Fréttir, Tré mánaðarins

Hvernig hafa þau það í dag? – Borgartré og Tré ársins í Reykjavík

Ráðhúshlynurinn, Álmurinn við Túngötuna og víðirinn í Fógetagarðinum. Þetta eru nokkur þeirra merkilegu trjáa í Reykjavík sem hlotið hafa sérstakar viðurkenningar, sem Borgartré ársins eða Tré ársins.

Í sumar heilsuðum við upp á nokkur af þessum trjám og tókum myndir. Mörgum þeirra hefur vegnað vel undanfarin ár. En því miður er víða þrengt að trjágróðri í borginni — líka trjám sem eru stórglæsileg og eiga sér merkilega sögu.

Borgartré ársins var tilnefnt í Reykjavík á árunum 2010-2014, í samstarfi Reykjavíkurborgar og Skógræktarfélags Reykjavíkur. Tré ársins hefur verið útnefnt af Skógræktarfélagi Íslands frá og með árinu 1989.

Lista yfir Borgartré ársins, Tré ársins í Reykjavík, og Tré mánaðarins, sem Skógræktarfélag Reykjavíkur útnefndi 2009, má neðst á þessari síðu.

Borgartré ársins 2010

Fyrsta Borgartré ársins sem var útnefnt árið 2010, var silfurreynirinn í Víkurgarði, á horni Aðalstrætis og Kirkjustrætis. Tréð var gróðursett árið 1884 af Georg Schierbeck landlækni. Hann flutti tréð með sér til Íslands frá Danmörku. Silfurreynirinn er því 140 ára og elsta tré Reykjavíkur.
Silfurreynir (Sorbus intermedia) getur náð allt að 200 ára aldri. Tréð ætti því að geta lifað lengi enn, enda hefur verið vel hugsað um það undanfarin ár.
Börkurinn farinn að klofna á mörgum greinum, sem sést þegar horft er upp eftir trénu. Þegar sú er staðan, getur vatn átt greiða leið undir börkinn og þá er hætt við að fylgi reyniáta og aðrir skaðvaldar. Tréð lítur samt vel út, var vel laufgað og er formfagurt.

Borgartré ársins 2012

Gljávíðir í garði Hressingarskálans var Borgartré ársins 2012. Tréð er var gróðursett árið 1900, og er því litlu yngra en silfurreynirinn í Víkurgarði. Það var gróðursett í garði þáverandi landfógeta en var gjöf frá Schierbeck landlækni — þeim sama og gróðursetti silfurreyninn. Garðurinn er einn þekktasti einkagarður frá lokum nítjándu aldar og var jafnan kallaður Landfógetagarðurinn. 
Því miður leit gljávíðirinn ekki vel út þegar starfsmenn félagsins sóttu hann heim í sumar. Hann tórir en lítur mjög illa út — er morkinn inn í stofninn, börkur farinn af stórum svæðum og margar greinar dauðar. Líklega er þetta samspil aðstæðna og aldurs.

Borgartré ársins 2014

Árið 2014 var garðahlynur við Laufásveg 49-51 valinn Borgartré ársins. Hlynurinn við Sturluhallir var gróðursettur árið 1922 og er einhver krónumesti hlynur á landinu.
Lengi vel var ljósasería á trénu sem nú er búið að fjarlægja. Serían gerði hlyninn afar fallegan í skammdeginu. En eftir hana eru för á trénu sem sjást vel.
Nokkrar greinar á hlyninum eru dauðar og á berkinum eru skemmdir, bæði sprungur og sums staðar göt. Aftur á móti er hlynurinn mjög vel laufgaður og virðist því eiga nóga orku. Þá hefur hann vaxið nokkuð á síðustu tíu árum. Hann var 10,2 metrar árið 2014 en mældist um 12,8 metrar í sumar. Trénu gæti hrörnað og það jafnvel drepist en það gæti líka vel hresst við. Hlynir ná um 500 ára aldri og því ætti þessi 102 ára gamli garðahlynur að eiga nóg eftir.

