Fréttir

Loksins gönguskíðafæri í Heiðmörk

20 sentimetra jafnfallinn snjór var í Heiðmörk á þriðjudagsmorgun þegar starfsmenn Skógræktarfélags Reykjavíkur mættu til vinnu. Loksins hægt að troða gönguskíðabrautir og prófa nýju gönguskíðabrautina sem liggur frá Elliðavatnsbænum.

 

Búið er að ryðja veginn að Elliðavatnsbænum, framhjá Rauðhólum og yfir brúna við Helluvatn. Hann er því fær bílum. Hins vegar er ófært um Heiðmerkurveg eftir að komið er framhjá afleggjaranum að Elliðavatnsbænum.

 

Nýja gönguskíðabrautin er 2,4 kílómetra löng og var lögð sumarið og haustið 2020. Brautin tengir gönguskíðabrautirnar við Hjallabraut við Elliðavatnsbæinn. Með tilkomu hennar er því hægt að leggja á bílastæðinu við Elliðavatnsbæinn, en leiðin þangað er jafna rudd þegar færð er slæm.

 

Fram til þessa hefur gönguskíðafólk ekið að Hjallabraut og lagt þar. Vetrarfærð um Heiðmörk er getur verið slæm og þar sem Heiðmörk er vatnsverndarsvæði er gríðarlega mikilvægt að aðgát sé höfð þegar farið er um á ökutækjum. Vorið 2020 var um tíma lokað fyrir bílaumferð um stóran hluta Heiðmerkur vegna þess að mikill snjór hafði þjappast í svell og erfiðað akstursskilyrði. Þetta var talið nauðsynlegt til að tryggja mætti öryggi vatnsverndarsvæða enda gæti olíuleki vegna bílslyss valdið miklu tjóni.

 

Nýja gönguskíðabrautin ætti að leysa úr þessu auk þess sem aðgengi að bílastæðum er betra við Elliðavatnsbæinn. Brautin er samstarfsverkefni Skógræktarfélags Reykjavíkur og Orkuveitu Reykjavíkur og unnin í samstarfi við Skíðagöngufélagið Ull. Hægt er að fylgjst með því þegar brautir eru troðnar á Skisporet.

 

20 sentimetra jafnfallinn snjór við Smiðjuna.

Lagt af stað á vélsleðanum til að troða braut.