Fréttir

„Héldu að ég væri fluttur til Kanada“

Teitur Björgvinsson húsgagnasmiður er nýr starfsmaður Skógræktarfélags Reykjavíkur. Hann sér um viðarvinnsluna og viðarverslunina í Heiðmörk.

Teitur er alinn upp í Mosfellsbæ og sótti sem barn mikið í skóglendið umhverfis Reykjalund. Hann lærði húsgagnasmíði í Tækniskólanum og hefur reynslu af margskonar smíði. Allt frá viðhaldi húsa og spónalagningum til húsgagnasmíði og sérsmíði á innréttingum. „Svo er pabbi smiður. Orgelsmiður. Þannig að ég er svoldið alinn upp á verkstæði. Og þar, í orgelsmíðinni, var mikil fínsmíði og þurfti að vera rétt timbur og þurrkun.“

Mikið er að gera í viðarvinnslunni þessa dagana og stórviðarsögin og bandsögin ganga allan daginn. Verið er að saga sitkagreni fyrir Perlufestina, sem er stígur umhverfis Öskjuhlíði. Pöntunin er sú stærsta sem félagið hefur fengið. Þá er einnig verið að saga timbur fyrir Fangaverk — smíðaverkstæðið á Litla Hrauni. Og svo kemur oft fólk í viðarvinnsluna til að ræða hugmyndir og verkefni. Til dæmis hvort hægt sé að fá pallaefni úr íslenskum við, sem ekki þarf að bera á og hvort hægt sé að smíða borð sem þoli vel að standa úti.

Teitur segir ánægjulegt að geta rætt slíkar hugmyndir og þróað viðarvinnsluna áfram í samtali við hönnuði, skólafólk og aðra áhugasama. Þá sé áhugavert að geta fylgt efniviðnum eftir, allt frá frá því umhverfi sem tréð vex upp í, til þess hvernig viðurinn er þurrkaður og unnið úr honum. Sjálfbærni hefur lengi verið honum hugleikin og eins kolefnisspor okkar og hvernig megi minnka það. Til dæmis með því að nýta betur það sem til er á Íslandi.

Aðspurður um uppáhaldstré, segir Teitur erfitt að gera upp á milli. „En ég er mjög hrifinn af alaskaöspinni. Þótt fólki finnist hún oft verða of stór í görðum. Það er gaman að vinna með hana sem smíðavið og mjög fallegir litir í henni.“

Teitur og Sævar brýna sagarblað stórviðarsagarinnar í viðarvinnslunni.

Marcin sagar timbur á bandsöginni.

Nemar í vöruhönnun hjá LHÍ kynnast efnivið skógarins í viðarvinnslunni.

Kollur með setu úr ösp. Nemandi í Tækniskólanum gerði kollinn úr timbri úr Heiðmörk.

Það timbur sem unnið er úr í viðarvinnslunni í Heiðmörk hefur fallið til við grisjun. Afurðirnar verða því til án þess að skógurinn minnki. Og reyndar er grisjun nauðsynleg þegar skógur hefur náð ákveðnum aldri, til að hann haldi áfram að vaxa og dafna sem best. Í Heiðmörk eru um 270 hektarar af eldri barrskógum, sem eru að meðaltali 50 ára gamlir. Um helmingi yngri barrskóar eru á um 140 hekturum. Og nær 1500 hektarar til viðbótar af blandskógum og birkiskógum. Í fyrra voru rúmlega fjórir hektarar grisjaðir, sem skiluðu á annað hundrað rúmmetrum af timbri. Grisjunarþörf og viðarmagn í skóglendi Heiðmerkur mun aukast hratt á næstu árum og áratugum.

Viðarvinnslunni berst líka öðru hverju timbur úr þéttbýli höfuðborgarsvæðisins. Til dæmis reyniviður og alaskaösp sem hefur þurft að fella vegna framkvæmda. Viðurinn er oft góður og ánægjulegt að geta nýtt þau verðmæti.

Eiginkona Teits er frá Kanada. Þegar hann birti myndir á samfélagsmiðlum af nýja vinnustaðnum sínum — viðarvinnslunni — héldu margir vinir og kunningar að hann væri fluttur til Kanada. „Fólk fattar ekki að það sé svona mikið af trjám og timbri hér á Íslandi, sem hægt er að vinna úr“ segir Teitur.

Timbur í þurrkun.

forsíðumynd
Nokkrar viðartegundir í viðarverslun félagsins. Mynd: Hjördís Jónsdóttir.

ösp
Fallegt mynstur í borðviðnum sem sagaður hefur verið úr ösp í Smiðjunni í Heiðmörk. Mynd: Margrét Valdimarsdóttir.

Borðviður í viðarvinnslunni.