Fréttir

Nemar í vöruhönnun dvelja í Heiðmörk

Skógræktarfélag Reykjavíkur á í gjöfullu samstarfi við Listaháskóla Íslands. Nemar úr ýmsum deildum skólans heimsækja viðarvinnslu félagsins í Heiðmörk og fá kynningu á starfsemi félagsins og þeim afurðum sem unnar eru úr skóginum. Samstarfið er Skógræktarfélaginu mikilvægt enda markmið þess að stuðla að skógarmenningu í sem víðustum skilningi. Fyrirséð er að efniviður úr skógi mun hafa vaxandi þýðingu hér á landi á komandi árum og því mikilvægt að hlúa að þeim hópi sem móta mun hönnun í framtíðinni en þar er sjálfbærni sem fyrr lykilhugtak.

Nú í byrjun aprílmánaðar bar svo óvenjulega við að níu nemar á fyrsta ári í vöruhönnun dvöldu í Heiðmörk samfellt í fimm daga. Nemendur gistu í Elliðavatnsbænum, kynntust starfsemi viðarvinnslunar og höfðu vinnuaðstöðu í gamla steinhlaðna salnum. Með þessu gafst einstakt tækifæri til að upplifa svæðið og þá möguleika sem búa í skóginum. Dvölin var hluti af námskeiðinu Ferli skapandi hugsunar sem Anna Dilja Sigurðardóttir kennir. Í námskeiðinu kafa nemendur djúpt í heim hönnunarferilsins, takast á við og greina lykilhugtök í vinnu vöruhönnuða, efni, tækni, hugmynd og samband þeirra á milli. Lögð er áhersla á að fara frá hinu efnislega yfir í hið óhlutbundna auk þess lögð er áhersla á að greina hvaða hlutverki hönnuðir gegna í samfélaginu. Eftir dvölina í Heiðmörk halda nemendur áfram að vinna að verkefnum sínum en námskeiðinu lýkur í maí. Stefnt er að því að kynna og sýna afrakstur námskeiðsins í gamla salnum í Elliðavatnsbænum – spennandi!

Nemar á fyrsta ári í vöruhönnun í Listaháskóla Íslands. Nemendur námskeiðsins Ferli skapandi hugsunar dvöldu í Heiðmörk í fimm daga.

Gústaf Jarl kynnir nemendum viðarvinnslu Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Það er heillandi að fylgjast með þegar bolvið er flett í borðvið.

Nemdur fengu að kynnast sögunarmyllu félagsins og m.a. fylgjast með þegar flett var í borðvið með nýju bandsöginni.

Sú hugmynd nemenda að gera næfurþunna sneið af ösp kom vel út.

Vinnuaðstaða var í gamla salnum þangað sem ýmsum efniviði var safnað saman.

Í tunnunni eru greinar af sitkagreni og sem breytt er í kol með loftfyrðum bruna. Að auki lekur tjaran úr viðnum í skál undir botni tunnunar.

Það er heillandi að sitja við eldinn. Hraundís sá um að leiðbeina nemendum við kola- og tjörugerð.