Esjufréttir

Ítrekað kvartað undan glannaskap hjólreiðafólks

Heiðmörk hefur notið fádæma vinsælda sem útivistarsvæði undanfarið, á tímum samkomutakmarkana og Covid. Gestir í Heiðmörk hafa sjaldan verið jafn margir og fólk ýmist dvalið í skóginum, farið í gönguferðir, skoðað fuglalífið, hlaupið, hjólað eða bara leikið sér með fjölskyldu og vinum.

Því miður berast Skógræktarfélaginu reglulega kvartanir frá fólki sem finnst hjólreiðafólk sýna glannaskap og tillitsleysi. Fólk er jafnvel hrætt við að meiðast í árekstri. Yfirleitt koma kvartanirnar frá fólki sem var á ferð um merkta göngustíga þegar hjólreiðafólk kom brunandi. Á göngustígunum er fólk að njóta útiveru í fögru umhverfi, spjalla í rólegheitum, láta hugann reika eða leika sér – kannski með lítil börn í för. Þá er skiljanlegt að fólki bregði illa ef hjólafólk kemur að á mikilli ferð.

Svipaðar kvartandir borist lengi og fyrir nokkrum árum hvöttu samtök hjólreiðafólks félagsmenn sína til að sýna öðru gestum virðingu og tillit. Formaður laganefndar Landssamtaka hjólreiðamanna skrifaði til að mynda um málið haustið 2017 og sagði meðal annars: “Gagnrýni á þessum nótum er ekki bara bundin við Heiðmörku og á því miður nokkurn rétt á sér. (…) Hjólreiðafólk verður að virða stöðu annarra á stígunum, við erum ábyrg fyrir því að árekstrar verði ekki við gangandi, og fólk með börn á leik verður að geta upplifað sig örugg á útvistarstígum.“

 

Göngustígar og sérmerktir hjólastígar

Í Heiðmörk eru viðamikið kerfi stíga fyrir fyrir göngufólk, hjólreiðafólk og hestamenn. Göngustígarnir eru nokkrir tugir kílómetra. Auk er búið að sérmerkja hjólafólki tæplega 8 kílómetra stíg í hjarta friðlandsins. Þessi stígur er tilvalinn fyrir hjólreiðafólk sem vill keppa, til dæmis með Strava, eða bara skemmta sér við að hjóla hratt í fögru og spennandi umhverfi. Þá hefur félagið unnið að fjölgun hjólreiðastíga í Heiðmörk og í Esjuhlíðum.

Hjólreiðafólk má áfram nota göngustíga í Heiðmörk, þótt þeir séu lagðir fyrir gangandi vegfarendur. Þar gildir þó að taka þarf tillit til gangandi vegfarenda, enda njóta þeir forgangs. Samkvæmt samgöngulögum má hjóla á göngustígum, en aðeins ef það veldur gangandi vegfarendum ekki hættu eða óþægindum. Þá segir

„Hjólreiðamaður á gangstétt, göngustíg eða göngugötu skal víkja fyrir gangandi vegfarendum. Hann skal gæta ýtrustu varkárni og ekki hjóla hraðar en svo að hann geti vikið úr vegi fyrir gangandi vegfarendum sem eiga leið um.“

 

Allir velkomnir í Heiðmörk

Skógræktarfélag Reykjavíkur fagnar fjölgun hjólreiðafólks í Heiðmörk. Friðlandið er til þess að njóta þess og gaman að fylgjast með fólki stunda fjölbreytta útivist. Eins og aðrir gestir, eru hjólreiðmenn hvattir til að ganga vel um og taka tillit til annarra gesta. Félagið hefur átt gott samstarf við félög hjólafólks um uppbyggingu hjólastíga bæði í Heiðmörk og í Esjuhlíðum, þar sem gengist var fyrir keppni síðasta haust. Þá er stefnt að því að hjólafólk geti á sumrin notað nýja 2,4 kílómetra braut sem lögð var fyrir gönguskíði í haust. Brautin liggur frá Elliðavatnsbænum framhjá Myllulækjartjörn.

Loks er rétt að nefna að nú þegar frost er að fara úr jörðu, er mikil bleyta í stígum í Heiðmörk. Þeim er því sérlega hætt við skemmdum. Gestir í Heiðmörk eru því hvattir til að huga að því hvernig best má hlífa stígunum svo þeir nýtist sem flestum þegar vorar.

Í Heiðmörk eru allir velkomnir en gestir eru hvattir til að sýna náttúrunni og náunga sínum tillitssemi og virðingu.