Fréttir, Sögudagatal

Nýjar skógræktarjarðir Skógræktarfélags Reykjavíkur

Þótt Heiðmörk hafi áratugum saman verið þungamiðjan í starfi Skógræktarfélags Reykjavíkur, er afrakstur af skógrækt félagsins sjáanlegur mun víðar í Reykjavík og nágrenni borgarinnar. Á síðustu árum og áratugum hefur félagið eignast eigin jarðir þar sem unnið er að skógrækt á hundruðum hektara.

Í Öskjuhlíð, sem þá var „grjóta- og melholt“ (Morgunblaðið*), stýrði félagið uppgræðslu og skógrækt frá upphafi, árið 1951, í samvinnu við Hitaveitu Reykjavíkur. Félagið stýrði einnig ræktunarstarfi í Elliðaárdal áratugum saman og skógræktarstarfi á jaðarsvæðum á borð við Hólmsheiði. Gróðursetningarstarfið var í höndum unglinga í sumarvinnu, en skipulagt og stýrt af starfsmönnum skógræktarfélagsins. Auk þess voru gróðursetningarplönturnar ræktaðar í gróðrarstöð félagsins í Fossvogi.

Ekkert þessara svæða er í eigu félagsins, ekki frekar en Esjuhlíðar sem félagið hefur haft umsjón með síðustu tvo áratugi. Og Rauðavatnsstöðin var seld Reykjavíkurborg í lok síðustu aldar, líkt og lóðin þar sem Fossvogsstöðin var.

Búrfoss í Elliðaám um 1900. Umhverfi Reykjavíkur var víða grýtt og gróðurlítið fram yfir miðja síðustu öld. Ljósmynd: Sigfús Eymundsen. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Horft frá Öskjuhlíð yfir Hlíðahverfi í átt að Stýrimannaskólanum og Esjunnni, um 1950-1960. Ljósmynd: Hannes Pálsson. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Horft frá Öskjuhlíð í átt að Esjunni sumarið 2013. Ljósmynd: Zairon. Wikimedia Commons.

Þeir fjármunir sem fengust fyrir lóðina sem Fossvogsstöðin stóð á, voru notaðir til jarðarkaupa, svo félagið gæti ræktað upp skóg á eigin landi. Jörðin Múlastaðir í Flókadal var keypt árið 2014 og árið 2018 var gengið frá kaupum á jörðunum Felli og Keldudal í Mýrdalshreppi.

Á Múlastöðum er nú verið að rækta upp nytjaskóg. Jörðin er 650 hektarar og hafa nú þegar verið gróðursettar ríflega 300 þúsund trjáplöntur á um 113 hektara svæði.

Jarðirnar Fell og Keldudalur eru hluti af Fellsmörk, ásamt jörðinni Álftagróf. Skógræktarfélag Reykjavíkur tók Fellsmörk á leigu af íslenska ríkinu árið 1989. Undanfarna þrjá áratugi hafa 37 landnemar stundað þar skógrækt á spildum sem þeir hafa fengið úthlutað frá skógræktarfélaginu. Árið 2018 keypti félagið jarðirnar tvær svo af ríkinu – alls 982 hektara. Hugmyndir hafa verið uppi um að gera Fellsmörk að einhvers konar þjóðgarði sunnan jökla, líkt og Þórsmörk er norðan jöklanna.

Keldudalur í Fellsmörk 2020. Mikilvægi þess að girða svæðið fyrir beit sést vel á línunni efra vinstra horni myndarinnar. Ljósmynd: Einar Ragnar.

Búrfell séð frá Keldudaldsheiði, ofan Fellsmerkur.

Múlastaðir. Mynd: Auður Kjartansdóttir.

Gróðursett á Múlastöðum.

Þessi umfjöllun er hluti af sögudagatali í tilefni af því að 120 ár eru frá því að Skógræktarfélag Reykjavíkur var upphaflega stofnað, 25. ágúst 1901. Hægt er að lesa meira um sögu félagsins hér og um 120 ára afmælið hér.

 

* Í Morgunblaðinu, 6. maí 1951, mátti lesa eftirfarandi texta á blaðsíðu 12: „Ræktun í Öskjuhlíð hefst í vor. Bæjarráð hefur samþykkt að fela Skógræktarfjelagi Reykjavíkur „að gera tilraun með“ að græða með sandfaxi efsta hluta Öskjuhlíðarinnar. Er um að ræða nál. 4 hektara. (…) Að gera melkollinn á Öskjuhlíð að túni, er fyrsta skrefið í ræktun þessa leiða grjóta- og melholts, sem Öskjuhlíðin er nú. Að vori ætti að vera hægt að hefja trjárækt í brekkum Öskjuhlíðarinnar. En þegar Öskjuhlíðin er orðin grasi- og skógi vaxin, verður svo mikil svipbreyting á landinu, hjer sunnan við bæinn, að allir sem unna gróðri og fegurð, munu óska þess, að umbreyting þessi taki sem stystann tíma.“