Fréttir, Sögudagatal

Skógarmenning

„Sóltjald“ er það kallað sunnar í álfunni. En á Íslandi var það lengi vel kallað „skjóltjald“ eða „vindtjald“. Á sumrin er enda oft hlýtt ef maður er í skjóli fyrir bölvuðum næðingnum. Af honum er nóg, ef ekki er skjól af tjaldi eða húsvegg eða trjágróðri. Að fara í útilegu eða lautarferð í skjóli trjáa er allt önnur upplifun en að vera á berangri. Og af hverju heitir þetta annars lautarferð? Er það af því að í lautum er skjól fyrir vindinum?

 

Þótt vissulega hafi verið einhverjir skógar á Íslandi um aldamótin 1900, voru þeir fáir og illa farnir. Menn töldu raunverulega hættu á að þeim yrði eytt með öllu. Það skóglendi sem vaxið hefur upp á síðustu áratugum – og er enn að vaxa og stækka – er auk þess fjölbreyttara og hávaxnara en flestir Íslendingar eiga að venjast. Hjá rótgrónum skógarþjóðum eru skógarnir staðir þar sem leita má innblásturs og endurnæringar; hreyfa sig, leika sér, láta hugann reika eða bara hangsa. Kannski svipað og Íslendingar kunna svo vel að gera í sundi.

 

Starfsmenn Skógræktarfélags Reykjavíkur hafa veitt því athygli hve mikill munur er á því hvernig Heiðmörk er notuð af Íslendingum annars vegar og hins vegar af fólki frá skógarþjóðum á borð við Noreg eða Pólland. Íslendingarnir eru yfirleitt með verkefni. Oft felst það í að fara frá A til B. Hjá öðrum er skóglendið áfangastaðurinn. Fólk tekur með sér teppi, nesti, kannski körfu til að tína í sveppi eða eitthvað til að leika sér með. Og dvelur svo í skóginum.

 

Skógarmenning er vissulega til á Íslandi. Hvaða barni finnst ekki gaman að fela sig í birkikjarri eða finna grein og nota sem staf eða veiðistöng? Á reyniviði hvílir helgi. Úr birki voru unnin kol, birkilauf notuð í matargerð og viðurinn til reykingar. Svo hafa auðvitað ófá ljóð verið ort um blessuð trén.

 

Nú þegar skógar á Íslandi eru að verða hærri, stærri og fjölbreyttari, eru að verða til ný tækifæri til að dvelja í skógunum, nýta efniviðinn, skapa og skemmta sér. Skógræktarfélag Reykjavíkur leitast við að styrkja fjölbreyttari skógarmenningu. Hvort sem það er með þróun smíðaviðar, betri nýtingu á hráefnum skógarins, útivist, fræðslu um ætar afurðir skógarins eða lífi og fjöri eins og á Skógarleikunum.

Hjólað að vetrarlagi í Heiðmörk
Hjólreiðar að vetrarlagi í Heiðmörk. Mynd: Icebikes.

Fólk á gönguskíðum í Heiðmörk. Mynd: Ullur

Heiðmerkurhlaupið 2020. Mynd: Guðmundur Jónsson.

Ketilkaffi bruggað í skóginum.
Ketilkaffi bruggað í skóginum.

Viðarskúlptúr, skorinn út með keðjusög, býður þátttakendur í Skógarhlaupinu í Heiðmörk velkomna.

Viðarskúlptúrar, skornir út með keðjusög.

Medalíur í Heiðmerkurhlaupinu 2020, gerðar úr viði úr Heiðmörk.

Fagurlega skreytt jólatrjáasala Skógræktarfélags Reykjavíkur í gróðurhúsinu á Lækjartorgi. Mynd: Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir.

Hráefni í bursta frá Cleaning strategies í Smiðjunni í Heiðmörk. Mynd: Sólveig Þráinsdóttir.

Þessi umfjöllun er hluti af sögudagatali í tilefni af því að 120 ár eru frá því að Skógræktarfélag Reykjavíkur var upphaflega stofnað, 25. ágúst 1901. Hægt er að lesa meira um sögu félagsins hér og um 120 ára afmælið hér.