Fréttir

Félagið fær styrk til að gera námsefni um skógarnytjar

Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur undanfarið boðið nemendum í trésmíði, arkitektúr og hönnun í vettvangsnám í Heiðmörk. Þetta er liður í því að byggja upp þekkingu og þróa innlenda viðarvinnslu. Íslenskir nytjaskógar eru í örum vexti auk þess sem mikil þróun er í nýtingu timburs og viðarafurða um allan heim. Því er til mikils að vinna að nýta þessa nýju auðlind okkar sem best.

Verkefnið hefur fengið heitið „Skógarnytjar“. Í júní fékk verkefnið styrk út Þróunarsjóði námsgagna, til að útbúa kennsluefni.

Hóparnir sem Skógræktarfélagið hefur tekið á móti, hafa fylgst með grisjun í skóginum, hvernig viður er þurrkaður og sagaður í í viðarvinnslu félagsins í Smiðjunni og fræðst um allt frá skógrækt og umhverfismálum til eiginleika mismunandi timburtegunda.

Til stendur að aðlaga kennsluefnið svo að það nýtist einnig við móttöku áhugasamra hópa – til dæmis trésmiða, arkitekta eða áhuga fólks um skógrækt og vistvæn byggingarefni. Þá verður hluti námsgagnanna útfræður fyrir grunnskólanemendur á aldrinum 10 til 12 ára.

Nemendur í trésmíði í Tækniskólanum hafa komið reglulega í vettvangsnám í Heiðmörk. Þá hafa nemendur Listaháskóla Íslands komið í vettvangsnám. Síðast í apríl á þessu ári þegar fyrsta árs nemar í vöruhönnun við skólann sögðu dvöldu hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur í Heiðmörk í fimm daga. Tilgangur heimsóknarinnar var að kynnast þeim efniviði sem býr í skóginum í víðum skilningi.

Stefnt er að móttöku húsasmíðanema úr Fjölbrautarskólanum í Breiðholti. Fjölmargir aðrir hópar koma í vettvangsnám eða -ferðir, svo sem nemendur í landslagsarkitektur við Harvard háskóla, sem heimsóttu Heiðmörk í september.

Samstarfið við skólana hefur verið ánægjulegt. Gaman er að fylgjast með því hvernig viður úr Heiðmörk – innlend, vistvæn afurð – hefur verið notaður á fallegan og nýstárlegan hátt.