Skógarfróðleikur

Grisjun — nauðsynlegur hluti af umhirðu skóga

Þegar Skógræktarfélag Reykjavíkur hóf fyrst skógræktartilraunir á höfuðborgarsvæðinu fyrir rúmri öld síðan, voru margir efins um að tré gætu vaxið þar, svo að nokkur prýði yrði að. Því var fagnað í blaðagreinum þegar ljóst varð að nokkrar lágvaxnar fjallafurur við Rauðavatn myndu líklega halda áfram að lifa. Og þar sem umhverfi Reykjavíkur var mikið til melur og grjót, þóttu birkileifarnar við Elliðavatn, þar sem Heiðmörk er nú, einar merkustu skógarleifar við Reykjavík. Þótt að kjarrið væri allt í senn illa farið, kræklótt og lágvaxið.

Með þessa forsögu er kannski ekki að undra þótt fólki bregði stundum í brún þegar það sér starfsmenn félagsins vera í óða önn að höggva tré — grisja. Grisjun er þó bráðnauðsynlegur hluti af umhirðu skóga. Hún styður við vöxt skóga, bætir heilbrigði þeirra, eykur verðmæti og geri fólki kleift að njóta útivistar í skóglendinu.

 

Grisjað í Heiðmörk snemma árs 2021. Mikilvægt er að skilja allt lauf og nálar eftir í skóginum til að styðja við jarðvegsmyndun enda mikil næring í þeim. Minni greinar eru líka skildar eftir eða kurlaðar niður á staðnum. Bolirnir fara hins vegar í viðarvinnslu félagsins. Mynd: Hjördís Jónsdóttir.

Tré sem eftir standa fá betra vaxtarrými eftir að grisjað er. Auk þess verður skógurinn bjartari og aðgengilegri. Mynd: Hjördís Jónsdóttir.

Kostir þess að grisja

Þegar skógar vaxa upp geta þeir orðið þéttir og óaðgengilegir. Möguleikar trjánna til að dafna og viðhalda heilbrigði geta versnað vegna of mikils þéttleika. Á Íslandi er talið hæfilegt að grisja skóga í fyrsta sinn þegar skógarreiturinn hefur náð um 25 ára aldri.

Vel hirtur skógur hentar vel til útivistar auk þess sem grisjunin stuðlar að fjölbreyttari flóru. Um leið eru skógarnytjar sjálfsagður hluti af umhirðu ræktaðs skóglendis. Til að skapa verðmæti úr trjáviðnum eru heilbrigð tré látin standa, einkum þau sem eru beinvaxin og greinalítil. Hæfileg grisjun skapar aukið rými og birtu í skóginum og þar með betri skilyrði til jafnari vaxtar fyrir þau tré eftir standa. Um leið fjölgar plöntutegundum á skógarbotninum vegna þess að meira ljós kemst inn í skóginn. Oft er niturbindandi mosi fyrstur á ferð og svo annar botngróður. Skógar sem eru nýttir og grisjaðir, eru gjarna fjölbreyttari, einkum þegar kemur að lífi á skógarbotninum.

Kolefnisbinding skóga getur aukist talvert með grisjun og öðrum skógræktaraðgerðum, að því er rannsóknir hafa sýnt. Grisjun getur líka dregið úr hættu á sjúkdómum og minnkað hættu á að tré brotni undan vindi eða snjóþunga. Í vel grisjuðum skógum er auk þess minna um dauðar og þurrar greinar neðst á trjánum en þær geta aukið hættuna á alvarlegum skógareldum.

Loks gagnast grisjunin okkur tvífætlingunum sem kunnum vel við okkur í skógarumhverfi. Í íslenskri náttúru er ekki að finna dýr á borð við elg sem ryður leiðir inn í þétta skóga. Íslenskir skógar verði því oft ansi þéttir og erfiðir yfirferðar, séu þeir ekki grisjaðir, hvort sem um er að ræða birkikjarr eða nokkurra áratuga gamlan greniskóg. Með grisjun geta sömu skógar orðið bjartir og aðgengilegir. Með markvissri umhirðu, meðal annars grisjun, verða skógarnir heilbrigðari, fallegri og betur fallnir til útivistar.

 

„Rjóðrið“ er í sitkagreniskógi við Elliðavatnsbæinn. Fyrir nokkrum árum var grisjað vel inni í skóginum þannig að til varð þetta notalegt svæði. Hér er Sigrún Eldjárn að lesa úr nýútkominni bók sinni, „Ófreskjan í mýrinni“, á Jólamarkaðnum 2022.

