Skógarfróðleikur

Fjölbreytt lífríki skógarins

Fjölbreytt náttúra er ekki bara falleg og undraverð heldur líka bráðnauðsynleg. Því miður tengist aukin umræða um líffræðilegs fjölbreyta því að hann fer minnkandi. Vistkerfum hnignar og þau hverfa vegna mengunar, breyttrar landnotkunar, ágengra búskaparhátta og loftslagsbreytinga. Um leið fækkar tegundum á ógnarhraða. Mikilvægi þess að vernda vistkerfi og líffræðilegan fjölbreytileika verður sífellt ljósara. Og eins mikilvægi þess að endurheimta vistkerfi þar sem það er hægt. Hið síðastnefnda á sérlega vel við á Íslandi, þar sem vistkerfi eru víða fátækleg og stór hluti af gróðurþekju landsins er mjög illa farinn.

  

Líffræðileg fjölbreytni felst í fjölbreytni plantna, dýra, örvera og vistkerfa. Hugtækið víst líka til fjölbreytni innan tegunda, milli tegunda og í vistkerfum.

 

Margfaldur munur á fjölda smádýra og fugla

Íslenskar rannsóknir hafa sýnt hve mikill munur er á lífríki í ógrónu landi og landi sem hefur verið grætt upp. Í meistaraverkefni sínu, sem birt var 2013, rannsakaði Brynja Davísdóttir fjölda og fjölbreytileika fugla og smádýra í mismunandi umhverfi. Brynja bar saman fjölda og fjölbreytileika í ógrónu landi, lúpínubreiðum og mólendi sem hafði verið grætt upp með beitarfriðum og/eða grasfræi og áburði. 

  

Mest var af bæði smádýrum og fuglum í lúpínubreiðum. Þar var meðalveiði smádýra 58. Í mólendi var meðalveiðin 22 og tvö á ógrónu landi. Tala fugla var svipuð — 31 á ferkílómetra ógróins lands, 337 á mólendi og 627 í lúpínu. Tegundasamsetning var breytileg eftir gróðurlendi. Í mólendi voru fuglategundir af stofnum sem fer hnignandi á heimsvísu en í lúpínunni voru algengari tegundir. 

 

Áhrif skógræktar á fimm lífveruhópa voru rannsökuð í verkefninu SKÓGVIST, á árunum 2001-2006. Mælingar voru gerðar á heildarfjölda tegunda í mólendi og birki-, lerki, stafafuru- og sitkagreniskógum. Tegundafjöldinn sveiflaðist nokkuð eftir aldri skóganna. Þó virðist heildarfjöldi tegunda lítið breytast þegar til lengri tíma er litið. Rannsóknin fjallaði hins vegar ekki um þéttni — hve margir einstaklingar voru af hverri tegund.

 

Þá er vert að nefna rannsókn sem gerð var á fjölda ánamaðka í lúpínubreiðum á Háamel í Heiðmörk. Eins og nafnið gefur til kynna, er svæðið melur. Í melnum umhverfis lúpínubreiðuna fundust ekki ánamaðkar. Inni í henni var hinsvegar mikið líf. Í 12-20 ára lúpínubreiðum voru 3-500 ánamaðkar á fermetra og 4-700 egghylki. Þetta er álíka fjöldi og er í frjósömum túnum á Suðurlandi.   

  

Ánamaðkar „auka frjósemi jarðvegs og framleiðslugetu lands eftir að þeir hafa borist á næringarsnauð svæði“, eins og Hólmfríður Sigurðardóttir bendir á, í grein sem hún skrifaði um rannsóknirnar í Náttúrufræðinginn árið 2004. Fjöldi þeirra er því til marks um hve mikið lúpína getur aukið frjósemi á snauðum mel. Ánamaðkarnir eru líka mikilvægur hluti af fæðu margra fugla. Fjöldi þeirra kann því að skýra það að hluta hvað það er mikið um fugl í lúpínubreiðunum. 

