Árþúsunda löng hefð er fyrir því að skreyta hús með grænum greinum yfir jól og nýár. Enda hefur margskonar átrúnaður verið á tré og einstaka trjátegundir í gegnum söguna. Tré hafa táknað miðju heimsins í sumum trúarbrögðum og sígræn tré geta líka verið táknræn fyrir það hvernig lífið hefur betur,m þrátt fyrir myrkur og vetrarkulda.
Í fornöld skreyttu Rómverjar til að mynda hús sín með trjágrenum, sem áttu að boða gæfu, líkt og lesa má í grein Sigurðar Ægissonar á Vísindavefnum. Mistilteinninn er hefð af sama meiði. Um 1100 var svo byrja að sýna helgileiki í tengslum við jólahátíðina, þar sem grænt tré, skreytt eplum og borðum, var látið tákna skilningstréð. Fyrstu heimildir um eiginleg jólatré eru frá því á 16. öld, í Strassborg og nágrenni. Siðurinn barst til Norðurlandanna eftir 1800 og Íslands um 1850. Fyrstu jólatrén á Íslandi voru sett upp hjá dönskum fjölskyldum í kaupstöðum. Engin grenitré voru þá á Íslandi fyrir utan eini og talsvert fyrirtæki að flytja vörur sjóleiðina til landsins. Einhver grenitré komu hingað og má lesa frásagnir af jólaskemmtunum með skreytt jólatré sem miðpunkt, til dæmis á Seyðisfirði, 1897. Aðrir bjuggu til gervitré út timbri eða vír og máluðu grænt eða klæddu með grænum pappí, sortulyngi, beitilyngi eða eini.
Jólatré úr gerviefnum
Gervitré dagsins í dag eru komin heldur lengra frá náttúrunni. Flest eru úr plasti, sem aftur er unnið úr olíu. Framleiðslan er orkufrek og misjafnt hversu auðvelt er að endurvinna trén, ef það er yfir höfuð gert. Þá eru gervijólatré yfirleitt framleidd í Asíu og því flutt yfir hálfan hnöttinn. Gervitré geta þó í einhverjum tilvikum verið betri kostur fyrir umhverfið, að mati Umhverfisstofnunar. En til þess að svo sé, þarf gervitréð að vera í notkun í áratugi. Auk þess veltur mikið á því hvort trén sem gervitréð leysir af hólmi, hefðu verið framleidd á umhverfisvænan eða -skaðlegan hátt.
Lifandi jólatré í potti
Grenitré í potti eru kannski nýjasta fyrirbærið í íslensku jólatrjáaflórunni. Hugmyndin er grenitréð geti gagnast sem jólatré og svo sé hægt að gróðursetja það með vorinu. Eða færa það í stærri pott og hafa aftur sem jólatré að ári.
Til að grenitré lifi það af að vera tekið inn yfir jólahátíðina, þarf að huga að ýmsu. Mikill munur er á hitastigi úti og inni auk þess sem það er oft ansi þurrt inni á íslenskum heimilum. Það getur því verið mikið álag fyrir tré að vera flutt úr vetrarkuldanum inn í hlýja stofu, og svo út aftur. Þess vegna ætti að reyna að hafa tréð inni í sem stystan tíma og gjarna á köldum stað. Kannski er hægt að hafa tréð úti fram á aðfangadag og setja það síðan út aftur til dæmis á þriðja í jólum. Eða hafa tréð úti á svölum eða í bílskúr, á milli þess sem það er tekið inn. Þá er talsvert álag á lifandi tré að vera með mikið af ljósum. En svo er líka hægt að hafa jólatré í potti sem skreytingu utandyra.
Nordmannsþinur og innflutt jólatré
Mikill meirihluti jólatrjáa sem seljast á Íslandi er innfluttur, og hefur svo verið lengi. Flest koma frá Danmörku. Danir rækta árlega um 12 milljónir trjáa, aðallega nordmannsþin, og hafa verulegar tekjur af. Sá galli er á gjöf Njarðar að 80 prósent danskra jólatrjáa eru ræktuð á jólatrjáaökrum. Mikið er notað af tilbúnum áburði og skordýraeitri við ræktunina. Um 25 tonnum af glyfosati, eða Roundup, er sprautað á jólatré og grenigreinar í Danmörku á ári hverju, líkt og eins og dönsku náttúruverndarsamtökin Danmarks Naturfredningsforening benda á. Í Damnmörku eru þó líka til jólatré sem hafa vaxið upp í skógum og eru ekki sprautuð. Þau eru þó í miklum minnihluta. Vistvæn jólatré eru um tvö prósent af framleiðslunni.
Íslensk tré
Líklega var það um 1950 sem byrjað var að nýta íslenskar furur og grenitré til að gera hátíðlegt yfir jólin. Árið 1951 var innflutningur grenitrjáa frá Evrópu bannaður og í fyrsta sinn sett upp al-íslensk jólatré fyrir íbúa á Akureyri og í Reykjavík. Það ár voru einnig greinar af fjallafurum úr Rauðavatnsstöðinnni boðnar til sölu í Reykjavík.
Framboð af íslenskum jólatrjám hefur stóraukist síðan þá. Innlend tré eru talin umhverfisvænasti kosturinn. Líkt og Umhverfisstofnun bendir á, ætti tréð að vera ræktað nálægt okkur enda er það orkukrefjandi að flytja tré langar leiðir og veldur losun gróðurhúsalofttegunda. Þá ætti tréð að vera fellt sem liður í grisjun skógarins, en það gildir alla jafna um íslensk jólatré.
Við grisjun falla til fjölbreytileg tré sem gjarna má nýta. Undanfarin ár hafa „einstök tré“ verið á boðstólunum í Heiðmörk. Það eru tré sem eru óvenjuleg í laginu; oft skúlptúrísk og falleg á einstakan hátt. Þessi tré hafa vaxið upp í skóginum, við aðstæður sem hafa mótað útlitið og endurspegla fegurðina í fjölbreytileika náttúrunnar.
Til að íslenskt jólatré séu umhverfisvæn, þarf þó að ganga frá þeim á umhverfisvænan hátt. Helst þannig að sveitarfélög eða endurvinnslustöðvar vinni úr þeim moltu, kurl eða aðrar afurðir. Þannig geta trén haldið áfram að gera gagn fyrir umhverfið.
Flest íslensk jólatré eru seld hjá skógræktarfélögum. Oft er ákveðinn fjöldi trjáa gróðursettur fyrir hvert jólatré sem selst. Skógræktarfélag Reykjavíkur gróðursetur til að mynda 50 ný tré fyrir hvert selt tré.