Bjartur og fallegur skógur, með grónum skógarbotni, er kjörinn til útivistar. Mynd: Auður Kjartansdóttir.

Grisjað í Heiðmörk

Í Heiðmörk hófst skógræktarstarf árið 1949. Víða hefur vaxið upp myndarlegur skógur, 50 til 60 ára gamall, sem þarft verk er að grisja. Oftast er grisjað að vetrarlagi, þegar trén eru í dvala og þola betur hnjask. Þá eru heldur engir fuglar að verpa í trjánum, eins og er frá vori og fram eftir sumri. „Og það viljum við ekki skemma“, segir Sævar Hreiðarsson, skógarvörður í Heiðmörk. Á veturna er líka minni eldhætta. Hún getur verið meiri á vorin, þegar oft er þurrt í skóginum og botngróður ekki farinn að taka við sér.

Grisjunin er unnin með keðjusögum, kjarrsögum, dráttarspili og útkeyrsluvélum. Félagið notar farartæki sem er tiltölulega létt og á átta hjólum. Á því er hægt að fara um skóginn án þess að skemma jarðveg.

Gæta þarf fyllsta öryggis þegar unnið er með keðjusagir. Nauðsynlegt er að nota öryggisbúnað — hjálm með heyrarhlífar og andlitshlíf, öryggisskó og sérhannaðar öryggisbuxur sem innihalda trefjar sem stoppa keðjuna við slys. Sá sem vinnur við grisjun þarf að hafa fengið viðeigandi kennslu í notkun keðjusaga og helst hafa grunnþekkingu í skógfræði. Landbúnaðarháskóli Íslands hefur til dæmis boðið upp á námskeið í trjáfellingum og grisjun með keðjusög.

Timbrið sem fellur til við eðlilega grisjun skógarins er reynt að nýta með sem bestum hætti. Um leið vinnur félagið að því að þróa og auka þekkingu nýtingu skógarafurða, meðal annars með samstarfi við hönnunarnema í Listaháskóla Íslands og trésmíðanemendur í Tækniskólanum. Í Heiðmörk er grisjunarviðurinn meðal annars unninn í borðvið, eldivið og kurl. Þetta er gert í viðarvinnslu félagsins í Smiðjunni, spölkorn frá Elliðavatnsbænum.

En það er ekki allt tekið út úr skóginum. „Það er mjög mikilvæg að skilja eftir allar greinar með lifandi lauf og nálar. Það er mikil næring í því. Sums staðar í Evrópu er hreinlega bannað að taka út lauf og nálar.“ Segir Sævar. Ekki megi þó skilja eftir allt of mikið af stórum greinum í skóginum. Slíkt gæti aukið eldhættu. Því séu greinar og minni bolir stundum kurluð niður í skóginum og skilin eftir. „Það er æskilegt að skilja sem mest eftir, sérstaklega af laufum og barrnálum. Það er svo mikið köfnunarefni í því og öðrum efnum sem er ekki gott að missa úr vistkerfinu.“ Segir Sævar. Niðurbrot þessa lífræna efnis sé gott fyrir trén, jarðveginn og hringrásina í lífkerfinu. „Svo reynum við að gera aðeins fínt meðfram áningarstöðum og göngustígum, svo þetta þvælist ekki fyrir fótunum á gestum Heiðmerkur.“

 

Trjábolir fluttir úr skóginum í Heiðmörk.

Viðarafurðir
Borðviður í viðarvinnslu Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Grisjunarviður er misverðmætur eftir því hve gamall skógurinn er. Stærstu trjábolirnir eru sagaðir niður í borðvið. Lítil tré og toppar eru notuð í eldivið og kurl. Mynd: Hjördís Jónsdóttir.

Verkfæri á borð við keðjusagir og kjarrsagir geta verið hættuleg ef ekki farið að öllu með gát. Nauðsynlegt er að afla sér grunnþekkingar á notkun keðjusaga og hafa viðeigandi búnað.

 

Á árinu 2023 stendur Skógræktarfélag Reykjavíkur fyrir umfjöllun um skógrækt, skógarnytjar og skógarmenningu undir yfirskriftinni „Skógarfróðleikur“. Ný umfjöllun birtist mánaðarlega á heidmork.is og Facebook-síðu félagsins.

1 thoughts on “Grisjun — nauðsynlegur hluti af umhirðu skóga

Comments are closed.