Tré ársins 1994

Fimm tré í Reykjavík hafa verið útnefnd Tré ársins af Skógræktarfélagi Íslands. Þekktast þeirra er líklega garðahlynurinn við Suðurgötu sem var valinn tré ársins 1994.
Hlynurinn var gróðursettur árið 1918. Hann er við hestaheilsu enda hefur verið vel hugsað um hann á síðustu árum. Krónan hefur verið snyrt og þótt tréð standi í horni bílastæðis, hefur það eilítinn grasblett umhverfis sig.

Tré ársins 1999

Álmur við Túngötu 6 var Tré ársins 1999. Álmurinn er talinn gróðursettur árið 1902, og komið af dönskum álmi. Um aldamótin 2000 hafði var álmurinn orðinn 10,7 metrar á hæð með mikla trjákrónu. Hann hafði þá lengi notið góðs rýmis, þótt hann væri í miðborginni, og ekki þrengt að honum af byggingum eða öðrum trjám. Þetta sést vel á myndum frá þessum tíma. Mynd frá þessum tíma má sjá hér: https://www.skog.is/wp-content/uploads/2019/02/ta1999.pdf
Þetta hefur nú breyst. Álmurinn er nú umkringdur nýbyggingum. Hann breiðir ekki úr sér eins og áður og er heldur ekki jafn sýnilegur vegfarendum. Tréð virðist þó dafna ágætlega.

Borgartré árins (2010-2014)

Útnefningin var samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Skógræktarfélags Reykjavíkur.

2010 Silfurreynir (Sorbus intermedia) í Víkurgarði á horni Aðalstrætis og Kirkjustrætis.

2011 80 ára gam­alt Evr­ópulerki í Hóla­vallag­arði.

2012 Gljávíðir í garði Hressingarskálans. Gróðursettur 1900.

2013 Ilmbjörk í garði Ásmundarsafns.

2014 Garðahlynur við Laufásveg 49-51.

 

Tré ársins í Reykjavík

Skógræktarfélag Íslands hefur útnefnt Tré ársins árlega frá og með árinu 1989.

1994 Garðahlynur (Acer pseudoplatanus L.) við Suðurgötu.

1999 Álmur (Ulmus glabra) við Túngötu, framan við húsið Túngötu 6.

2016 Alaskaösp (Populus balsamifera ssp. trichocarpa) að garðastræti 11a (Hákoti) í Reykjavík.

2019 Rauðgreni (Picea abies) í Elliðaárhólma

2021 Heggur (Prunus padus) í gömlu gróðrarstöðinni við Rauðavatn í Reykjavík.

Tré mánaðarins

Útnefnt af Skógræktarfélagi Reykjavíkur mánaðarlega árið 2009. Umfjöllun hér.

Janúar Garðahlynur (Acer pseudoplatanus) í garði við Bjarnarstíg 10.

Febrúar Fjallaþinur (Abies lasiocarpa) í garði við Melgerði 1

Mars Alaskaösp (Populus trichocarpa) í garði við Langholtsveg 158

Apríl Marþöll (Tsuga heterophylla) í Grasagarði Reykjavíkur

Maí Birki (Betula pubescens) í garði við Háteigsveg 36

Júní Gullregn í garði við Sólvallagötu 4

Júlí Silfurreynir  (Sorbus intermedia) í garði við Skólavörðustíg 4ab

Ágúst Afbrigði körfuvíðis sem kallast þingvíðir (Salix viminalis L. ‘Þingvíðir’) við leikskólann  Steinahlíð í Vogahverfinu í Reykjavík

September Reyniviður (Sorbus aucuparia) í garði  við Vorsabæ 15 í Árbæjarhverfi

Október Skógarbeyki (Fagus sylvatica) í garði við Laufásveg 43

Nóvember Evrópulerki (Larix decidua) í garði við Brúnaveg 8

Desember Stafafura (Pinus contorta) sem vex við Hraunslóð skammt sunnan við Silungapoll í Heiðmörk