 

Lúpínu var fyrst plantað í Heiðmörk árið 1959. Hún bindur nitur og gerir jarðveg frjósamari. Þar sem land hefur gróið upp í Heiðmörk, hefur lúpínan hörfað á síðustu áratugum. Skógræktarmenn segja að lúpína hafi í alla staði reynst vel sem undanfari skógræktar í Heiðmörk.
Keldudalur í Fellsmörk. Svæði þar sem landgræðsla og skógrækt er stunduð, með hjálp lúpínu, hefur verið girt af til að halda frá ágangsfé. Girðinginn og munurinn á gróðurfari sést greinilega á línunni í efra horninu hægra meginn á myndinni. Myndina tók Einar Ragnar.

Frumskógar og plantekruskógar  

Skógar eru afar mismunandi. Á Íslandi eru þeir flestir ungir, enn sem komið er. Þá eru skógarnir líka oft nokkuð einsleitir, meðal annars vegna ungs aldurs. Þegar verið er að hefja skógrækt, oft á rýru landi, getur verið nauðsynlegt að notast við svokallaðar frumherjategundir. Svo sem stafafuru og lerki. Þegar skógurinn er orðinn eldri batna aðstæður fyrir trjáplöntur með auknu skjóli og betri jarðvegi. Þá er hægt að setja inn kröfuharðari tegundir og auka fjölbreyttni skógarins, líkt og Skógræktarfélag Reykjavíkur er smám saman að gera í skóglendinu í Heiðmörk. 

 

Þeir skógar sem búa yfir mestu líffræðilegum fjölbreytileika eru frumskógar. Slíka skóga má finna um allan heim — bæði í hitabeltinu og á norðuslóðum. Frumskógar eru skógar sem hafa staðið í aldir eða árþúsundir, og ein kynslóð plantna leyst þá næstu af. Í þeim er gríðarlegur líffræðilegur fjölbreytileiki. Mun minni líffræðilegur fjölbreytileiki er í svokölluðum plantekruskógum, þar sem nær eingöngu eru tré af einni tegund eða jafnvel einu og sama yrkinu. Í slíkar trjáplantekrur er gjarna gróðursett eftir rjóðurfellingu en það er þegar öll eða næstum öll tré á ákveðnu svæði hafa verið felld. Nýju trén eru því bæði af sömu tegund og jafngömul auk þess sem vistkerfið sem fyrir var er verulega laskað. Þótt aðrar plöntutegundir þrífist auðvitað í slíkum skógum, sem og ýmsar örverur, skordýr, fuglar og dýr, þá er þar miklu minni fjölbreyttni en í blandskógum eða eldri skógum sem nýttir eru á sjálfbæran hátt. Skógræktarfélag Reykjavíkur grisjar skóga sína á sjálfbæran hátt þannig að þeir haldi áfram að vaxa. 

Ung eikarplanta. Ýmsar kröfuharðar trjátegundir geta núorðið þrifist í Heiðmörk, eftir að skjól er orðið meira og jarðvegur næringarríkari. Unnið er að því að auka fjölbreyttni skógarins. Þessi planta var gróðursett í landnemaspildu Héðins, ásamt fjórum öðrum, sumarið 2022.
Fjallafururnar fremst á myndinni eru meðal fyrstu tegundanna sem notaðar voru með skipulögðum hætti í skógrækt hér á landi — í Rauðavatnsstöðinni á fyrstu árum 20. aldar. Þær urðu aldrei mjög háar, ólíkt sitkagreninu að baki þeirra, sem kom til seinna, og myndar nú skjólbelti meðfram Suðurlandsvegi. Mynd: Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir.
Kúalubbi og fjölbreytt mólendisflóra í Heiðmörk. Mynd: Auður Kjartansdóttir.
Félagar í Trjáræktarklúbbnum með nokkrar eikarplöntur í gróðurhúsi félagsins.

