Nú um helgina er síðasta helgin í aðventu. Opið er á Jólamarkaðnum í Heiðmörk og í Jólaskóginum á Hólmsheiði auk þess sem Skógræktarfélag Reykjavíkur verður með jólatrjáasölu á Lækjartorgi, 17. til 22. desember.
Jólamarkaðurinn í Heiðmörk
Jólamarkaðurinn er við Elliðavatnsbæinn og verður opinn eins og síðustu helgar, frá 12:00 til 17:00.
Leitast er við að skapa ævintýralegalega stemmningu í vetrarparadísinni Heiðmörk þar sem fólk getur notið útiveru í skóginum, valið jólatré og einstakar gjafir á handverksmarkaðnum, og fengið sér kökur og heitt kakó. Félagið selur að sjálfsögðu aðeins íslensk jólatré. Fyrir hvert jólatré sem selst eru 50 gróðursett. Á handverksmarkaðnum er sérstök áhersla lögð á einstakt handverk og innlend matvæli og snyrtivörur. Verðskrá fyrir jólatré og tröpputré má nálgast hér.
Í Rjóðrinu, nærri Elliðavatnsbænum, verður barnastund á hverjum opnunardegi markaðarins, klukkan 14. Dagskrána má nálgast hér.
Veitingasala er úti í jólakofa eins og síðustu tvö ár. Gestir geta valið um að sitja úti, á nýjum bekkjum frá Fangaverki, eða tylla sér inn í kjallara Elliðavatnsbæjarins. Gestum er bent á að klæða sig vel og njóta útivistarsvæðisins í Heiðmörk þegar þeir heimsækja Jólamarkaðinn. Út frá Elliðavatnsbænum er fjöldinn allur af gönguleiðum sem sjá má á korti hér.
Jólaskógurinn Hólmsheiði
Í Jólaskóginum á Hólmsheiði hefur líka verið yndæl jólastemmning. Fólk hefur komið og fellt sitt eigið jólatré, fengið sér heita hressingu og kannski skrafað við jólasveinana sem eru á ferli í skóginum. Jólaskógurinn er opin laugardaginn 17. og sunnudaginn 18. desember, milli 11:00 og 16:00.
Leiðarlýsingu má finna hér. Leiðin er einstefna – ekið er í Jólaskóginn frá hringtorginu við Norðlingaholt og um Mjódalsveg. Í stað þess að snúa við og fara sömu leið til baka er ekin önnur leið út á Suðurlandsveg. Hægt er að fá lánaðar sagir á staðnum en við hvetjum gesti til að taka með sér sínar eigin sagir. Verðskrá er hér.
Jólatrjáasala Lækjartorgi 17. til 22. desember
Skógræktarfélagið býður upp á jólatrjáasölu á Lækjartorgi, í samstarfi við Reykjavíkurborg. Notaleg stemmning verður í gróðurhúsinu sem nú er staðsett á Lækjartorgi. Boðið verður upp á jólatré, tröpputré og greinabúnt.
Opnunartímar Lækjartorgi:
17. des lau kl. 14 – 18
18. des sun kl. 14 – 18
19. – 22. des mán – fim kl. 16 – 20
Nánari upplýsingar má finna hér á heidmork.is og Facebook-síðu Jólamarkaðarins í Heiðmörk.