Náttúra Heiðmerkur er bæði fögur og fjölbreytileg. Þar eru um hundrað tegundir trjáa og runna, tugir mosategunda, mikið fuglalíf, sjaldgæfur lággróður og afar sérstakar jarðmyndanir.

Gróðurfar

Gróðurfar í Heiðmörk er nokkuð fjölbreytt. Um eitt hundrað tegundir trjáa og runna hafa verið gróðursettar í Heiðmörk. Sum hafa náð að framleiða fræ auk þess sem í Heiðmörk hefur lengi verið villt birkikjarr, þótt það hafi verið nokkuð illa farið áður en svæðið var friðað 1949. Náttúrulegt birki er nú á rétt ríflega 1.000 hekturum í Heiðmörk. Barrskógar eru á um 400 hekturum í Heiðmörk og er bróðurpartur skógarins hærri en fimm metrar. Blandskógar eru á meira en 400 hekturum til viðbótar og yngri skógar á 100 hekturum. Annað landsvæði er til að mynda vötn, gróðursnauðir melar, örfoka land, hraun, graslendi og lúpínubreiður.

Lúpínu var fyrst plantað í Heiðmörk árið 1959. Næstu ár og áratugi breiddust lúpínubreiður út á gróðursnauðum melum í Heiðmörk og á lágheiðunum norður af Heiðmörk. Þar sem land hefur gróið upp, hefur lúpínan hörfað á síðustu áratugum, líkt og fræðast má um í grein Daða Björnssonar í Skógræktarritinu 2011. Skógræktarmenn segja að lúpína hafi í alla staði reynst vel sem undanfari skógræktar í Heiðmörk.

Reklar á sitkagreni í Heiðmörk í júní 2020. Mynd: Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir.

57 tegundir mosa fundust á þremur stöðum í Heiðmörk í rannsókn Náttúrufræðistofnunar árið 2005. Þá fundust einnig tvær sjaldgæfar plöntutegundir: Eggjatvíblaðka, sem er friðlýst og á válista, og bakkaarfi, sem þá fannst í fyrsta sinn á Íslandi.

Fuglalíf

Fjölskrúðugt fuglalíf er í Heiðmörk. Þar má finna margar sjaldgæfar tegundir og tegundir sem eru á válista, svo sem branduglu, gargönd og himbrima. Einnig hefur sést til fjölbreytts hóps gesta – allt frá innlendum tegundum á borð við haförn og skeiðönd til erlendra flækinga, til að mynda gráhegra og trjásvölu. Hafsteinn Björgvinsson hefur fylgst með fugla- og dýralífi á verndarsvæðum vatnsbóla Reykjavíkur, fyrir Veitur, um langa hríð, og birt um það árlegar skýrslur.

Gráhegrar hafa oft vetursetu á vatnasvæðum Heiðmerkur. Þeir eru flækingar hér á landi. Gráhegrar sækjast eftir síli og fiski í tjörnum og vötnum Heiðmerkur. Gráhegrar koma hingað líklegast frá Evrópu. (Úr skýrslu Veitna.) Mynd: Hafsteinn Björgvinsson.

Góðar líkur eru til að hægt sé að koma auga á jaðrakan, óðinshana og himbrima í Heiðmörk. Á veturnar er talsvert um rjúpu. Nýbúar eins og glókollur verpa í Heiðmörk. Undanfarin ár hefur nokkrum sinnum verið staðið fyrir fuglaskoðun í Heiðmörk, í samstarfi Skógræktarfélags Reykjavíkur og Fuglaverndar.

Rannsókn á fuglalífi í Heiðmörk árið 2009 leiddi í ljós að þéttleiki fugla var mestur í barrskógi og lúpínu. Algengustu varpfuglarnir voru hrossagaukur, þúfutittlingur, skógarþröstur og auðnutittlingur. Alls verptu þá 2.600 pör þessara tegunda. Næstum helmingur voru skógarþrestir. Auk þess voru þá nokkrir skógarfuglar að byrja að koma sér fyrir í Heiðmörk, svo sem skógarsnípa, glókollur, svartþröstur og krossnefur. Fuglalífið er ríkulegast í og við votlendi. Í fjölbreyttum, vöxtulegum skógi er einnig töluvert fuglalíf en minna í mosaþembum og lyngmóum.

Glókollar sáust í fyrsta skiptið við Kirkjuhólmatjörn í október 2002. Glókollurinn er nýbúi á Íslandi og er tekinn við hlutverki músarrindilsins sem minnsti fugl landsins. Helsta fæða hans er grenilús. Glókollar eru óreglulegir varpfuglar í Heiðmörk og koma frá Evrópu. (Úr skýrslu Veitna.) Mynd: Hafsteinn Björgvinsson.

Spendýr og fiskar

Í Heiðmörk er nokkuð fjölbreytt fána spendýra, að minnsta kosti á íslenskan mælikvarða. Þar eru mýs, kanínur, villikettir, refir og minkar. Hundar og hestar leggja svo leið sína í Heiðmörk, í fylgd með mönnum. Í Elliðavatni fyrirfinnast allar fimm tegundir ferskvatnsfiska sem vitað er um á Íslandi – lax, bleikja, urriði, hornsíli og áll.

Jarðfræði

Jarðfræðilega er einkum tvennt sem einkennir Heiðmörk: Annars vegar misgengi og sprungur í berggrunninum og hins vegar hraun. Í Heiðmörk er fallegar og áhugaverðar jarðmyndanir á borð við Maríuhella og hrauntröðina Búrfellsgjá. Þekktustu jarðmyndanir á svæðinu eru þó án efa Rauðhólar – gervigígar sem urðu til í gufusprengingum fyrir um 4.700 árum, þegar Leitahraun rann yfir votlendi Elliðavatnssvæðisins.

Rauðhólar voru notaðir sem gjallnáma og mikið efni tekið þaðan, einkum þegar verið var að byggja Reykjavíkurflugvöll á stríðsárunum. Eftir það var gjall úr Rauðhólum notað í húsgrunna og sem ofaníburður í götur. Sigurður Þórarinsson mun hafa lýst viðburðum þannig, árið 1950, að Rauðhólum hafi „verið dreift yfir Hringbrautina og aðrar götur í úthverfum höfuðborgarinnar, þar sem gjall þeirra mylst í dust af hjólbörðum bílanna og lendir að síðustu í lungum Reykvíkinga“. (Páll Líndal, Árbók Ferðafélags Íslands 1985, bls. 21-22.) Á þessu gekk þar til svæðið var friðlýst sem náttúruvætti árið 1961. Árið 1974 voru Rauðhólar friðlýstir sem fólkvangur.

Um jarðfræði Heiðmerkur má til að mynda fræðast í grein Jóns Jónssonar í Skógræktarritinu, sem nálgast má hér.

Vatnsverndarsvæði

Mikilvæg vatnsverndarsvæði eru í Heiðmörk, öll í umsjá og undir eftirliti Orkuveitu Reykjavíkur. Þaðan hafa Reykvíkingar fengið vatn frá árinu 1909. Vatnstökusvæði eru Gvendarbrunnar, Myllulækjarsvæði og Vatnsendakriki. Strangar umgengnisreglur gilda á vatnsverndarsvæðunum í Heiðmörk, enda kemur þaðan ferskvatn fyrir um helming landsmanna.