Skógræktarfélag Reykjavíkur stendur fyrir fjölbreyttum viðburðum í aðdraganda jólanna þar sem notaleg jólastemning og skógrækt eru í forgrunni. Í ár verður ekki aðeins jólamarkaður við Elliðavatn og Jólaskógur á Hólmsheiði, heldur líka jólatrjáasala á Lækjartorgi.
Jólamarkaðurinn við Elliðavatn
Jólamarkaðurinn við Elliðavatnsbæ í Heiðmörk er haldinn allar aðventuhelgar af Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Undanfarin ár hefur verið mikil og ljúf jólastemming og ánægjulegt að sjá að heimsókn á markaðinn hefur fest sig í sessi sem aðventuhefð hjá mörgum.
Með jólamarkaðnum vill félagið stuðla að ævintýralegri upplifun í vetrarparadísinni Heiðmörk þar sem fólk getur notið útiveru í skóginum, valið jólatré og einstakar gjafir á handverksmarkaðnum, notið menningardagskrár og fengið sér hressingu í kaffistofunni. Félagið selur að sjálfsögðu aðeins íslensk jólatré af ýmsum gerðum. Fyrir hvert selt tré eru 50 gróðursett. Á handverksmarkaðnum er sérstök áhersla lögð á einstakt handverk, innlend matvæli og snyrtivörur og umhverfisvænar vörur. Boðið verður upp á metnaðarfulla dagskrá þar sem rithöfundar lesa úr verkum sínum og tónlistarmenn flytja ljúfa tóna í kaffistofunni. Auk þess verður ævintýraleg skógarstemmning í Rjóðrinu þar sem varðeldur mun loga og barnabókahöfundar lesa úr verkum sínum.
Gestum er bent á að klæða sig vel og njóta útivistarsvæðisins í Heiðmörk þegar þeir heimsækja Jólamarkaðinn. Út frá Elliðavatnsbænum er fjöldinn allur af gönguleiðum sem sjá má á korti hér.
Jólatrjáasala – sjálfbærni og vistvæn ræktun
Heiðmörk fagnaði 70 ára afmæli á síðasta ári. Á þessum tíma hefur tekist að skapa einstakt útivistarsvæði en einnig nytjaskóg. Megnið af jólatrjánum sem seld eru í ár, koma úr Heiðmörk. Öll trén sem boðið er upp á á markaðnum eru íslensk og eru því mun vistvænni en innflutt tré. Kolefnisspor þeirra er margfalt minna en influttra trjáa og þau eru ræktuð án skordýraeiturs. Fyrir hvert selt tré eru 50 gróðursett.
Auk jólatrjánna er boðið upp á hin vinsælu tröpputré, greinabúnt og eldivið.
Skógræktarfélagið fagnar fjölbreytileikanum og hefur um árabil boðið upp á Einstök jólatré. Þetta eru tré með mikla sérstöðu og eru í öllum stærðum, gerðum, formum og tegundum. Það er alltaf mikil stemmning að finna einstöku trén fyrir markaðinn og spennandi að sjá hvaða gersemar hafa fundist í skóginum. Margir fastakúnnar koma sérstaklega til að kaupa einstöku tréin og skemmta sér við að velja, oft á tíðum mjög skúlptúrísk tré.
Verðskrá fyrir jólatré og tröpputré má nálgast hér.
Jólamarkaðstré
Á hverju ári býður Skógræktarfélagið myndlistarmanni eða hönnuði að skreyta jólamarkaðstréð. Enn er óráðið hver tekur að sér verkið en viðkomandi listamaður mun sérhanna jólaskraut af þessu tilefni. Afraksturinn verður svo afhjúpaður á opnun markaðarins þann 27. nóvember.
Handverksmarkaður
Á handverksmarkaðnum er hægt að finna einstakar jólagjafir unnar af handverksfólki, bændum í matvælavinnslu og listamönnum. Mikið af vörunum eru ekki aðgengilegar í verslunum svo hér gefst einstakt tækifæri til að versla bæði spennandi matvörur og jólagjafir á einum stað. Sérstök áhersla er lögð á vandaðar handunnar vörur úr náttúrulegum efnum, listhanverk úr viði, innlend matvæli og snyrtivörur og umhverfisvænar vörur.
Handverksmarkaðurinn er staðsettur í fremmri og neðri salnum í Elliðavatnsbænum auk þess sem sölukofar eru á torginu við bæinn. Eldsmiður verður að störfum úti við og fleira spennandi að gerast.
Opnunartímar Jólamarkaðarins í Heiðmörk
Jólamarkaðurinn verður í Heiðmörk allar aðventuhelgarnar, frá klukkan 12:00 til 17:00.
Aðventuhelgar 2021:
27.-28. nóvember
4.-5. desember
12.-12. desember
18.-19. desember
Jólaskógurinn á Hólmsheiði
Í Jólaskóginum á Hólmsheiði er hægt að höggva eigið jólatré. Hægt er að fá lánaðar sagir á staðnum en við hvetjum gesti til að taka með sér sínar eigin sagir.
Leiðarlýsing: Keyrt er út úr borginni austur Suðurlandsveg fram hjá Norðlingaholti og framhjá Heiðmerkur afleggjara. Stuttu seinna er komið að afleggjara á vinstri hönd sem er merktur Nesjavellir, Hafravatn og Hólmsheiði. Strax eftir að komið er inná Nesjavallaveg er malarvegur á vinstri hönd. Þegar komið er inná malarveginn er haldið áfram malarslóða á hægri hönd en eftir um 500 m er bílastæði Jólaskógarins. Kort af leiðinni má finna hér.
Verðskrá fyrir jólatré má nálgast hér.
Opið verður eftirtaldar helgar, frá 11:00 til 16:00.
4.-5. desember
11.-12. desember
18.-19. desember
Jólatrjáasala á Lækjartorgi
Skógræktarfélagið í samstarfi við Reykjavíkurborg mun nú einnig bjóða upp á jólatrjáasölu á Lækjartorgi frá 18.-23.desember. Með þessu er verið að auka aðgengi enn frekar að trjánum og verður gerð notaleg stemmning í gróðurhúsinu sem nú er staðsett á Lækjartorgi. Boðið verður upp á jólatré, tröpputré og greinabúnt.
Opið virka daga frá 16.00-20.00 og helgina 18.- 19. des frá 14.00-18.00.
Nánari upplýsingar:


