Fréttir

Fjölmargir njóta skíðagöngu í Heiðmörk

Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur ekki farið varhluta af vaxandi áhuga almennings á skíðagöngu. Mikill fjöldi fólks flykist í Heiðmörk til að njóta útiveru á gönguskíðum í skóginum en aðstæður hafa verið góðar nú seinni hluta vetrar enda snjóalög með eindæmum mikil. Sífellt fleiri sækjast eftir þeirri hollu og endurnærandi hreyfingu sem felst í skíðagöngu. Ástæður vinsældanna má m.a. rekja til þess að skíðaganga er talin ein besta alhliða hreyfing sem völ er á. Hreyfingarnar eru mjúkar og eðlilegar og meiðsli eru sjaldgæf. Nokkur kúnst getur verið að ná jafnvægi fyrst um sinn en það kemur venjulega fljótt enda stjórnar hver og einn sínum hraða. Ótvíræður kostur þess að ganga á milli trjánna er það skjól sem skógurinn veitir.

Það er Skógræktarfélagið og Skíðagöngufélagið Ullur sem standa að lagningu gönguskíðasporsins. Þeir sem vilja styrkja gönguskíðasporið í Heiðmörk geta lagt inn á reikning Skógræktarfélags Reykjavíkur (Banki. 0301-26-4040 kt. 6002694539 skýring styrkur) eða gengið í félagið sjá hér. Við viljum standa okkur enn betur, GPS-tæki fyrir sleðann er komið til landsins og varahlutir í tvöfalda sporann eru á leiðinni. Næsta sumar verður haldið áfram að bæta leiðir og er næsta skref í þeim efnum að ljúka við leið vestan megin við vatnsverndagriðinguna á svæðinu þannig að hringleið myndist frá Elliðavatnsbænum.

Gönguskíðaleið

Fáni Skógræktarfélags Reykjavíkur blaktir við upphaf skíðagönguleiðar við Elliðavatnsbæinn.

Gönguskíði

Mæðgur gera sig klárar til að ganga á skíðum frá Elliðavatnsbænum.