Fjölbreytileiki og loftslagsbreytingar 

Líffræðilegur fjölbreytileikir og sterk vistkerfi skipta miklu fyrir viðnámsþrótt náttúrunnar gagnvart ýmiskonar áföllum. Á tímum loftslagsbreytinga getur erfðafræðilegur fjölbreytileiki skipt sköpum. Tegundir sem búa yfir erfðafræðilegum fjölbreytileika og vistkerfi sem hafa margar ólíkar tegundir, eru líklegri til að geta staðið af sér slíkar breytingar og allt sem þeim fylgir. Hvort sem það er breytt hitastig, aukin úrkoma, þurrkar, nýjir sjúkdómar eða skaðvaldar, svo eitthvað sé nefnt.  

 

Á Íslandi hafði skógum því sem næst verið útrýmt við upphaf tuttugustu aldarinnar, með ofbeit og rányrkju. Því var ekki um auðugan garð að gresja þegar kom að innlendum trjátegum. Mikið og gott starf hefur verið unnið við að finna og rækta upp yrki trjáplantna sem henta aðstæðum hér á landi. Á komandi árum kann að verða enn mikilvægara að hafa aðgang að trjátegundum með mikinn erfðafræðilegan fjölbreytileika og vita hvernig mismunandi tegundir og yrki þrífast við íslenskar aðstæður. Trjáræktarklúbburinn vinnur þar gott starf við prufuræktun ýmissa tegunda. Félagsskapurinn er vettvangur áhugafólks um aukna fjölbreytni trjágróðurs í ræktun hér á land og vinnur að uppbyggingu trjásafns — arboretumí Esjuhlíðum.  

  

Fjölbreytt lífríki Heiðmerkur 

Aukið skóglendi hefur bætt aðstæður og leitt til aukins fjölbreytileika og þéttni annarra lífvera víða á landinu. Í Heiðmörk má finna margar sjaldgæfar tegundir og tegundir sem eru á válista, svo sem branduglu, gargönd og himbrima. Þá sækja þangað innlendir gestir á borð við haförn og skeiðönd; og erlendir flækingar svo sem gráhegri og trjásvala. Algengari eru til dæmis himbrimi, álft, rjúpa, heiðlóa, óðinshani, hrossagaukur, smyrill og fleiri tegundir. Og auðvitað skógarþrösturinn.  

 

Mikilsverðan fróðleik um fugla og dýr við vatnsbólin í Heiðmörk má finna í skýrslum sem Hafsteinn Björgvinsson hefur tekið saman reglulega og eru orðnar 27 talsins. https://www.veitur.is/frettir/skyrsla-um-fugla-og-onnur-dyr-verndarsvaedum-vatnsbola-reykjavikur 

 

Spendýrafánan í Heiðmörk er fjölbreytt, að minnsta kosti á íslenskan mælikvarða. Í Heiðmörk eru mýs, kanínur, villikettir, refir og minkar. Hundar og hestar leggja svo leið sína í Heiðmörk, í fylgd með mönnum. Í Elliðavatni fyrirfinnast allar fimm tegundir ferskvatnsfiska sem vitað er um á Íslandi – lax, bleikja, urriði, hornsíli og áll. Aukinn gróður styrkir búsvæði fiska og annarra vatnalífvera, líkt og fjallað var um í Skógarfróðleik maímánaðar.  

  

Í rannsókn Náttúrufræðistofnunar árið 2005 fundust 57 tegundir af mosa í Heiðmörk. Og tvær sjaldgæfarplöntutegundir: Eggjatvíblaðka og bakkaarfi. Og svo eru það auðvitað trén og runnarnir. Ríflega 100 tegundir trjáa og runna hafa verið gróðursettar í Heiðmörk. Í landi sem um miðja öldinna var víða rofið og mikill uppblástur vegna ofbeitar og rányrkju áratuganna á undan. 

Himbrimi á Elliðavatni.
Vetrartittlingur sást í Heiðmörk 28. nóvember 2020. Fuglinn hefur aðeins einu sinni áður sést á Íslandi svo vitað sé - í Kvískerjum árið 1955. Heimkynni vetrartittlings eru í Kanada afar sjaldgæft að til hans sjáist í Evrópu. Fuglinn hefur líklega komið til Íslands með djúpri lægð sem gekk yfir landið tveimur dögum fyrr. Mynd: Hafsteinn Björgvinsson.