvarinnar. Síðustu ár hefur félagið einnig haft umsjón með útivistarsvæðinu í Esjuhlíðum. Þar er unnið að því að rækta skóg og bæta innviði fyrir útivist. Félagið hefur einnig fest kaup á jörðinni Múlastöðum í Borgarfirði og jörðunum Felli og Keldudal í Mýrdalshreppi. Unnið er að skógrækt á þessum jörðum. Nánar er fjallað um sögu Skógræktarfélags Reykjavíkur hér og um afmælið hér.
Viðburðir á afmælisárinu
120 ára afmælinu verður fagnað með fjölbreyttri dagskrá, eftir því sem sóttvarnaraðgerðir leyfa. Græðlinganámskeið var haldið í húsnæði félagsins í Heiðmörk í mars. Í maí verður gróðursetningardagur, þar sem félagsmönnum verður boðið að taka þátt í skógræktinni. Heiðmerkurhlaupið, sem var fyrst haldið í fyrra, verður endurtekið í sumar, enda vakti það mikla lukku. Þá verður efnt til skógargangna í samstarfi við Ferðafélag Íslands, einn fyrsta landnemahópinn í Heiðmörk, og sveppatínslu svo eitthvað sé nefnt.