Fréttir

Skíðagöngudagur í Heiðmörk

Laugardaginn 12. febrúar, klukkan 12 til 15 efna Skógræktarfélagið og Skíðagöngufélagið Ullur til skíðagöngudags fyrir alla fjölskylduna við Elliðavatnsbæinn. Gestum, börnum og fullorðnum gefst kostur á að fá lánuð gönguskíði til að prófa og börnum verður boðið upp á leiðsögn og að taka þátt í skíðaleikjum. Kaffi & kakósala á staðnum. Ekkert kostar að vera með og eru allir velkomnir.

 

Tilefni skíðagöngudagsins er að vígja nýja 2,4 km skíðagöngubraut sem tengir Hjallahringinn (8 km) við Elliðavatnsbæinn en leiðin þangað er jafnan rudd þegar færð er slæm. Tengibrautin var gerð á síðasta ári með styrk frá Orkuveitu Reykjavíkur en hefur ekki verið nýtt fyrr en nú. Þessi nýja tenging er til mikilla bóta fyrir skíðagönguiðkendur sem ekki eru lengur háðir færð að Hjallahringnum (sjá nánar frétt hér). Undanfarna daga hafa verið frábærar aðstæður til skíðagönguiðkunar í Heiðmörk sem fjölmargir hafi notið, enda er alltaf skjól í skóginum.

 

Gönguskíðadagurinn er haldinn í samtarfi við Fjallakofann sem lánar gönguskíði til áhugasamra og Norska sendiráðið sem nýlega gaf Skógræktarfélaginu búnað fyrir „Skileik“, en það er skemmtileg leið til að læra á gönguskíði gegnum þrautir og leiki.