Fréttir

Fyrsti almenni gróðursetningardagurinn í Loftslagsskógum Reykjavíkur

Ríflega 1.000 trjáplöntur voru gróðursettar í Loftslagsskógum Reykjavíkur á fyrsta almenna gróðursetningardeginum, laugardaginn 14. ágúst. Loftslagsskógunum er ætlað að kolefnisjafna starfsemi Reykjavíkurborgar um leið og til verður fallegur útivistarskógur sem eykur skjól í borginni.

 

Með gróðursetningardögum eins og á laugardaginn er leitast við að auka þátttöku almennings í skógrækt – vekja áhuga og auka þekkingu. Gríðarleg tækifæri felast í að auka skógrækt til að hamla gegn loftslagsbreytingum og búa um leið til falleg, gróskumikið og verðmætt umhverfi. Skógræktarfélag Reykjavíkur, sem ræktar upp skóginn fyrir hönd Reykjavíkurborgar, stefnir að því að halda fleiri gróðursetningardaga í Loftslagsskógunum – bæði fyrir almenning og afmarkaða hópa.

 

Um 50 manns tóku þátt í gróðursetningardeginum. Bæði var það fólk sem er vant því að fara með bakkaplöntur og geispur, og fólk sem var að vinna sín fyrstu handtök í skógrækt. Skemmtilegt úrval af plöntutegundum var gróðursett: Ilmreynir, ryðelri, lensuvíðir, sitkagreni, bolvíðir, sitkaelri og ein tegund rifsberjarunna. Val á tegundum miðar að því að upp vaxi fjölbreyttur blandskógur sem henti vel til útivistar.

 

Starfsmenn félagsins kenndu grundvallaratriði í gróðursetningu trjáa, deildu út plöntum og leiðbeindu fólki svo við gróðursetningar. Boðið var upp á kakó og ketilkaffi yfir íslensku birkibáli.

 

Skógræktaráætlun Loftslagsskóganna í suðurhlíðum Úlfarsfells er til 10 ára og stefnt að því að skógurinn þeki um 150 hektara svæði. Samningur Skógræktarfélags Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar var undirritaður síðasta sumar, á 70 ára afmæli Heiðmerkur, og hófst ræktunarstarf strax það sumar. Nánar má fræðast um Loftslagsskógana hér.