Skógræktarfélag Reykjavíkur efnir til gróðursetningardags laugardaginn 14. ágúst, þar sem fólki gefst kostur á að leggja sitt af mörkum í að rækta útivistarskóg framtíðarinnar í hlíðum Úlfarsfells.
Skógfræðingar kenna grundvallaratriði í gróðursetningum og bjóða upp á áhugaverðan fróðleik. Kennsla verður á eftirfarandi tímum og hvetjum við fólk að mæta á þeim tímum svo allt gangi vel fyrir sig og allir fái kennslu:
- 10:00 – Kennsla í rjóðrinu og gengið saman á gróðursetningarsvæði
- 11:00 – Kennsla í rjóðrinu og gengið saman á gróðursetningarsvæði
- 13:00 – Kennsla í rjóðrinu og gengið saman á gróðursetningarsvæði
- 14:30 – Kennsla í rjóðrinu og gengið saman á gróðursetningarsvæði
Þátttakendur eru hvattir til að huga að sóttvörnum – halda hæfilegri fjarlægð og gæta að hreinlæti. Viðburðurinn er utandyra og ætti að vera auðvelt að komast hjá mannþröng. Sprittbrúsar verða á staðnum.
Loftslagsskógar eru samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Skógræktarfélags Reykjavíkur. Með þeim er ætlunin að kolefnisjafna starfsemi borgarinnar. Um leið verða til nýir útivistarskógar í borgarlandinu sem veita kærkomin tækifæri til útiveru og draga úr roki. Nánari upplýsingar um Loftslagsskógana má finna hér.
Til að standa straum af kostnaði er þátttökugjald 4.000 fyrir fjölskyldu en frítt fyrir félagsmenn Skógræktarfélags Reykjavíkur og fjölskyldur þeirra.
Félagsmenn í Skógræktarfélagi Reykjavíkur og annað áhugafólk um skógrækt er hvatt til að mæta og leggja sitt af mörkum. Og láta áhugasama vita af viðburðinum. Tökum höndum saman um að rækta upp fallegan og skjólgóðan loftslagsskóg í hlíðum Úlfarsfells!