Á döfinni, Fréttir

Síðasta skógarbað vetrarins

Síðasta skógarbað vetrarins verður laugardaginn 27. apríl, klukkan 11-13. Skógræktarfélag Reykjavíkur og Nature and Forest Therapy Iceland hafa boðið upp á mánaðarlegt skógarbað í Heiðmörk í vetur, við góðar viðtökur og mikla ánægju þátttakenda.

Skógarbað (shinrin-yoku), varð til í Japan 1982 sem leið til að draga úr streitu, tíðum lífsstílssjúkdómum og versnandi lýðheilsu. Í dag eru skógarböð nýtt bæði sem forvörn gegn sjúkdómum og sem hluti af meðferð. Skógarböð njóta vaxandi vinsælda um allan heim. Rannsóknir hafa staðfest tengsl skógarbaða við streitulosun og bætta andlega og líkamlega heilsu.

Hvernig er skógarbaðið?

Skógarbað í Heiðmörk felst í tveggja klukkutíma leiddri göngu um Heiðmerkurskóg og jaðar Elliðavatns. Gengin er stutt vegalengd (að hámarki 1 km) og á leiðinni er þátttakendum boðið í upplifun sem getur auðveldað þeim að slaka á, beita skynfærunum og eflt tengsl sín við náttúru og sig sjálf. Einnig gefst tækifæri til að sitja í þögn og að deila upplifun sinni með öðrum. Við lok göngu eru góðar líkur á að þátttakendur upplifi meiri ró og yfirvegun og séu í meiri tengslum við náttúruna í kringum sig.

Skráning

Öll sem náð hafa 15 ára aldri eru velkomin. Viðburðurinn er ókeypis. Þess er farið á leit að þátttakendur svari stuttum spurningalista fyrir og eftir gönguna. Nauðsynlegt er að skrá þátttöku með því að fara inn á viðburðinn á Facebook og skrá „Mæti“ eða senda tölvupóst á [email protected] og fá staðfestingu. Vegna eðli viðburðarins er þátttaka takmörkuð við 10 manns.

Hvar og hvenær?

Gangan hefst frá bílastæði skrifstofu Skógræktar Reykjavíkur við Elliðavatn laugardaginn 25. nóvember stundvíslega kl. 11. Þátttakendur eru beðnir um að mæta eigi síðar en kl. 10:50. Ekki verður hægt að slást í hópinn eftir að gangan hefst.

Hvað á að hafa með sér?

Mikilvægt er að mæta á staðinn vel nærð og útbúin fyrir 2 tíma hæglætis útivist og kyrrsetu. Þátttakendur fá vatnsheldar sessur til afnota en mælt er með að þátttakendur dúði sig og klæðist hlýjum, og vind- og vatnsheldum fötum og grófum skóm. Gott að taka með sér teppi, vatn og jafnvel eitthvað heitt að drekka á hitabrúsa.

Leiðbeinendur

Leiðbeinendur eru Gunnþóra Ólafsdóttir og Íris Lana Birgisdóttir. Gunnþóra er doktor í landfræði og hefur stundað þverfaglegar rannsóknir á endurnýjandi áhrifum útivistar á líðan og heilsu í samvinnu við íslenska og erlenda sérfræðinga. Íris Lana er félagsráðgjafi hjá Landspítalanum og sinnir þar krabbameinssjúklingum. Hún býr einnig að langri starfsreynslu sem yoga kennari.

Fyrr á þessu ári luku Gunnþóra og Íris 6 mánaða leiðbeinendaþjálfun hjá Association of Nature and Forest Therapy Guides and Programs (ANFT) fyrstar Íslendinga.

Gunnþóra og Íris Lana standa að baki Nature and Forest Therapy Iceland sem hefur að markmiði að kynna skógarbað fyrir Íslendingum og hvetja þá til að verja hluta af sínum frítíma í slökun í skógum og náttúru sinnar heimabyggðar.

Um skógarböð :

„Skógarbað“ eða Shinrin-yoku eins og það heitir á frummálinu var hluti af opinberri aðgerð í Japan árið 1982. Aðgerðin gekk út á að bregðast við vaxandi tækniáreiti, streitu, vaxandi tíðni lífsstílssjúkdóma og hrakandi lýðheilsu.

Tilgangur var tvíþætturi: (1) að bjóða landsmönnum upp á náttúrulegt andrými fyrir borgarbúa sem bjuggu við vaxandi áreiti í tengslum við þéttingu byggðar, vinnuálag, inniveru, kyrrsetu, tækniáreiti og kulnum; og (2) að hvetja landsmenn til að viðhalda tengslum sínum við náttúruna.

Á fjórum áratugum hefur orðið til gagnreynd aðferð sem skapar heimsókninni í náttúruna ramma sem hefur að markmið að hjálpa fólki að hægja á, virkja skynfærin og tengjast náttúrunni.

Shinrin þýðir skógur; yoku þýðir bað/immersion – og vísar til þess að taka inn með öllum skynfærunum það sem skógurinn hefur fram að færa. Á einföldu máli er Shinrin-yoku: hin einfalda og heilsusamlega iðja að verja tíma í náttúrunni. Shinrin-yoku hefur verið þýdd á ensku sem “forest bathing” og bein íslensk þýðing á því er “skógarbað”.

Meðferðin vinnur að því að skapa jafnvægi í miðtaugakerfi mannslíkamans með því að draga úr virkni varnar-og drifkerfisins (og þar með seitingu streituhormóna) en kveikja á sefkerfi taugakerfisins og gefa líkamanum tækifæri á að endurheimta sig. Aðrar aðferðir til að kveikja á viðgerðarfasa mannslíkamans eru öndunaræfingar, hugleiðsla, yoga og tai-chi, núvitund svo dæmi séu nefnd.

Rannsóknir staðfesta að tveggja tíma skógarbað getur haft streitulosandi áhrif, lækkað blóðþrýsting, bætt líðan og hjartaheilsu, endurnýjað orku til athafna, bætt hæfni til einbeitingar, skerpt minni, bætt svefngæði og eflt ónæmiskerfi.

Náttúrumeðferðin hefur einnig gefist vel í enduhæfingarferli, til að meðhöndla kvíðaröskun, þunglyndi og áfallastreitu samhliða öðrum úrræðum.

Í Japan er skógarbað orðið eðlilegur þáttur í í heilbrigðiskerfinu. Í Japan er skógarbað almennt stundað í forvarnarskyni og viðurkennt sem hluti af meðferð sjúklinga. Japanskir læknar mæla með því sem hvíld frá hraða og streitu hins daglega lífs.

Skógarböð geta hentað þeim sem vilja hlúa að heilsunni og forvörnum. Þau geta gagnast fólki sem finnur fyrir áreiti, orkuleysi, streitu, kvíða, depurð og öðrum streitutengdum einkennum. Einnig hentar þetta þeim sem langar einfaldlega til að upplifa náttúruna á nýjan hátt.

Öll sem komast út í náttúruna og geta gengið þar rólega um og/eða setið/legið í 2 tíma geta stundað skógarbað.

Búast má við að fólk fái meira út úr leiddum tíma en göngu eitt sér. Einkum þau sem upplifa áreiti, álag, streitu og vanlíðan í daglegu lífi. Sumir eiga erfitt með að slaka á og tengjast stað og stund en það er inntak skógarbaðsins.

Skógarbað nýtur vaxandi vinsælda í hinum Vestræna heimi. Því hefur verið spáð að skógaböð verði næsta bylgja sem flæði yfir Vesturlönd eins og varð raunin með jógaiðkun um síðustu aldamót.