Skógræktarfélag Reykjavíkur stendur fyrir fjölbreyttum viðburðum í aðdraganda jólanna þar sem notaleg jólastemning og skógrækt eru í forgrunni. Í ár verður ekki aðeins jólamarkaður við Elliðavatn og Jólaskógur á Hólmsheiði, heldur líka jólatrjáasala á Lækjartorgi.
Jólamarkaðurinn við Elliðavatn
Jólamarkaðurinn við Elliðavatnsbæ í Heiðmörk er haldinn allar aðventuhelgar af Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Þá verður einnig jólatrjáasala við Elliðavatnsbæinn alla virka daga frá 13.00-17.00, frá 28. nóvember til og með 20.desember.
Undanfarin ár hefur verið mikil og ljúf jólastemming á markaðnum á aðventunni og ánægjulegt að sjá að heimsókn á jólamarkaðinn hefur fest sig í sessi sem aðventuhefð hjá mörgum.
Með jólamarkaðnum vill félagið stuðla að ævintýralegri upplifun í vetrarparadísinni Heiðmörk þar sem fólk getur notið útiveru í skóginum, valið jólatré og einstakar gjafir á handverksmarkaðnum og fengið sér hressingu. Félagið selur að sjálfsögðu aðeins íslensk jólatré af ýmsum gerðum. Fyrir hvert selt tré eru 50 gróðursett. Á handverksmarkaðnum er sérstök áhersla lögð á einstakt handverk og matvæli.
Áhersla á upplifun utandyra
Jólamarkaðurinn verður með breyttu sniði og hefur að sjálfsögðu verið útfærður í samræmi við allar gildandi reglur og leggjum við okkur fram við að skapa sem bestar aðstæður fyrir gesti. Kaffisala verður utandyra og meiri áhersla á upplifun utandyra. Við viljum því benda gestum Jólamarkaðarins á að klæða sig vel og nýta þetta einstaka útivistarsvæði þegar það heimsækir markaðinn. Út frá Elliðavatnsbænum er fjöldinn allur af gönguleiðum sem sjá má á korti inn á heidmork.is. Auk þess verður ævintýraleg stemmning í Rjóðrinu þar sem varðeldur mun loga á meðan markaðurinn er opinn. Á þessu ári hefur fjöldi gesta í Heiðmörk aukist verulega og fögnum við því að höfuðborgarbúar sæki hingað næringu fyrir bæði sál og líkama.
Jólatrjáasala – sjálfbærni og vistvæn ræktun
Heiðmörk fagnar á þessu ári 70 ára afmæli. Á þessum tíma hefur tekist að skapa ekki bara einstakt útivistarsvæði heldur einnig nytjaskóg. Megnið af jólatrjánum sem seld eru í ár, koma úr Heiðmörk. Öll trén sem boðið er upp á á markaðnum eru íslensk og eru því mun vistvænni en innflutt tré. Kolefnisspor þeirra er margfalt minna en influttra trjáa og án skordýraeiturs.
Auk jólatrjánna er boðið upp á hin tröpputré, greinabúnt og eldivið.
Skógræktarfélagið fagnar fjölbreytileikanum og hefur um árabil boðið upp á Einstök jólatré. Þetta eru tré með mikla sérstöðu og koma í allskonar stærðum, gerðum, formum og tegundum. Það er alltaf mikil stemmning að finna einstöku tréin fyrir markaðinn og spennandi að sjá hvaða gersemar hafa fundist í skóginum. Margir fastakúnnar koma sérstaklega fyrir einstöku tréin og skemmta sér við að velja, oft á tíðum mjög skúlptúrísk tré.
Verðskrá fyrir jólatré og tröpputré má nálgast hér.
Jólamarkaðstré
Á hverju ári býður Skógræktarfélagið myndlistarmanni eða hönnuði að skreyta jólamarkaðstréð. Í ár fögnum við því að hönnuðurinn Hanna Whitehead mun sjá um að skreyta tréið. Hanna er einn fremsti hönnuður landsins og þekkt fyrir einstaka fagur- og formfræði. Fyrir torgtréið er hún að sérhanna jólaskraut og verður spennandi að afhjúpa afraksturinn á opnun markaðarins þann 28 nóvember.
Handverksmarkaður
Á handverksmarkaðnum er hægt að finna einstakar jólagjafir unnar af handverksfólki, bændum í matvælavinnslu og listamönnum. Mikið af vörunum eru ekki aðgengilegar í verslunum svo hér gefst fólki tækifæri til að versla bæði spennandi matvörur og jólagjafir á einum stað. Hraundís skógarbóndi verður með ilmkjarnaolíur sem hún vinnur úr skóginum sínum í Borgarfirði. Þau Berglind og Svavar í Havarí verða með sitt fjölbreytta vöruúrval – allt frá Boppi í Líf ertu að grínast boli og plaköt. Bændurnir frá Ytri Hólmi verða með ekta hangilæri eins og þau voru upprunalega framleidd hér áður fyrr. Einstakar smíðavörur verða einnig á markaðnum og margt fleira.
Til þess að tryggja að farið sé að fjöldatakmörkunum og fjarlægðarmörkum á handverksmarkaði, verður handverksfólki fækkað og einstefna í gegnum rýmið. Rétt er að taka fram að handverksmarkaðurinn verður aðeins haldinn ef samfélagslegar aðstæður leyfa.
Opnunartímar Jólamarkaðarins í Heiðmörk
Jólamarkaðurinn verður í Heiðmörk allar aðventuhelgarnar, frá klukkan 12:00 til 17:00.
Aðventuhelgar 2020:
28.-29. nóvember
5.-6. desember
12.-13. desember
19.-20. desember
Til þess að koma til móts við þær sérstöku aðstæður sem nú eru uppi, mun félagið einnig hafa jólatrjáasöluna opna við Elliðavatnsbæinn alla virka daga frá 13.00-17.00, frá 28. nóvember til og með 20.desember.
Jólaskógurinn á Hólmsheiði
Í Jólaskóginum er hægt að höggva eigið jólatré. Allar sagir verða sótthreinsaðar á milli gesta og gætt vel að öllum sóttvarnar ráðstöfum. Einnig hvetjum við gesti til að taka með sér sagir.
Leiðarlýsing: Keyrt er út úr borginni austur Suðurlandsveg fram hjá Norðlingaholti og framhjá Heiðmerkur afleggjara. Stuttu seinna er komið að afleggjara á vinstri hönd sem er merktur Nesjavellir, Hafravatn og Hólmsheiði. Strax eftir að komið er inná Nesjavallaveg er malarvegur á vinstri hönd. Þegar komið er inná malarstíginn er haldið áfram malarslóða á hægri hönd en eftir um 500 m er bílastæði jólaskógarins. Kort er að finna neðst á þessari síðu.
Verðskrá fyrir jólatré má nálgast hér.
Opið verður eftirtaldar helgar, frá 11:00 til 16:00.
5.-6. desember
12.-13. desember
19.-20. desember
Jólatrjáasala á Lækjartorgi
Skógræktarfélagið í samstarfi við Reykjavíkurborg mun nú einnig bjóða upp á jólatrjáasölu á Lækjartorgi frá 17.-23.desember. Með þessu er verið að auka aðgengi enn frekar að trjánum og verður gerð notaleg stemmning í gróðurhúsinu sem nú er staðsett á Lækjartorgi. Boðið verður upp á jólatré, tröpputré og greinabúnt.
Opið virka daga frá 16.00-20.00 og helgina 19.- 20. des frá 14.00-18.00.