Fréttir

Ferli skapandi hugsunar

Námskeiðinu FERLI SKAPANDI HUGSUNAR lauk með yfirferð í LHÍ þann 10. maí. Fyrsta árs nemar í vöruhönnun við skólann sögðu frá verkum sínum sem unnin voru í tengslum við fimm daga dvöl þeirra hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur í Heiðmörk í byrjun apríl. Tilgangur heimsóknarinnar var að kynnast þeim efniviði sem býr í skóginum í víðum skilningi. Verkefnin voru fjölbreytt og ólík, allt frá nálatínsluverkfæri, pallaefni, furukollum, furubekk, þrykk með viðarkolum til hugrenninga um lífshlaup furunnar. Bókverkið “THE 10 DAY TREE PROJECT” greindi frá verkunum sem öll tengdust furutré sem fellt var fyrir hópinn og unnið var útfrá. Kennari námskeiðsins var Anna Diljá Sigurðardóttir. Áður hefur verið fjallað um heimsókn nemendanna – sjá hér.

Skógræktarfélag Reykjavíkur telur mikilvægt að vera í virku samstarfi við menntastofnanir og stuðla þannig að aukinni meðvitund um mikilvægi skógræktar. Nemendur Tækniskólans í húsasmíði og húsgagnasmíði heimsækja reglulega viðarvinnslu félagsins og fjölmargir hópar úr Listaháskóla Íslands heimsækja félagið. Dvöl nema í vöruhönnun í Heiðmörk í fimm daga þar sem nemendur bjuggu í Elliðavatnsbænum og störfuðu þar og í viðarvinnslunni er nýbreytni en gaf nemendum einstakt tækifæri til að upplifa skógarumhverfi. Dvölin mun vonandi sá fræjum hugmynda sem leiða til sjálfbærar nýtingar efniviðar og upplifana í og úr skógi. Hlökkum til að fylgjast með iðnaðarmönnum og hönnuðum framtíðarinnar!

Nemandi útskýrir verkefni sitt sem fólst í frumhugmynd að bekk.

Kynning nemenda á hugmynd og ferli verks sem unnið er út frá furutré sem fellt var fyrir hópinn í Heiðmörk.

Þunnar sneiðar af furu sem þrykkt var á með lit úr viðarkolum.

Bókverkið “THE 10 DAY TREE PROJECT” greinir frá verkefnum allra nemenda sem tóku þátt í námskeiðinu Ferli skapandi hugsunar.